133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[13:33]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Ég flyt þingsályktunartillögu um að gerð verði úttekt á hækkun rafmagnsverðs í kjölfar nýrra raforkulaga um breytta skipan raforkumála sem tók gildi í ársbyrjun 2005 en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að gerð verði úttekt á því hvaða breytingar hafa orðið á rafmagnsverði til almennra notenda og fyrirtækja í kjölfar breytinga sem urðu á skipulagi raforkumarkaðarins áramótin 2004/2005. Gerð verði grein fyrir þróun raforkuverðs, sundurliðað eftir helstu notendaflokkum og gjaldskrársvæðum. Niðurstaða úttektarinnar, sem nái til allra tegunda viðskipta með raforku, liggi fyrir 15. febrúar 2007.“

Það er ekki svo að ég sé einn áhugamaður um þetta heldur flytur öll stjórnarandstaðan tillöguna með okkur og fleiri hafa ályktað um þessi mál, t.d. hagsmunaaðilar og samtök sveitarstjórna því þetta mál liggur mjög þungt á mörgum, ekki síst bændum. Rafmagnsreikningar þeirra hafa hækkað gríðarlega og ég furða mig eilítið á því að hæstv. byggðamálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins og núverandi iðnaðarráðherra skuli ekki vera hér til að gera grein fyrir þessu máli en forveri hans í því starfi, sem nú gegnir stöðu utanríkisráðherra, sagði þegar var verið að innleiða þessi lög að hækkunin yrði u.þ.b. 100 kr. Það er þó alls ekki þannig að þessi breyting hafi leitt til 100 kr. hækkana á raforkuseðlum landsmanna heldur hefur hækkunin jafnvel numið tugþúsundum eða a.m.k. tugprósentum. Og það er algerlega óþolandi að stjórnvöld innleiði hækkun sem þessa án þess að gerð sé grein fyrir í hverju hún felst og þetta kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum því það var búið að boða allt annað þegar þessi breyting var innleidd á Alþingi. Ég skora á framsóknarmenn og sjálfstæðismenn að gera grein fyrir þessu.

Þetta frumvarp átti að leiða til samkeppni og hagræðingar á raforkumarkaði en almennir neytendur hafa einungis séð hækkun og það er stórundarlegt að ekki sé gerð betri grein fyrir málinu en gerð hefur verið. Að vísu kom raforkuskýrsla sem hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra kynnti á þingi en það var ekki nokkur leið að sjá hver hækkunin var og hvers vegna hún varð. Það var hækkun hér og lækkun þar og öllu grautað saman en þó var eitt mjög áberandi í skýrslunni. Þar kemur fram, á bls. 25, samanber súlurit og eins og sjá má á þskj. 5, að ef raforkuverð hér er borið saman við raforkuverð á Norðurlöndum eða í Bretlandi og Frakklandi, þá segir einfaldlega í skýrslunni að raforkuverð til stærri iðnfyrirtækja sé í hærri kantinum á Íslandi miðað við samanburðarlöndin. En þó hefur ekki verið gerð grein fyrir því hvað hækkunin varð mikil né hversu mikið hún stafaði af breytingunni á raforkumarkaðnum.

En það er í rauninni ekkert undarlegt þegar menn fara af stað með samkeppni á markaði þar sem eingöngu eru opinber fyrirtæki að menn sjái einungis hækkun. Það verður líka að líta til þess að þessi svokallaða samkeppni nær einungis til lítils hluta af raforkumarkaðnum og eftir að Reyðarál verður komið í notkun er hinn svokallaði samkeppnismarkaður bara fimmtungur af öllum raforkumarkaðnum. 80% eru í föstum samningum. Það þarf að gera grein fyrir þessu og ég skora á stjórnvöld að veita tillögu okkar brautargengi og það væri fáheyrt ef menn ætluðu að fara með þetta mál allt í þoku í næstu kosningar og gera ekki grein fyrir því hver raunveruleg hækkun varð við breytinguna. En eins og áður segir eru fleiri en við í stjórnarandstöðunni sem hafa talað um þessi mál og ég vil minna á að bakarar landsins hafa orðið fyrir barðinu á þessari hækkun og hafa sent frá sér ályktun sem mér finnst rétt að lesa upp, en aðalfundur Landssambands bakarameistara ályktaði um málið þann 4. mars sl. og mótmælti harðlega þeirri hækkun sem orðið hefur á raforku til bakaría við það að ný raforkulög tóku gildi í byrjun árs 2005. Við það breyttust taxtar sem orkufyrirtæki á öllu landinu innheimta eftir. Í ályktun þeirra segir, með leyfi forseta:

„Stærstur hluti raforkunotkunar í bakaríum fer fram á þeim tíma sólarhrings þegar almenn orkunotkun er í lágmarki. Bakarí hafa hingað til notið betri kjara af þeim sökum gegn því að hægt væri að rjúfa rafmagn til þeirra á öðrum tíma sólarhringsins.

