133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[14:56]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir að koma með þessa fyrirspurn og ráðherra í sjálfu sér fyrir svörin. Ég tel fulla ástæðu til að hafa nokkrar áhyggjur af því hvernig þessi mál hafa verið að þróast. Það kom fram hjá ráðherra að ekki hafi verið veitt leyfi fyrir þessu námi en ég veit ekki betur en að þær sem eru að hefja nám í þessum skóla núna gangi út frá því sem vísu — ég segi þær því þetta eru yfirleitt konur — gangi út frá því sem vísu að þessi mál séu í réttum farvegi. Það er verið að rukka þessa nemendur um skólagjöld upp á um 1,5 millj. kr. Ég tel að það sé algerlega óforsvaranlegt að á sama tíma og mikið er talað um að bjóða upp á aukna möguleika til starfsnáms fyrir fólk á framhaldsskólastigi sé veruleikinn sá að það geti þá og því aðeins fengið kennslu í þessari grein að það fari í einkaskóla og borgi fyrir það 1,5 millj. kr. í skólagjöld.

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem verður að taka föstum tökum.