133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

iðnaðarmálagjald.

16. mál
[17:09]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um iðnaðarmálagjald, nr. 134/1993, með síðari breytingum. Frumvarpið er að finna á þingskjali 16.

Með frumvarpinu er lagt til að iðnaðarmálagjald verði fellt niður. Það var tekið upp á sínum tíma, árið 1975, að frumkvæði Félags íslenskra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Sambands íslenskra samvinnufélaga.

Herra forseti. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Lög sem kveða á um greiðslu úr ríkissjóði, önnur en fjárlög eða fjáraukalög, hljóta því að vera í andstöðu við þetta ákvæði stjórnarskrárinnar og því ógild. Þing sem setur slík lög um árlega ráðstöfun á fjármunum ríkissjóðs er búið að binda hendur allra þinga þaðan í frá hvað varðar greiðslur þessara gjalda því að lögin hljóta að eiga að gilda eins og önnur lög frá Alþingi. Síðari þing þurfa árlega að taka fram í fjárlögum að þetta gjald skuli renna til verkefnisins og hafa því ekki óskorað fjárveitingavald. Farist fyrir að geta um útgjöldin í fjárlögum kemur upp sú staða að lögin kveða á um að greiða skuli fé úr ríkissjóði sem stjórnarskráin bannar.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um iðnaðarmálagjald stendur: „Tekjur af iðnaðarmálagjaldi renna til Samtaka iðnaðarins.“ Hér eru bein fyrirmæli til framkvæmdarvaldsins um að þessa fjármuni skuli greiða úr ríkissjóði þrátt fyrir bann stjórnarskrárinnar þar um. Þó að þessa gjalds og ráðstöfunar þess sé getið í fjárlögum hvers árs, þá er það ákvæði fjárlaganna þvingað og Alþingi getur ekki sett fjárlögin óbundið af lögum um iðnaðarmálagjald. Lög um iðnaðarmálagjald eru því í andstöðu við stjórnarskrá og það eitt og sér styður það frumvarp sem hér er lagt fram.

Lagasafnið hefur reyndar að geyma fjölmörg lög af þessu tagi. Oft er um að ræða skatta, tekjur, sem renna eiga til ákveðinna verkefna eða aðila og eru slíkar tekjur ríkissjóðs oft nefndar „markaðar tekjur“ þ.e. tekjur ríkissjóðs sem renna skulu til ákveðinna verkefna eða aðila, markaðar þessum verkefnum eða aðilum. Dæmi um slíkar tekjur eru: búnaðargjaldið, sem rennur aðallega til stéttarsamtaka bænda; iðnaðarmálagjald, sem rennur til Samtaka iðnaðarins; fiskræktargjald sem rennur til Fiskræktarsjóðs, sem veitir m.a. styrki til fiskeldis og fiskræktar; höfundaréttargjöld, t.d. 1% af verði tölva og STEF-gjöld sem renna til einstaklinga, tónskálda.

Ríkið er notað til að innheimta skatt sem rennur til einstaklinga, sem brýtur í bága við það ákvæði stjórnarskrárinnar að ekkert megi greiða út úr ríkissjóði nema með fjárlögum.

Þetta gjald, iðnaðarmálagjald, er auk þess skattur. Gjaldstofn þess er sá sami og gjaldstofn virðisaukaskatts og ríkissjóður innheimtir gjaldið og leggur það á. Ríkið fær meira að segja 0,5% í eins konar innheimtuþóknun.

Þegar litið er á lög um iðnaðarmálagjald virðist sem hópur manna, stjórnir Félags íslenskra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Sambands íslenskra samvinnufélaga, hafi fengið löggjafann til þess að innheimta fyrir sig félagsgjöld og nota þannig ægivald ríkisins með heimild til sekta og fangelsa til að ná fénu af öllum iðnfyrirtækjum og gera þau um leið félagsbundin.

Þá ætla ég, herra forseti, að ræða rétt aðeins um félaga- og tjáningarfrelsi. Félagafrelsi er meginregla á Íslandi. Samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar má engan skylda til aðildar að félagi nema sérstakar aðstæður krefjist þess. Skoðanafrelsi er nátengt félagafrelsinu en í því felst að óheimilt er að neyða menn til að hafa tilteknar skoðanir eða losa sig við aðrar. Kveðið er á um skoðanafrelsi í 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki reynir oft á skoðanafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar en hér er því öfugt farið. Skyldugreiðslur til félags sem greiðendur kunna að vera á móti í sjálfu sér brýtur í bága við hugmyndir um skoðanafrelsi. Þá er sáralítill munur á því að skylda menn til félagsaðildar og að skylda menn til þess að greiða gjald til félags. Sé gjaldið greitt er varla annað hægt en að vera í félaginu og njóta þeirra réttinda sem í því felast. Skyldugreiðslur til félags fela því í sér gervifélagsskyldu.

