133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

láglendisvegir.

15. mál
[16:52]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég náði ekki að ræða alveg allt efni þessarar tillögu eins og mér líkaði í fyrri ræðu minni og ætla þar af leiðandi að taka nokkurn tíma í annarri ræðu til að ræða það betur.

Í upptalningu okkar um það hvar við teljum að gera þurfi jarðgöng höfum við m.a. bent á það hvort ekki væri æskilegt að skoða það að gera göng undir Öxi á Austfjörðum sem yrðu til verulegrar styttingar inn á svæðið, þ.e. upp á Hérað, og einkanlega með tilliti til þess að vöruflutningar eru jú allir komnir á þjóðvegi landsins. Menn hafa reynt að nýta sér þann veg sem nú er yfir Öxi og var vissulega lagfærður en er samt sem áður ekki fær allan ársins hring. Bæði er þetta enn þá malarvegur og þar að auki víða erfiður og brattur. Eigi að síður hafa flutningabílstjórar reynt í meira mæli að fara þessa leið enda er um mikla styttingu að ræða upp á Hérað þegar flutningabílar koma sunnan að og ætla sér beint á Egilsstaði. Það skiptir verulegu máli að við reynum að stytta þessar leiðir og gera þær eins öruggar og mögulegt er og þess vegna höfum við bent á það í þessari tillögu að þetta sé m.a. jarðgangastæði sem þurfi að skoða með tilliti til framtíðar og með tilliti til þeirra flutninga sem núna fara um þjóðvegi landsins.

Við erum ekki með jarðgöng til Vestmannaeyja í þessari tillögu okkar enda teljum við að ef af þeim yrði einhvern tíma í framtíðinni mundu auðvitað ferjusiglingar leggjast af og þar af leiðandi mundi sú fjármögnun sem farið hefur í að tryggja ferjusiglingar milli lands og Eyja leggjast af og þeir fjármunir væntanlega þá ganga til jarðgangagerðar á komandi árum, ef það telst fær leið sem ég leyfi mér reyndar að efast um, hæstv. forseti. Ég held að þetta svæði sé ekki öruggt til að fara með jarðgöng um. En þótt af þeim yrði höfum við ekki gert ráð fyrir þeim í þeim kostnaðartölum sem við höfum nefnt í þessari umræðu. Nú er hins vegar gert ráð fyrir því, eftir því sem ég veit best, að farið verði í að gera höfn í Bakkafjöru og stytta þar af leiðandi ferjusiglingar verulega milli lands og Eyja, og vonandi tekst sú framkvæmd vel ef af verður.

Þessi verkefni í jarðgangagerð sem við bendum á í tillögunni eru misjafnlega brýn, og nýjar aðstæður kalla oft á breytta forgangsröðun. Það má m.a. benda á þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur nú tekið upp eftir mikinn þrýsting frá íbúum Bolungarvíkur sem felur í sér göng á milli Bolungarvíkur og a.m.k. yfir í Hnífsdal, fyrir Óshlíð, þannig að vegurinn um Óshlíð verði ekki aftur sleginn til Bolungarvíkur eins og verið hefur. Við höfum undanfarna daga hlustað á fréttir og séð í sjónvarpi hvernig vegstæðið um Óshlíð lítur út í miklum haustrigningum þegar á það hrynja bæði skriður og gríðarleg björg. Það er náttúrlega enginn öruggur með að fara þá leið við ákveðnar aðstæður, því miður. Á þetta var svo sem bent fyrir áratugum síðan þegar menn fóru þá leið að byrja að breikka þar veginn og byggja vegskála o.s.frv. en sumir höfðu trú á því að það yrði framtíðarlausnin varðandi Óshlíð.

