133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að skýra betur hvað vakir fyrir mönnum með þessari úttekt. Ég geri ekki ágreining um að láta gera úttektina. Ég tek undir að hún yrði að vera víðtæk og ná til allra þátta breytinganna þannig að menn geti lagt mat á þær. En svo þarf að svara því, sem mér finnst að hv. þm. Jón Bjarnason hafi ekki svarað: Hvað ætlar hann að gera við niðurstöðuna?

Mér heyrist á honum að hann ætli að nota niðurstöðuna sem rökstuðning í því að fara aftur í tímann og taka upp gamla fyrirkomulagið. Það er út af fyrir sig skoðun og ég geri ekki ágreining við að hann hafi þá skoðun þótt ég sé ekki sammála henni, að fara aftur í tímann úr því sem komið er. Ég hafði að vísu efasemdir um að rétt væri að stíga öll þessi skref en það var gert og þá stendur maður að því og leitast við að vinna að málinu þannig að það nái fram að ganga eins og til var ætlast. Hv. þm. Jón Bjarnason verður að skýra af hverju hann er á móti í núverandi kerfi.

Ég skal fara yfir málið eins og það blasir við mér. Breytingin var miklu minni en ætla mætti. Breytingin laut bara að því að framleiða rafmagn. Hún var sú að opnað var fyrir að fleiri aðilar fengju að framleiða rafmagn en áður og ná samningum um sölu á umtalsverðu magni. Áður fyrr var það bara Landsvirkjun, sem fyrirtæki hins opinbera, sem hafði leyfi til þess að ráðast í stórar virkjanir og semja um að selja rafmagn til stórra fyrirtækja, hvort sem það var stóriðja eða eitthvað annað.

Er það það sem hv. þingmaður er á móti, að hafa tekið þetta vald af Landsvirkjun? Vill hann að Landsvirkjun fái í megindráttum aftur einkaleyfi á framleiðslu rafmagns þannig að menn norður í Skagafirði, í Þingeyjarsýslum eða á Austurlandi, hafi ekkert um það að segja hvort ráðist verði í raforkuframleiðslu á þeirra svæði? Þeir verði bara að hafa leyfi frá stjórnvöldum, sem þýðir í reynd, miðað við kerfið eins og það var, leyfi frá ríkisstjórninni á hverjum tíma. Er hv. þm. Jón Bjarnason að segja: Ég vil hafa það kerfi að enginn megi framleiða rafmagn í nokkrum mæli nema að ég leyfi það? Þannig skil ég hv. þingmann. Ég bið hann þá að leiðrétta mig ef það er rangt. Þetta var ein meginbreytingin, að opna fyrir að afnema einkaleyfi á framleiðslu rafmagns.

Hin breytingin var að afnumið var einkaleyfi á smásölu rafmagns. Nú geta allir raforkuframleiðendur selt rafmagn og kaupendur keypt af öllum og kerfi útbúið sem gerir mönnum það kleift. Er hv. þingmaður á móti því? Er hann á móti því að Orkubú Vestfjarða geti selt rafmagn til heimila á höfuðborgarsvæðinu? Eða er hann á móti því að orkufyrirtæki í Þingeyjarsýslu, svo ég nefni dæmi, sem kann að fara að framleiða rafmagn, selji það á Akureyri eða í Reykjavík? Vill hann að það verði bara einn aðili sem geti selt rafmagn, þ.e. Landsvirkjun eða dreififyrirtæki í eigu hins opinbera sem kaupa af Landsvirkjun?

Dreifingin er óbreytt í meginatriðum. Hún var á hendi hins opinbera og er það áfram. Það er opinbert kerfi í opinberri eigu með opinberri verðmyndun. Ég býst ekki við að hv. þm. Jón Bjarnason andmæli þeim þætti málsins. Hann telur vafalítið að það sé skynsamlegt kerfi og leggur væntanlega ekki til að breyta því.

Fjórði þátturinn sem ég vil nefna, sem hefur breyst, er jöfnunin í kerfinu. Áður verðlögðu fyrirtæki söluna, en ekki endilega eftir því hvað kostaði að framleiða og flytja rafmagn til tiltekins notanda. Það var innri verðjöfnun, sérstaklega þannig að þéttbýli borgaði meira en það þurfti til að dreifbýlið borgaði minna en kostnaðinum nam. Það var sem sé innri verðjöfnun. Þessu var breytt þannig að settur var fullur þungi á dreifbýlið. Þéttbýlið fékk lægra verð og naut þess en hugmyndin var að dreifbýlið ætti ekki að gjalda fyrir hækkunina vegna þess að niðurgreiðslur úr ríkissjóði áttu að aukast á móti hækkuninni.

Ég held að þessi þáttur hafi farið úr skorðum. Ég held að niðurgreiðslan úr ríkissjóði hafi ekki verið nógu mikil til að jafna verðbreytinguna í dreifbýlinu. Ég hugsa að óánægjan með breytinguna sé fyrst og fremst, þegar hún er skoðuð, afmörkuð við þennan þátt málsins. Ég held að það sé einmitt ágætt að gera úttekt á málinu til að draga fram hvernig þessi breyting hefur verið til að við getum lagað hana, af því að menn sögðu að breytingin ætti ekki að leiða til neinnar verulegrar hækkunar. Við eigum auðvitað að láta það standa.

Rökin fyrir að gera þessa breytingu á jöfnuninni voru að ella mundi kerfið ekki samrýmast reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, um ríkisstuðning eða slíkt. Ég er algerlega ósammála því. Ég held að menn séu orðnir kaþólskari en páfinn ef menn afnema alla innri jöfnun í verðlagningu á raforku. Hún er auðvitað áfram fyrir hendi því það er ekki hægt að ákvarða verð á raforku eftir notendum. Þeir skipta náttúrlega þúsundum eða tugum þúsunda. Verð til hvers og eins er breytilegt eftir vegalengdum flutnings og öðru slíku. Auðvitað eru menn með innri verðjöfnun áfram og geta haft hana í svipuðum mæli og var áður. Mér finnst að þéttbýlið geti alveg lagt á sig að borga, eins og áður var, meira til að jafna verðlagninguna í þéttbýli. Ég held að við ættum að færa okkur til baka að því leyti.

Ég bíð spenntur eftir að heyra sjónarmið hv. þm. Jóns Bjarnasonar um þetta, hverju hann er á móti. Vill hann laga jöfnunarþáttinn eða afnema breytinguna í framleiðslunni og sölunni?