133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[14:57]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er sá að vilyrði ráðuneytisins í þessu máli er gulls ígildi. Þar með er t.d. komin heimild til að lána nemendum fyrir háum skólagjöldum og þar með er ríkið að sjálfsögðu farið að greiða fyrir námið og svo gott sem komið leyfi fyrir náminu. Það er alvarlegt mál. Því er haldið fram að um sé að ræða klíkuskap af hálfu ráðuneytis og ráðamanna, samráðs hafi ekki verið gætt við fagstéttirnar og gengið hafi verið fram hjá öllum eðlilegum grundvallarreglum við að koma á fót menntun og námsefni af hvaða tagi sem er. Þetta andrúmsloft þarf hæstv. ráðherra að sjálfsögðu að hreinsa að fullu því að mikil óánægja er meðal fagstéttanna í þessu máli, eins og kom nokkuð skýrt fram í máli nokkurra hv. þingmanna við umræðuna áðan. Þetta er vont mál og hreinsa þarf andrúmsloftið í því af því að það er búið að valda skaða að þessu leyti.