133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

láglendisvegir.

15. mál
[16:33]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um láglendisvegi. Þetta er tillaga sem við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum flutt nokkrum sinnum, a.m.k. tvisvar á undanförnum þingum. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að Vegagerðinni skuli falið að vinna tillögur sem byggist á því að allar helstu leiðir á þjóðvegi 1, Vestfjörðum og norðausturhluta landsins verði á láglendi, undir 200 m hæð yfir sjó. Einkum verði lagt til grundvallar aukið öryggi og stytting leiða milli suðvesturhornsins og annarra landsvæða, svo og innan landsvæða.

Megináhersla verði lögð á jarðgöng og þverun fjarða við útfærsluna og horft til mesta mögulega sparnaðar miðað við 50 ára notkun mannvirkja. Reiknaður verði út sparnaður samfara nýju vegakerfi um jarðgöng, t.d. við mögulegan flutning á raforku og flutning á heitu vatni til húshitunar. Jafnframt verði lagt mat á ávinning af hugsanlegri fækkun flugvalla og hafskipahafna vegna bættra samgangna.“

Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er hafa flutningar hér á landi, vöruflutningar og fólksflutningar, færst í meira mæli á þjóðvegi landsins á undanförnum árum, bæði vegna þess að vegakerfið hefur smátt og smátt verið að lagast, þó að þar vanti auðvitað mikið á og sú tillaga sem við flytjum hér er í raun og veru spurning um að lagt sé upp með ákveðna forgangsröðun og horft til arðsemi langt fram í tímann að því er varðar þær framkvæmdir sem við leggjum til, og svo hitt að með slíkum framkvæmdum styttist flutningstíminn og leiðirnar verða öruggari. Við sjáum auðvitað að samgöngukerfið okkar, þjóðvegakerfið, hefur þurft að taka við öllum flutningum á undanförnum árum þar sem skipaflutningar hafa lagst af. Þar af leiðandi teljum við mjög margar ástæður fyrir því að fara þá leið sem hér er lögð til og leggjum því til í tillögu til þingsályktunar að Vegagerðinni verði falið að gera úttekt í þessa veru.

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segir:

„Að líkindum má koma öllum þjóðleiðum á láglendisvegi með gerð innan við 20 jarðganga sem yrðu samanlagt um 100 km eða styttri og því litlu lengri í kílómetrum talið en þau göng og jarðhellar sem fylgja gerð Kárahnjúkavirkjunar. Ekki fer á milli mála að þekkingu við gerð jarðganga hefur fleygt fram hér á landi og að kostnaður fer lækkandi á hvern kílómetra í jarðgangagerð. Verkhraði er einnig meiri en áður, eins og sást við gerð jarðganganna undir Almannaskarð og milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.“ — Það er líka rétt að láta það koma fram, hæstv. forseti, að kostnaðurinn á hvern kílómetra við gerð jarðganganna undir Almannaskarð annars vegar og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hins vegar, sem eru hvort tveggja afar þarfar lagfæringar og framtíðarlausnir varðandi vegakerfið á Austfjörðum, lá á bilinu 650–700 milljónir á núverandi verðlagi hvað þessar framkvæmdir varðar.

„Öllum er ljóst eftir reynsluna af Vestfjarða- og Hvalfjarðargöngum hvaða hag menn hafa af svo öruggum þjóðvegum, styttri leiðum milli staða og landsvæða, sem og tíma- og eldsneytissparnaði sem fylgir varanlegum samgöngubótum sem endast í áratugi og aldir. Gefin var út áætlun um jarðgöng í janúar árið 2000 og lagt til að hún yrði endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Þar eru talin upp 24 jarðgangaverkefni.“

Unnið hefur verið að gerð nýrra, góðra fjallvega um nokkra þá staði sem stungið var upp á eða lagt til að yrðu kannaðir fyrir jarðgöng svo varla verður farið í jarðgöng þar á næstunni og því eru þeir staðir ekki taldir upp í þessari tillögu. Búið er að leggja veg yfir Klettsháls á Barðaströnd sem var mikill farartálmi. Reyndar var varað við því að sá vegur yrði ævinlega erfiður vegna staðhátta og veðurhæðar ásamt því að veðurkerfið er nokkuð sérstakt á Klettshálsi en þar verður oft snjósöfnun á ákveðnum stöðum sem lokar fyrir leið ásamt veðurhæð. Sá sem hér stendur er a.m.k. þeirrar skoðunar og hafði hana löngu áður en þessi nýi vegur var gerður að misráðið hafi verið að fara yfir Klettshálsinn í stað þess að fara neðar með það vegstæði og gera göng undir hann sem hefði leyst af þennan farartálma sem alltaf er til staðar á Barðaströndinni eins og útvarpshlustendur heyra jafnan þegar eitthvað breytir veðri.

Búið er að leggja nýjan veg um Bröttubrekku sem ekki er lengur brött heldur aflíðandi vegur og mjög góður yfirferðar. Einnig er búið að leggja nýjan veg um svokallaða Vatnaleið á Snæfellsnesi sem er einhver besta vegarlagning sem maður hefur séð yfir fjall eða fjallgarða og hann leysti af hólmi þær hugmyndir sem áður voru uppi um göng jafnvel yfir í Staðarsveit og Kolgrafarfjörð.

Lokið er gerð jarðganganna um Almannaskarð og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar eins og áður var getið og hafin er vinna við svokölluð Héðinsfjarðargöng sem eru nú komin á framkvæmdastig. Láglendisvegur verður væntanlega lagður um Mjóafjörð í Djúpi fyrir Reykjanes og Vatnsfjörð og yfir Skálavíkurháls þannig að hugmyndir um göng undir Eyrarfjall, sem hafa m.a. verið reifaðar af þeim sem hér stendur, úr botni Mjóafjarðar yfir í botn Ísafjarðar verða ekki á dagskrá á næstu árum eða áratugum að því gefnu að þessi vegarlagning fari fram með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í dag.

