133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[15:51]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er mjög við hæfi að við skulum ræða þetta frumvarp sem stjórnarandstaðan sameinuð leggur fram um endurbætur á jafnréttislögunum til að draga úr launamisrétti kynjanna. Þetta launamisrétti er hneyksli í samfélagi okkar hinu íslenska árið 2006.

Þess er að minnast að í fyrra var haldið upp á afmæli, reyndar mörg en þó einkum eitt í sögu jafnréttismála á Íslandi og það var 30 ára afmæli kvennadagsins, kvennaverkfallsins sögðu sumir, árið 1975. Aðalkrafan þann dag var um launajafnrétti og það er sorglegt að við skulum 31 ári síðar ekki vera komin lengra að fylla þær væntingar sem konur og karlar létu í ljósi þann dag. Að það skuli vera svo að við séum að tala um endurbætur á jafnréttislögum og um launamisrétti kynjanna eftir allan þennan tíma og allt það tal sem úthellt hefur verið yfir þessi mál.

Það er við hæfi að við skulum ræða þetta í dag, forseti, vegna þess að í síðustu viku, eða þarsíðustu, kom einmitt í ljós að sú könnun sem félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa gerðu góðu heilli eða létu fyrirtæki gera, sem nú heitir Capacent af óljósum ástæðum en hét áður Gallup, sýnir að launamisrétti er hið sama árið 2006 og var árið 1994, fyrir 12 árum. Hið sama segi ég en það er ekki rétt að tvennu leyti. Í fyrsta lagi því að hinn óútskýrði launamunur, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um áðan og ég tek undir þau orð, en það er það hugtak sem er notað í könnuninni, er 15,7% en var 16% í hliðstæðri könnun fyrir 12 árum, þannig að þokast hefur í áttina um 0,3% sem er auðvitað ákaflega lítið ef nokkuð.

Hin athugasemdin er öllu stórvægilegri en hún er sú að í könnuninni er aðeins rætt um laun fyrir skatta, þau laun sem standa efst á launaseðlunum sem fólk fær í hendurnar.

Á þeim tíma, frá 1994–2006, sem væntanlega fyrir tilviljun eða sumir kunna að álíta það er nokkurn veginn stjórnartími þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr, hafa laun eftir skatta fengið þá útreið að laun lágtekjumanna og meðaltekjumanna flestra hafa verið skattlögð meira en laun hátekjumanna og þeirra sem eru í hærri meðaltekjuhópum, þó einkum þeirra sem hæstar tekjur fá. Þetta þýðir að sá launamunur sem félagsmálaráðuneytið kynnti þegar skýrslan kom út með þeim orðum að hann væri jafn og fyrir 12 árum, og sagði reyndar að niðurstöðurnar væru bæði jákvæðar og neikvæðar, það er því miður rangt hjá félagsmálaráðuneytinu. Hann er ekki jafn, hann hefur aukist. Misréttið hefur versnað á þessum 12 árum vegna þess að menn verða að reikna inn í þá skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem leiðir til þess að lágtekjufólk og meðaltekjufólk borgar meira en hátekjufólk minna. Auðvitað er hægt að tala um að kaupmáttur hafi batnað og það hefur hann vissulega gert en fólk fær sem sé ekki að njóta þess kaupmáttar í sömu hlutföllum heldur er það þannig samkvæmt rannsóknum sem ég held að jafnvel stjórnarsinnar, jafnvel hv. þm. Pétur Blöndal, séu hættir að reyna að hrekja.

Konur og karlar eru ekki jöfn gagnvart þessu frekar en á öðrum sviðum. Það kemur fram í skýrslu Capacents að meðallaun karla í febrúar–mars á þessu ári, og þá er verið að tala um fólk í fullri vinnu, voru 482 þús. kr. en meðallaun kvenna á sama tíma 326 þús. kr. Það munar sem sé um 160 þús. kr. Þessar tölur segja einfaldlega þá sögu að konur eru miklu fleiri í lágtekju- og meðaltekjuhópum en karlar. Launamunurinn hefur því versnað og nú þarf bara einhver að reikna út hvað hann hefur versnað mikið. Hafi þessi tillaga verið brýn þegar hún var sett saman þá er hún enn þá brýnni nú.

Ég þarf ekki eftir ræður tveggja flutningsmanna að fara yfir í smáatriðum hvað felst í frumvarpinu. Það eru þessar þrjár höfuðleiðir sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi áðan. Það er sú leið að fá Jafnréttisstofu verkfæri í hendur til að kanna launamun innan fyrirtækjanna. Það er að banna launaleynd eða banna þvingun til launaleyndar með því ákvæði að launamaður geti alltaf sagt öðrum frá launum sínum ef honum svo sýnist og það sé bannað að láta hann skrifa undir samning sem margir kannast við um að laun hans séu leyndarmál. Það er sú þvingun sem er verið að afnema en ekki út af fyrir sig verið að þvinga neinn til að skýra frá launum sínum — það var misskilningur sem kom fram í andsvörum áðan — heldur er það sú þvingun að launamaður sé látinn skrifa undir samning þess efnis sem verið er að banna með þessu.

Í þriðja lagi að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi og þar með gildir að lögum, sem á vantar núna og er galli í kerfinu.

Tvennt annað felst í frumvarpinu. Í fyrsta lagi að jafnréttisfulltrúar, sem hafa sömu réttindi og skyldur og trúnaðarmenn, séu að störfum í öllum fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn, en nú er í lögunum aðeins getið um ráðuneyti í þessu efni. Síðan það að þegar nefndir eru skipaðar, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skulu hlutföll kynjanna vera sem jöfnust og tilnefningaraðilar eins og hér segir skulu tilnefna bæði karl og konu í slíka nefnd.

Þarna þarf að vísu, ef ég má bæta því við, að athuga í verki hvernig þessu er háttað því þessi siður, sem m.a. nokkur ráðuneyti hafa tekið upp, hefur skapað tilnefnandanum fullmikil völd. Hann getur sem sé valið úr þessum hópi sjálfur sem ekki stóð til þegar menn tóku upp og féllust á þessa tillögu á sumum stöðum. Það þarf því að athuga í framhaldinu hvernig farið er með þessar tvær tilnefningar, hvort þær eru stokkaðar saman af tilviljun eða hvernig menn gera það.

Ég held að þetta frumvarp til laga sem hér er fram lagt af hálfu stjórnarandstöðunnar marki ákveðin tímamót, ekki af því að málin séu ný, þau eru það ekki, en það gerir það vegna þess að stjórnarandstaðan hefur sameinuð ákveðið að jafnréttismálin og launamunur kynjanna sé eitt af áherslumálum stjórnarandstöðunnar í vetur á þinginu og væntanlega í vor í kosningunum. Þar með hefur stjórnarandstaðan lyft jafnréttismálunum á mjög myndarlegan hátt og táknrænan, einkum þegar miðað er við þá áherslu sem jafnréttismálin hafa fengið hjá þeirri ríkisstjórn sem nú hefur staðið í 12 ár eða mun verða á vori komanda og staðið sig með þeim hætti í þessum málum sem könnun Capacents, félagsmálaráðuneytisins og Jafnréttisstofu sýnir.