133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

9. mál
[16:31]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég skyldi nota þetta orð. Ég viðurkenni að það var vegna þess að mér hljóp kapp í kinn í umræðunni og mér þykir leitt að hv. þingmaður skuli taka því eins og hann gerir. Það sem mér fannst erfitt við þessa spurningu hv. þingmanns er það að vera að hengja sig í að ekki sé hægt að umbuna fólki fyrir snilli eða dugnað ef við förum að því frumvarpi sem hér er mælt fyrir.

Ég get alveg sagt sem svo að ef starfsmaður er svo duglegur eða snjall og greiða þurfi honum umfram umsaminn launataxta vegna þess þá tel ég auðvitað eðlilegt að atvinnurekendur hafi ákveðið svigrúm til þess. En það þarf ekki að vera leyndarmál, það þarf ekki að vera einhvers staðar bak við hurð og það þarf ekki að vera stimpill á því skjali sem gerir launamanninum ókleift að tala um að hann fái umbun vegna ákveðinna eiginleika sem hann búi yfir sem talið er að sé þess virði að greiða honum umfram það sem strípaður launataxti er eða guð veit hvað. Við erum ekki að tala um það í þessu máli að hlutirnir verði þannig niðurnjörvaðir að það verði ekkert svigrúm og engar leiðir til að umbuna fólki eða greiða fólki fyrir það sem það leggur fram í sínu starfi. Hv. þingmaður verður að athuga það að við erum fyrst og síðast að fókusera á bætta stöðu kvenna með tilliti til launa. Ef hv. þingmaður er sammála okkur, eins og hann segir í orði kveðnu og ég hef ástæðu til að ætla að hann sé, þá tel ég að hann verði að skoða þær hugmyndir sem hér eru til staðar með opnum huga og átta sig á að baráttan sem við segjum í orði kveðnu að við höfum verið að reka hingað til hefur ekki skilað neinum árangri. Launaleyndin hefur fært okkur aftur á bak. Þess vegna teljum við rétt að afnema hana til að ná árangri í þessum efnum, til að tryggja að hætt verði (Forseti hringir.) að brjóta mannréttindi á konum hvað þetta varðar.