133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

úttekt á hækkun rafmagnsverðs.

5. mál
[14:52]
Hlusta

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Þessi þingsályktunartillaga sýnir samstöðu stjórnarandstöðunnar í þinginu um að draga fram hve óhönduglega hefur tekist hjá stjórnarflokkunum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki, við það að breyta rafmagnskerfinu í landinu. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson að segja að allir hafi stutt þetta frumvarp á sínum tíma og að þessar breytingar yrðu ekki fyrirséðar.

Það er ekki svo. Þeir sem studdu þetta á sínum tíma í stjórnarandstöðuflokkunum gerðu það vegna þess að gefin voru ákveðin fyrirheit um að ekki yrðu gríðarlegar hækkanir og ekki mjög miklar breytingar. En því miður berast fréttar hvaðanæva að úr þjóðfélaginu, frá iðnaðinum, frá sveitarfélögum, um að afar illa hafi tekist til hjá Framsóknarflokknum við að breyta þessu. Ég spyr: Eigum við þá ekki að skoða málið og fara yfir það?

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tekur undir að fara eigi í gegnum slíka umræðu og skoða málið. En ég er ekki viss um að hann tali fyrir hönd alls þingflokksins vegna þess að ég þráspurði þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra um hvað hefðu orðið miklar hækkanir á raforku í þeim hluta sem samkeppni ríkti en engin svör fengust. Þess vegna hef ég það á tilfinningunni að sumir hverjir í Framsóknarflokknum og meiri hlutinn vilji ekki að þessar staðreyndir komi fram.

Stundum er sú röksemd notuð að þetta sé eðlileg afleiðing þessara breytinga og hækkanir séu réttlættar með því að núverandi skipan hafi það í för með sér að allir raforkunotendur eigi að sitja við sama borð. Það á stundum við og stundum ekki. Að minnsta kosti ákvað ríkisstjórnin í sumar að gefa sérstakan afslátt til sumra og annarra ekki. Umræða og þessi könnun þarf því að fara fram og þetta verður að skoða rækilega ofan í kjölinn.

Reynt hefur verið að draga það fram að einhver óeining ríki um hvað eigi að gera síðan við niðurstöðurnar og hvort menn ætli að snúa ofan af núverandi skipan og fara til baka eða halda áfram. Ég verð að segja að sú leið sem farin hefur verið, sem hefur leitt til hækkana hjá almennum notendum, hjá iðnfyrirtækjum, er ekki heillavænleg þróun. Þetta er í rauninni sýndarsamkeppni opinberra fyrirtækja, fyrirtækja sem eru nánast í eigu sömu aðila. Það á því að spyrja gagnrýnna spurninga: Á hvaða vegferð erum við í þessum málum?

Ég furða mig eilítið á því að sjálfstæðismenn skuli ekki taka þátt í umræðunni og láti Vinstri græna vera eina um það að draga niður þennan markaðsbúskap með raforkuna vegna þess að þeir eru í aðstöðu til að færa rök fyrir markaðsbúskap með raforkuna. Það er ekki heillavænlegt fyrir þá sem styðja frjálsan markað á sem flestum sviðum, að hafa þetta dæmi fyrir augunum á sér, að fá ekki viðhlítandi röksemdir hjá stjórnvöldum hvers vegna almenningur og minni iðnfyrirtæki, svo sem bakarar, fara svona illa út úr þessari breytingu á raforkumarkaðnum.

Ég hefði stutt að breytingar yrðu í markaðsátt en þetta kerfi kemur óorði á markaðsöflin, að sjá eingöngu hækkanir hjá þeim aðilum sem eru í svokölluðu samkeppnisumhverfi sem er að verða í rauninni einungis fimmtungur, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, af heildarraforkunotkun í landinu. 80% af allri raforkunotkuninni kemur þessu breytta fyrirkomulagi ekki nokkurn skapaðan hlut við. Það er raforka sem er í föstum samningum og kemur þessari hækkun ekkert við. Einnig hefur verið leitt getum að því að að einhverju leyti hafi verið fært af þessum hluta yfir á samkeppnishlutann. Þessu þarf að svara en þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, kom sér ítrekað undan að svara því og hefur orðið uppvís að því að gera ekki rétt grein fyrir því hverjar afleiðingarnar verða fyrir landsmenn. Þetta skiptir verulega miklu máli.

Ef til vill hefur Framsóknarflokkurinn fjarlægst að mörgu leyti hinar dreifðu byggðir. Sérstaklega má færa rök fyrir því með nýkjörnum formanni, sem skrifaði merka grein um borgríkið Ísland í Borgnesingabók fyrir um tveimur árum og þá var hann einn helsti hugmyndafræðingur Framsóknarflokksins.

Þar kemur fram, með leyfi forseta, orðrétt:

„Tæplega verður litið á byggð sem einingu ef þar búa færri en átta til tólf þúsund manns nema sérstakir landshættir valdi.“

Þetta eru orð núverandi formanns Framsóknarflokksins og ef til vill sjáum við þessa hugsun formannsins speglast í því tómlæti sem hann sýnir þessari þingsályktun og þeim ályktunum sem koma frá sveitarfélögunum víða um landið.

Við verðum að gæta að því að raforkuverðið skiptir mjög miklu máli fyrir iðnfyrirtæki og þetta er einn sá þáttur, ef við héldum vel á spilunum, sem við gætum boðið á lægra verði en þau lönd sem við erum í samkeppni við. En því miður kom fram í úttekt iðnaðarráðherra, skýrslu hans um raforkumálefni, að iðnfyrirtækin eru að fá orkuna á hærra verði. Ég segi: Við erum lengra frá mörkuðunum og við ætlum okkur ekkert að greiða lægri laun á Íslandi en á Norðurlöndunum, Bretlandi, Frakklandi og þeim löndum sem voru gefin upp sem samanburðarlönd í skýrslunni. Við gætum mögulega komið upp markaðsforskoti hvað varðar raforkuna en því miður er raforkuverð hér hærra en í þeim löndum sem við ættum að geta boðið rafmagn á lægra verði.

Ég vil að lokum þakka ágætar undirtektir sem þingsályktunartillagan hefur fengið og vonast svo sannarlega til að þau viðhorf sem komu fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni endurspegli að nokkru leyti viðhorf annarra framsóknarmanna, þó svo að ég efist að einhverju leyti um það vegna þess m.a. að honum var ekki treyst af flokkssystkinum sínum til áframhaldandi setu sem formaður í iðnaðarnefnd. Þess vegna óttast maður að þetta mál muni daga að einhverju leyti uppi, að menn reyni að ýta málinu út af borðinu. En ég er á því og það er skoðun mín að við það verði í rauninni ekki unað og að lokum muni koma fram hvað þessi hækkun hefur orðið mikil á þeim hluta markaðarins sem átti að vera í svokölluðu samkeppnisumhverfi og átti miklu frekar að fá lækkun en hækkun.