133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

láglendisvegir.

15. mál
[16:49]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er um mikilsvert mál að ræða sem er það að horfa til framtíðar hvað varðar vegagerð og samgöngumál. Við höfum því miður dæmin fyrir okkur um að á síðustu árum, ég vil segja frá árinu 1998, hafi ekki verið horft til framtíðar heldur til kosninga. Við sjáum það ef við skoðum útgjöld til vegamála að þau taka mikinn kipp á fjögurra ára fresti. Í þessu frumvarpi sem við leggjum hér fram í Frjálslynda flokknum horfum við 20 ár fram í tímann og sjáum fyrir okkur að leggja 3–4 milljarða á hverju ári til gangagerðar í stað þess að horfa ætíð til kosninga.

Ef við skoðum t.d. útgjöld ríkisins til vegamála frá 1998–2007 sjáum við að það er áberandi hvað útgjöldin taka mikinn kipp árið 1999. Þá eru kosningar. Síðan dragast þau saman og taka svo aftur kipp 2003. Hvað gerðist þá? Jú, þá var kosið til Alþingis og þá var blásið til sóknar í vegamálum. Síðan er aftur boðað til mikilla útgjalda 2007, á kosningaári, en að sama skapi er hægt að sjá að alltaf dregur úr útgjöldum til vegamála árin þar á milli.

Það sem er einna alvarlegast við þá stöðu sem uppi er ef maður skoðar þessi samgöngumál í víðara samhengi er að með auknum samgöngum og flutningum á vegum landsins hefði þurft að fara meira í viðhald vega og tryggja að vegum væri vel við haldið. Svo er alls ekki. Það er mjög áberandi að frá kosningunum 2003 hefur verið dregið gríðarlega úr útgjöldum. Við verjum nú helmingi minna til viðhalds vega en gert var kosningaárið 2003. Ef við berum líka saman hvað við notum hátt hlutfall af tekjum ríkisins til vegamála hefur það einnig dregist saman.

Á þessu ári er áætlað að við notum 2,3% af útgjöldum ríkisins til vegamála en árið 1999 var upphæðin tæplega tvisvar sinnum hærri. Það er orðið tímabært að stjórnmálamenn hugsi ekki um vegamál eingöngu með kosningar í huga. Við höfum séð ýmsar framkvæmdir, svo sem Héðinsfjarðargöng, sem eru blásnar á fyrir kosningar og af eftir kosningar, og síðan aftur á. Þessu þarf að breyta og það ætlum við í Frjálslynda flokknum að gera.