Það á reyndar ekki við um þann sem hér stendur því að hann hreyfði því máli þegar 1983 ásamt þáverandi félögum sínum á Vestfjörðum að það væri eðlilegt að horfa til þess að leysa samgöngurnar við Bolungarvík með því að gera jarðgöng úr Hnífsdal og yfir í Bolungarvík. Það varð sem sagt ekki ofan á þá en núna eru allt önnur viðhorf til jarðgangagerðar en voru fyrir 20 árum. Þá var iðulega nefnt í umræðunni um jarðgöng að berg á Íslandi væri laust og sprungið og erfitt að gera göng í gegnum það, kannski illframkvæmanlegt. Reynslan og þekkingin hefur þó sýnt að það er víða hægt að gera jarðgöng með mjög góðum árangri hér á landi. Við hefðum auðvitað getað lært af öðrum þjóðum í þessu efni, eins og Færeyingum og Norðmönnum, því að meðal flestallra þjóða sem búið hafa, og búa, í fjöllóttum löndum hafa samgöngurnar að þessu leyti, hvort sem er varðandi járnbrautir eða þjóðvegi, verið leystar með því að menn hafa gert jarðgöng og farið í gegnum fjöllin en ekki yfir þau. Hvað þá heldur hér á Íslandi þar sem við eigum við það að búa, hæstv. forseti, að hér koma snjóavetur af og til. Reyndar höfum við búið við mjög snjólétta vetur undanfarið sem er auðvitað guðsþakkarvert í sjálfu sér en hins vegar er það engin trygging til framtíðar að treysta á það að guð muni láta svo viðra í framtíðinni eins og verið hefur undanfarin ár þó að hann vilji okkur sjálfsagt vel sem þjóð hér úti á eylandinu í miðju Atlantshafi. Þau sem lengra muna hljóta að muna eftir snjóþungum vetri 1983 og öðrum 1995 svo að a.m.k. tveir séu nefndir.

Slíkir vetur, auðvitað ekki þeir sömu en sams konar, koma örugglega aftur, hæstv. forseti. Því miður, það á eftir að snjóa hér á landi og valda miklum erfiðleikum. Þess vegna teljum við til framtíðar litið að menn eigi að horfa til láglendisvega og gera jarðgöng þar sem því verður við komið en halda ekki áfram að baksa yfir fjöllin með tilheyrandi kostnaði sem verður síðan ævinlega þeim annmörkum háð sem eru veður, vindar og úrkoma, en horfa til framtíðar og framtíðarlausna að þessu leyti.

Þegar upp verður staðið telja flutningsmenn þessarar tillögu að það muni horfa til sparnaðar og tvímælalaust til mikils umferðaröryggis umfram það sem ella væri. Þurfa menn ekki annað en að minnast þess þetta haustið sem nú er að líða, þegar fólk hefur slasast á fjallvegum, m.a. hérna sunnan lands, við erfiðar aðstæður og leiðindafærð.

Það fer ekkert á milli mála að jarðgöng sem tryggja að menn geti farið undir fjöllin í staðinn fyrir að fara yfir þau hafa fært okkur geysilega mikið öryggi. Ég tala nú ekki um Hvalfjarðargöngin sem fara undir Hvalfjörðinn, þau hafa vissulega einnig fært okkur mikið umferðaröryggi miðað við það sem áður var, að ég tali ekki um styttingu aksturstíma og annað slíkt. Þannig að við teljum, hæstv. forseti, að af þeim 20 jarðgöngum sem við nefndum hér í upphafi tillögunnar séu í dag, miðað við stöðuna, sennilega um 15 jarðgöng sem þarf að gera til að koma þessum helstu flutningsleiðum okkar og samgönguleiðum á láglendisvegi og tryggja þar með örugga flutninga fólks og farms á milli landshluta, fyrir utan það að ná mikilli styttingu í flutningstíma og miklu öruggari og betri akstursleiðum og þar af leiðandi bættu umferðaröryggi sem er ekki vanþörf á, svo mörg sem slysin eru í þjóðvegakerfinu og því miður allt of mörg alvarleg slys og dauðaslys.

Ég vil einnig láta þess getið, og hef haldið því fram í mörg ár, að það væri mjög áhugaverður kostur sem ætti að skoða í fullri alvöru að gera göng úr Ísafjarðardjúpi yfir í Fjarðarhornsdal á Barðaströnd. Fjarðarhornsdalur gengur norðaustur úr Kollafjarðarbotni, svo að það sé upplýst, en Kollafjörður er einn af þeim stöðum sem menn hyggjast stytta akstursleiðir verulega til. Það hefur verið gert með tillögu sem gengur út á það að þvera Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð og komast þar af leiðandi hjá því að fara Hálsana sem núna eru farnir og fyrir fjarðarbotnana sem auðvitað eru farartálmar, vegirnir eins og þeir eru eru reyndar nánast illfærir oft og tíðum vegna þess hvernig þeir eru lagðir.

