133. löggjafarþing — 14. fundur,  18. okt. 2006.

framhaldsskóli í Mosfellsbæ.

120. mál
[15:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör og fagna því að framhaldsskóli í Mosfellsbæ skuli vera í augsýn en ég átti kannski von á nákvæmari svörum miðað við þá skýrslu sem m.a. flokksbræður hæstv. ráðherra notuðu í kosningabaráttunni í vor, þar sem þeir tilkynntu bæjarbúum hátíðlega degi fyrir kosningar að framhaldsskóli í Mosfellsbæ væri í algerri forgangsröð. Það örlar því á smávonbrigðum hjá mér, frú forseti.

Ég vil benda á að frá því að ég spurði fyrst um framhaldsskóla fyrir tveimur árum hefur íbúafjölgun í bænum orðið 17% þannig að þetta er orðið aðkallandi og ég tel að það eigi að stefna að því að opna fyrsta áfanga framhaldsskóla í Mosfellsbæ ekki seinna en 2010.