133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[15:34]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst að hv. þm. Pétur H. Blöndal þurfi að hefja sig upp fyrir smáu dæmin, að bera saman einn einstakling við annan, eina konu við aðra. Þá sjáum við ekki skóginn fyrir trjánum. Við erum að reyna að sjá allan skóginn. Við reynum að hefja okkur upp yfir einstök dæmi og reyna að skoða heildina. Við teljum að tækin sem hér er verið að fjalla um séu þess eðlis að þau virki fyrir heildina.

Ég tel rétt að setja mikla orku í að leiðrétta misréttið sem heildin verður fyrir. Ef við sitjum þá uppi með einstaklinga sem er mismunað af einhverjum sökum þá sjáum við þau dæmi betur, þegar búið er að leiðrétta heildaróréttlætið.

Ég er þeirrar skoðunar að við eigum fyrst að takast á við stóru línurnar. Um leið og við sjáum að við erum þess megnug að vinna á kynbundnum launamun þá skulum við tala um konu sem er mismunað vegna konu. En núna reynum við að einbeita okkur að hinu, stóru myndinni, heildardráttunum.

Varðandi það að konur fá ekki framgang í samfélaginu þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég veit að við erum sammála að mörgu leyti. Þess vegna tel ég að ég að hv. þingmaður gæti fylgt okkur í stjórnarandstöðunni við að kúska þessa ríkisstjórn til þannig að við sjáum einhverjar breytingar. Hér erum við með tæki sem er þess megnugt að breyta stóru dráttunum, heildarmyndinni. Það þurfum við að gera og við þurfum til þess stuðning allra sem eru sama sinnis í þessum sal.