133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þeir sem hlýða á mál hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar spyrji: Hver er hin eiginlega afstaða þingmannsins? Vegna þess að af og til hleypur þingmaðurinn í persónulega skoðun og þess á milli í stefnu flokks síns og við vitum að þar er einn hrærigrautur.

Ljóst er að Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir markaðsvæðingu rafmagnsins, orkunnar hér á landi og ekki er öll sagan sögð hjá hv. þingmanni þegar hann talar um þær breytingar sem urðu. Það sem gerðist var að þessu var skipt upp í þrennt. Nýtt fyrirtæki, Landsnet, var stofnað og það er vissulega fagnaðarefni að það skuli ekki enn vera selt, en það er á opinbera ábyrgð og í opinberri eigu. Það sér um meginflutninginn og þar kemur inn milliliður sem tekur sinn kostnað. Síðan er það orkuöflunin og þá dreifing til neytenda þannig að þetta er meiri breyting en hv. þingmaður lýsti.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann í rauninni alveg sáttur við þetta eins og þetta er nú, þá mismunun sem okkur hefur verið kynnt úti um land, þá mismunun sem raforkunotendur telja sig verða fyrir bæði hvað varðar verð og gæði rafmagnsins? Er hann sáttur við það, finnst honum það allt í lagi?

Í öðru lagi: Finnst honum allt í lagi að stóriðjan fái raforkuna alla á samningsverði og það séu einungis liðlega 20% sem raunverulega eru á þeim markaði sem við erum hér að ræða um? Finnst honum það eðlilegt í þessu raforkumarkaðskerfi sem hann er búinn að koma á, hv. þingmaður, með flokki sínum? (Forseti hringir.)

Í lokin: Skilur hann þá tillögu sem hér er flutt?