Við breytingar á raforkulögum var þeim samningum rift með einu pennastriki og við það hækkaði rafmagnsverð bakaría um allt að 50%. Þessar hækkanir hafa smám saman verið að koma í ljós frá því að nýju orkulögin tóku gildi og enda óhjákvæmilega í hærra vöruverði. Bakarameistarar telja þessa hækkun ekki vera í samræmi við vilja stjórnvalda til að lækka verð á matvælum og hvetja orkusala til að koma til móts við óskir bakara um að leita leiða til að lækka orkuverð.“

Það er ljóst, herra forseti, að bakarar hafa orðið fyrir gífurlegri hækkun og það er rétt að spyrja hvað hækkunin hefur orðið mikil í þeim hluta kerfisins sem hefur átt að njóta samkeppninnar. Það hefur ekki verið gerð grein fyrir því. Það er ekki svo að raforkuneytendur í Reykjavík hafi notið einhverrar lækkunar, alls ekki. Í viðtali við forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur kom fram að orðið hefði hækkun vegna raforkulaga. En hvert runnu þeir peningar? Það er rétt að gerð verði rækilega grein fyrir þessu vegna þess að þeir hafa ekki runnið út á land, a.m.k. sjá hvorki bændur þá peninga í lægra raforkuverði né aðrir skattgreiðendur, vegna þess að niðurgreiðslur almennra skattgreiðenda hafa verið auknar um hundruð milljóna síðan þessi lög tóku gildi. Það er því víða pottur brotinn hvað þessa framkvæmd varðar hjá Framsóknarflokknum með aðstoð Sjálfstæðisflokksins og ég undra mig á því að þessir flokkar hafi ekki gert betur grein fyrir ástæðunum. Á þingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra á Gauksmýri í ágúst sl. var m.a. samþykkt eftirfarandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„SSNV … ítrekar að stjórnvöld standi við gefin loforð um að ekki komi til hækkunar á raforkuverði vegna breytinga á raforkulögum og brugðist verði við þeim hækkunum sem þegar hafa orðið. Hækkandi raforkukostnaður er verulega íþyngjandi og við því verða stjórnvöld að bregðast nú þegar.“

Hafa stjórnvöld brugðist við? Nei. Þau hafa heldur ekki brugðist við með því að vera hér og svara fyrir. Hæstv. byggðamálaráðherra er í einhverjum allt öðrum verkum. Ég veit ekki hvað hann er að gera. En hér væri tækifæri til að gera grein fyrir máli sínu og svara því hver sé ástæðan fyrir þessum hækkunum. Fjölmargir hagsmunaaðilar kvarta sáran yfir þeim og það er hægt að leiða mörg rök að því að landsmenn hefðu almennt átt að sjá mikla lækkun á raforkureikningum, m.a. vegna þess að það er búið að byggja upp gott kerfi hringinn í kringum landið og öflugar virkjanir og farið að greiða þær niður. Gengið hefur verið hagstætt til að greiða niður erlend lán á sl. ári og því hefði bæði bætt tækni og annað átt að verða til þess að rafmagnsreikningar lækkuðu. En það er alls ekki svo. Því miður er það einnig þannig að rafmagnsreikningarnir eru svo flóknir að hinn almenni neytandi á mjög erfitt með að fara í gegnum þá. Þetta eru jafnvel 2–3 blaðsíður hjá hinum almenna neytanda. Gamall maður á Siglufirði kom með reikninginn sinn til mín. Þetta var reikningur m.a. vegna húss á Laugavegi og svo var hann með skúrgarm og þetta var sex blaðsíðna reikningur. Úr þessu þarf að bæta, að fólk fái einhvern skilning á reikningum sem hafa einungis hækkað en ekki lækkað þrátt fyrir loforð stjórnvalda sem gefin voru þegar farið var af stað með þessa breytingu á raforkumarkaðnum. Mig undrar að Sjálfstæðisflokkurinn, sem kennir sig stundum við markaðsöflin, skuli halda á spilunum eins og raun ber vitni vegna þess að þetta kemur óorði á markaðsöflin. Þegar á að fara að hleypa markaðsöflunum af stað í samkeppni á raforkumarkaði þá sjá neytendur einungis hækkanir en ekki lækkanir. Ég skora á stjórnarmeirihlutann að veita þessu máli brautargengi í gegnum þingið vegna þess að þetta mál varðar marga mjög miklu, t.d. bakara landsins og bændur sem sjá gríðarlega háa rafmagnsreikninga í kjölfar þessara laga, herra forseti.

Að lokum vil ég að málinu verði vísað til iðnaðarnefndar.