Þá standa eftir þær leiðir þar sem gera þyrfti jarðgöng, eins og Arnarfjörður – Dýrafjörður. Þar er búið að rannsaka og gera kannanir á berglögum og ekkert því til fyrirstöðu að fara í þá framkvæmd en hins vegar þarf að leggja línur um hvert framhaldið eigi að vera þegar þeirri gangagerð lýkur, sem væntanlega gæti orðið innan tveggja, þriggja ára ef bjartsýnin fær svolítið að ráða. Það þarf að ákveða um vegarstæðið áfram og við höfum lagt mikla áherslu á það, Vestfirðingar, að með því að rjúfa einangrunina milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar væri búið að opna möguleika fyrir menn af norðursvæði og suðursvæði að hafa eðlilegar samgöngur og eðlileg samskipti. Dynjandisheiðin er hins vegar farartálmi og annaðhvort þarf að leggja þar nýjan veg eða, sem ég held að væri betra, að gera göng á milli fjarða vestur úr Borgarfirði, sem er innfjörður Arnarfjarðar þar sem Mjólkárvirkjun er svo staðháttum sé lýst fyrir fólki, og tengja þannig saman með sem stystum leiðum Bíldudal annars vegar og Patreksfjörð, Tálknafjörð og Barðaströndina við norðurhluta Vestfjarða. Það er auðvitað markmið sem Vestfirðingar hafa óskað eftir í áratugi að gera þetta að einu samgöngusvæði.

Ég hef haft efasemdir um að gera göng undir Dynjandisheiði, þau yrðu bæði löng og þar að auki er ætlast til að þau komi út í Vatnsfjarðarbotni, sem er að því er ég best veit snjóþungur staður ef á annað borð snjóar á Vestfjörðum og það gerist alltaf annað slagið, hæstv. forseti, og þá verður snjóþungt í dölum og botnum fjarða á Barðaströnd. Ég hef haft aðrar hugmyndir, að skoða annað vegarstæði til að tengja saman þessar byggðir enda er meginmarkmiðið að ná þessum byggðum saman með sem stystum vegi þannig að í framtíðinni geti orðið klukkustundar akstur eða eitthvað þar um bil á milli Bíldudals og Ísafjarðarsvæðisins á öruggum láglendisvegi þar sem menn þurfa hvergi að fara upp á fjall. Það er sú framtíðarsýn sem ég hef fyrir þessa samgöngubót.

Við vitum að hlíðin milli Ísafjarðar og Súðavíkur er stórhættuleg ásamt Óshlíð auðvitað, hvort tveggja hlíðar þar sem er mikið grjóthrun, og nú er verið að fara af stað með tillögu um hvað gert verði við Óshlíðina. Það verður væntanlega farið í jarðgöng til að leysa það mál og hætt við veginn um Óshlíð sem hefur kostað mikla fjármuni og aldrei veitt það öryggi sem menn sóttust eftir.

Ákveðið hefur verið að fara yfir Tröllatunguheiði en ekki undir úr dalbotnunum tveimur, þ.e. Arnkötludal og Gautsdal. Að mínu viti hefði auðvitað verið æskilegt að skoða það að fara með göng undir heiðina og vera með algjöran láglendisveg á milli Stranda og Dala, einkum með tilliti til þess að þegar komið er vestur í Dali er hægt að aka á láglendisvegi til Reykjavíkur því að ef svo færi að Brattabrekka væri ófær, sem ekki er lengur brött eins og áður sagði, þá er enn þá opið að fara um Heydal sem er vestar og er lægri og snjóléttari leið. Þar af leiðandi væri margt unnið við slíka samgöngubót.

Ef við gefum okkur að miðað við núverandi stöðu — ég sé nú að tíma mínum er að verða lokið, hæstv. forseti, og ég verð sennilega að biðja aftur um orðið — kosti um 700 milljónir á verðlagi dagsins í dag að gera kílómetra í jarðgöngum, ég er búinn að telja hér upp nokkur jarðgangastæði sem þegar er búið að ljúka eða búið að gera þar vegi þannig að þau eru fallin út og eftir standa kannski 60–80 kílómetrar í jarðgöngum til að koma öllum vegum á láglendi eða undir 200 metra hæð yfir sjó, þá gæti verið um að ræða í kringum 50 milljarða, 56 milljarða ef við tölum um 80 kílómetra, sem þyrfti í þessa áætlun. Við erum að tala um áætlun til 20 ára þannig að það sem þyrfti að merkja í slíka áætlun væru kannski 3–3,5 milljarðar á ári til að vinna mætti samfellt að jarðgangagerð hér á landi og við værum ekki alltaf að lenda í þeim stoppum sem við höfum verið að lenda í.

Gera þarf göng í Vaðlaheiði, Vopnafirði og Héraði og horfa á göng milli Norðfjarðar og Eskifjarðar og Seyðisfjarðar og Héraðs, í Skriðdal og Reynisfjalli í Mýrdal o.s.frv. Og væntanlega þurfum við í framtíðinni, miðað við umferðina um Hvalfjarðargöng, að horfa til nýrra Hvalfjarðarganga. Þar höfum við mannvirki sem hefur fært okkur mikið umferðaröryggi og auðvitað ber að horfa til slíkra lausna sem hafa gert það að verkum ásamt því að stytta vegalengdir, því að framtíðin er sú að það fara enn þá meiri flutningar um þjóðvegina en þó eru komnir í dag og finnst þó mörgum nóg um.