133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

nám í fótaaðgerðafræði.

182. mál
[14:58]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin sem voru í sjálfu sér ágæt. En það breytir ekki því að skólinn auglýsir að búið sé að fá leyfi fyrir rekstri þessa skóla og viðurkenningu ráðuneytisins, skólinn auglýsir að komin sé trygging fyrir námsláni, skólinn auglýsir að nám eigi að hefjast í byrjun janúar. Ef það leyfi liggur ekki fyrir tel ég að hæstv. ráðherra beri að sjá til þess að skólinn beri ekki á borð rangar upplýsingar því að þetta hlýtur allt að teljast rangt meðan leyfið liggur ekki fyrir frá ráðuneytinu.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að þetta fyrirkomulag og þessi vinnubrögð eru í algerri andstöðu við fagfélag þess fólks sem við þetta vinnur. Það hlýtur að teljast mjög neikvætt og þýða að eitthvað sé öðruvísi en best er á kosið. Ef fram fer sem horfir er líka verið að bjóða upp á nám hér á landi sem er styttra en á Norðurlöndunum, nágrannaríkjum okkar, og þar stendur til að lengja námið, en slíkt nám er mjög víða miklu lengra en það er hér og á Norðurlöndunum.

Það hlýtur líka að vera mjög umhugsunarvert að ráðuneyti menntamála ætli að samþykkja að sett sé á fót ný námsleið án þess að nokkur sem þar komi að uppfylli þau skilyrði sem ráðuneytið sjálft setur kennurum og skólastjórum.