133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[16:22]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir hana. Hún hefur verið hreinskiptin og góð að öðru leyti en því að við söknum hæstv. félagsmálaráðherra. Hann er orðinn afar leiður sá plagsiður ráðherra að þeir skuli láta sig vanta þegar rætt er um mál á þeirra málasviði, þingmannamál sem, í þessu tilfelli, öll stjórnarandstaðan stendur sameinuð að baki.

Það verður að segjast eins og er, að umræðan í þingsal þyldi alveg að vera líflegri og skoðanaskipti vera á þeim nótum að hér tækjust á ólík sjónarmið. Maður skyldi ætla að ríkisstjórnin þyrfti að horfast í augu við þau mistök sem gerð hafa verið undanfarin ár og áratugi. Mistökin eru fólgin í því að ekki hefur verið tekið á málunum með þeim tækjum sem möguleg eru til að sýna árangur. Það liggur dagljóst á borðum okkar.

Í þessu sambandi má nefna fleiri atriði. Af því bárust fregnir fyrir skemmstu, þ.e. á síðasta ári minnir mig að það hafi komið fram í viðtali við hæstv. ráðherra, að þáverandi félagsmálaráðherra hafi sent bréf til atvinnurekenda þar sem þeim var bent á að þeir ættu að fara eftir jafnréttislögum og draga úr launamun kynjanna. Ég minnist þess að þetta hafi komið fram annaðhvort hér í umræðunni fyrir skemmstu eða í blaðaviðtölum við hæstv. félagsmálaráðherra, að fyrrverandi ráðherra tók á málinu með þeim hætti.

Það að senda kurteisislegt bréf til atvinnurekenda og tilkynna þeim að þeir eigi að fara að lögum er auðvitað með ólíkindum, þ.e. að ekki skuli gert eitthvað meira. Ég vil taka undir orð Katrínar Önnu Guðmundsdóttur sem spyr í Viðskiptablaðinu fyrir skömmu: Í hvaða öðrum brotaflokki tíðkast að semja við lögbrjótana á þann hátt að þeim sé gefið formlegt leyfi til að halda áfram að brjóta lögin en bara örlítið minna en þeir hafa gert?

Við verðum að opna augu okkar fyrir alvöru þessara mála. Það þarf að taka á róttækan hátt á málum. Frumvarpið sem við hér erum að senda til félagsmálanefndar leggur til að það sé gert. Stjórnarandstaðan stendur sameinuð á bak við þetta mál sem er til marks um, eins og hv. þm. Mörður Árnason orðaði það, að stjórnarandstaðan forgangsraðar í þágu jafnréttismála. Hún forgangsraðar sameinuð í þágu þeirra mála sem varða misrétti sem kynin, konur hafa orðið fyrir og verða fyrir dag hvern á vinnumarkaði, bæði hinum opinbera vinnumarkaði og hinum almenna, þótt meira misrétti ríki á hinum almenna.

Ég tel að okkur eigi ekki að vera neitt að vanbúnaði. Við eigum að geta staðið saman um að fara í þessar róttæku breytingar. Ég treysti því að málið fái brautargengi á Alþingi á þessu síðasta þingi þessa kjörtímabils.