133. löggjafarþing — 15. fundur,  18. okt. 2006.

þjónusta við heilabilaða.

[15:57]
Hlusta

Þórdís Sigurðardóttir (S):

Virðulegi forseti. Unnið hefur verið markvisst að því í mörg ár að minnka biðlista eftir meðferð og úrræðum í heilbrigðiskerfinu, en betur má ef duga skal. Árangur hefur náðst á mörgum sviðum en því miður eru enn þá deildir og svið sem huga þarf betur að. Hækkandi lífaldur og stærri árgangar aldraðra valda því að það fjölgar í þeim hópi fólks sem glímir við heilabilun. Sem betur fer eru augu almennings og stjórnvalda að opnast fyrir þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í málefnum heilabilaðra. Það er ekki síst að tilstuðlan fjölmargra aðstandenda heilabilaðra sem hafa tjáð sig um þetta málefni undanfarið í fjölmiðlum, í nýútkominni bók eftir Hönnu Láru Steinsson og einnig á nýafstöðnu málþingi um málefni heilabilaðra. Aðstandendur hafa vakið athygli okkar hinna og vil ég þakka sérstaklega fyrir það og segja að það snertir mann djúpt að lesa þessar greinar aðstandenda fyrir utan að auka skilning á málefninu.

Við skulum vera raunsæ þegar kemur að úrræðum. Vandamálin í málefnum heilabilaðra verða því miður ekki leyst einn, tveir og tíu. Taka þarf þetta málefni sérstaklega fyrir, stefnumótunar er þörf og gera þarf markvissa framkvæmda- og fjárhagsáætlun. Aukið fjármagn þarf til og því þarf endurskoðun á forgangsröðun verkefna. Möguleikar á aukinni þjónustu við heimahjúkrun og almennri aðstoð við athafnir daglegs lífs heilabilaðra er hugsanlega þáttur sem leggja ætti meiri áherslu á eins og komið hefur fram í fyrri ræðum. Rannsóknir sýna að ef sjúklingur fær aðstoð umönnunaraðila í heimahúsi minnkar það líkur á vistun á heilbrigðisstofnun. Þær tölur koma auðvitað ekki á óvart og þarf því að huga vel að þeim þætti.

Athygli mína vekur einnig hversu stutt á veg rannsóknir á heilabilun eru komnar og (Forseti hringir.) því tel ég skynsamlegt að efla þær rannsóknir.