133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:48]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á næstu áratugum er augljóst að samfélagið mun taka miklum breytingum hér á landi eins og hv. málshefjandi, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, benti á. Vaxandi ævilíkur og aukið hlutfall aldraðra mun setja mark sitt á framtíðarþróunina, þjóðin er að eldast og hún eldist hratt. Stóru árgangarnir sem fæddust eftir stríð fara nú að færast í hóp aldraðra hér á landi. Ég hygg að þær tölur sem hér hafa verið nefndar séu einmitt merki þess að það er orðið mjög brýnt að gera átak í öllum þessum málum, ekki síst því máli sem við ræðum í dag. 3.000 manns með heilabilun, þar af 60% með alzheimer, biðtími í 4–5 mánuði. Það er ljóst að gera þarf gangskör að því.

Í aðdraganda kosninga síðastliðið vor var mikið talað um byggingu nýrra hjúkrunarheimila, ekki minnst af núverandi stjórnarflokkum, enda var þörfin brýn þá og hún er brýnni nú og hún verður enn brýnni í fyrirsjáanlegri framtíð. Sú kynslóð sem dvelur nú á hjúkrunarheimilum er kynslóðin sem lagði hornsteininn að þeirri velmegun sem við búum við í dag. Þetta fólk verðskuldar að sjálfsögðu að við launum því, sýnum því virðingu og þakklæti með því að gefa því kost á bestu umönnun sem völ er á svo það megi búa við öryggi á ævikvöldinu.

Við hljótum að gera þá kröfu að við höfum hér skýr viðmið. Við verðum að setja lágmarkskröfur um heilbrigðisþjónustu við hjúkrunarsjúklinga þar sem ríkið tryggir þeim sem umönnunina veita þá tekjustofna sem duga. Við verðum að skylda hjúkrunarheimili til að setja sér gæðastaðla og markmið með starfsemi sinni ef þau hafa ekki þegar gert það. Síðast en ekki síst megum við ekki gleyma því að sá hópur sem við ræðum um í dag er einmitt sá hópur sem vart getur borið hönd fyrir höfuð sér eða barist fyrir eigin réttindum vegna eðlis sjúkdómsins, þ.e. heilabilunar. Því skulum við ekki gleyma, virðulegi forseti, og ég lýk ræðu minni á sömu orðum og ég hóf þau: Hér þarf átak til.