Þess vegna hafa Vestfirðingar sameinast um að gera kröfu til þess að fá að leggja þessa vegi yfir þessa firði og ná þar af leiðandi fram verulegri styttingu í kílómetrum og aksturstíma á þessari leið frá Bjarkalundi og vestur um til Vesturbyggðar, Tálknafjarðar og vesturhluta Barðastrandarinnar. Það er auðvitað mikið mál. Ef það yrði gert eða þá einhver önnur útfærsla sem jafngilti þessari styttingu og möguleikum tel ég að það væri orðinn mjög áhugaverður kostur, hæstv. forseti, að gera göng undir Kollafjarðarheiði með því að tengja saman Fjarðarhornsdal í Kollafirði og Ísafjarðardjúp, nota Múladalinn og síðan þá Austurárdalinn til að leggja veg og fara síðan undir þá fjóra til fimm kílómetra sem eftir væru til að tengja þessar leiðir saman. Ef það yrði gert væri allt í einu komin upp sú staða að jafnvel norðanverðir Vestfirðir væru komnir með samgönguleið alla leið til Reykjavíkur sem aldrei færi yfir fjöll.

Hefðu það þótt tíðindi fyrir áratugum síðan ef menn hefðu nefnt það sem möguleika. En það er vissulega mjög raunhæfur möguleiki. Menn eiga að horfa til þess í framtíðinni í staðinn fyrir að reyna að halda áfram að fara yfir fjöllin. Menn gleyma sér í góðri tíð undanfarinna ára og halda að þannig verði það í framtíðinni en það er næsta víst að það sem einu sinni hefur verið hér á landi varðandi snjóalög mun verða aftur. Þá lenda menn í miklum vandræðum með alla þá flutninga sem núna fara um vegakerfi landsins, hæstv. forseti.

Þetta vildi ég sagt hafa og ég tel að sú tillaga sem við leggjum hér fram, þingmenn Frjálslynda flokksins, eigi að fá fulla athygli í sölum þingsins og afgreiðslu í samgöngunefnd. Vonandi gengur hún aftur til þingsins þannig að við getum samþykkt hana og Vegagerðinni verði falið að vinna svona áætlun þar sem við horfum til þess að stytta vegalengdir, búa til öruggari vegi, öruggari flutningsleiðir, öruggari akstursleiðir fyrir fólk, vegi sem spara mikla orku og tíma í flutningum um landið og horfa til framtíðar. Til þess að það verði gert þurfum við að merkja fjármagn í þessa þætti vegagerðar, sennilega um 3 milljarða á ári næstu 20 árin, og þá sæjum við verulega til lands í því að klára þessa vegagerð. Það eru nokkur dæmi sem eru brýnni en önnur. Ég ætla að nefna t.d. Hellisheiði fyrir austan, frá Vopnafirði yfir á Hérað, sem er afar brýnt verkefni og mundi stytta akstursleið Vopnfirðinga til Héraðs verulega fyrir utan aukið öryggi.

Svoleiðis er auðvitað um fleiri staði. Meginmálið er að menn leyfi sér að horfa til framtíðar í þessum efnum og hætti að horfa á lausnir sem væntanlega eru ætlaðar til kannski næstu 10–15 ára en færa okkur ekki þá merku áfanga sem við gætum náð í vegagerð með svona markvissum vinnubrögðum. Þótt það kosti örlítið meira fé í upphafi erum við að leysa samgöngumálin til langrar framtíðar með því mesta öryggi sem við getum náð í vegakerfi hér á landi, með því að fara undir fjöllin og yfir firði og stytta vegalengdir þar sem það á við, hæstv. forseti.

Ég hef lokið máli mínu og vona að þetta mál fái góða afgreiðslu.