Sama gildir reyndar einnig hjá opinberum starfsmönnum sem eru skyldugir til að greiða til stéttarfélags þótt þeir séu þar ekki félagar. — Hér gengur fram hjá hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.

Samtök iðnaðarins hafa haft uppi mjög ákveðnar skoðanir um ýmis pólitísk álitamál eins og aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar. Eflaust finnast í fjölmennum hópi iðnfyrirtækja aðilar sem eru á öndverðri skoðun og eru sannfærðir um að slíkar lausnir mundu skaða hagsmuni þeirra og þjóðarinnar. En þeir verða samt að greiða iðnaðarmálagjald til Samtaka iðnaðarins og fjármagna þannig upplýsingar og áróður gegn eigin skoðun án þess að geta komið henni að. Slíkt getur ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnarskrár um skoðanafrelsi.

Hæstiréttur hefur í tvígang fjallað um þetta gjald og sagði þar að gjaldið stæðist þrátt fyrir félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þar sem löggjafanum væri heimilt að leggja á skatt og ráðstafa honum, auk þess sem meiri hluti Hæstaréttar nefndi að það ætti að verja tekjum af iðnaðarmálagjaldi til að efla iðnað og iðnþróun í landinu og til hagsbóta þeirri iðngrein sem skattlögð er. Þannig er talið að löggjafinn hafi ekki farið út fyrir heimildir sínar. Síðan kom fram í sératkvæði eins dómarans að Samtök iðnaðarins hefðu ekki getað sundurgreint með glöggum hætti hvernig iðnaðarmálagjaldinu væri varið, það væri sem sagt inni í almennum rekstri samtakanna. Stefnandi væri skyldaður til að greiða umrætt gjald þrátt fyrir að vera ósamþykkur markmiðum samtakanna og í raun teldi hann samtökin vinna gegn hagsmunum sínum.

Telja verður að lög um iðnaðarmálagjald gangi gegn þeim meginsjónarmiðum sem félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar hvílir á, ekki síst þegar ákvæðið er lesið með skoðanafrelsisákvæðið í huga. Það er engan veginn nauðsynlegt fyrir framgang einstakra iðnfyrirtækja að þau séu félagar í samtökunum né búi þar að baki mikilvægir almannahagsmunir og þess vegna má ekki beita þeim rökum fyrir því að leggja þetta gjald á iðnfyrirtæki.

Svo getum við líka skoðað, herra forseti, jafnræðið. Ef ný samtök væru stofnuð af iðnrekendum fengju þeir engan rétt til sambærilegrar skattheimtu. Þá gæti sú staða komið upp að þau iðnfyrirtæki sem væru félagar í þessum nýju samtökum þyrftu að greiða bæði til Samtaka iðnaðarins og jafnframt til sinna samtaka sem væru þá að berjast við Samtök iðnaðarins, t.d. um ákveðin mál og ákveðna hagsmuni. Það er því komið í veg fyrir að iðnfyrirtæki geti stofnað samtök.

Samtök iðnaðarins eru í samkeppni við önnur samtök atvinnulífsins um félaga. Vegna lagaskyldu um innheimtu félagsgjalda til Samtaka iðnaðarins eru þau í allt annarri og betri stöðu en önnur samtök sem verða að treysta á vilja fyrirtækja til að vera félagar og greiða félagsgjald. Að auki er það nánast óvinnandi vegur fyrir hóp fyrirtækja í iðnaði að stofna hagsmunafélag í andstöðu við Samtök iðnaðarins til að berjast fyrir hagsmunum sínum, eins og ég gat um áðan, því að þau yrðu bæði að fjármagna eigið félag og andstöðuna við það. Þó að þetta frumvarp yrði að lögum er ekkert sem bannar fyrirtækjum að greiða til Samtaka iðnaðarins ef þeim þættu samtökin hafa hlutverk og gegna því vel.

Kveðið er á um jafnræði allra fyrir lögum í 65. gr. stjórnarskrárinnar. Iðnaðarmálagjald er eigi að síður eitt sinnar tegundar. Aðrar atvinnugreinar hafa ekki sambærileg forréttindi eða kvaðir. Alla jafna má beita þeirri þumalfingursreglu við mat á því hvort jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé brotin að íhuga hvort eins fer um ólík tilvik eða hvort ekki fer eins um sambærileg tilvik. Verður ekki séð að Viðskiptaráð Íslands, Samtök verslunar og þjónustu eða Félag íslenskra stórkaupmanna, svo dæmi séu tekin, séu svo eðlisólík að önnur sjónarmið eigi við um þau félög en Samtök iðnaðarins. Þrátt fyrir að upptalin samtök njóti ekki sérstakra forréttinda verður ekki annað séð en starfsemi þeirra sé með miklum blóma.

Hagsmunir iðnrekenda falla ekki alltaf saman í einu og öllu. Samtök iðnaðarins munu því jafnan eiga erfitt með að gera öllum til hæfis. Í þeim tilvikum er eðlilegt að mögulegt sé fyrir fyrirtæki að hætta að greiða til félags. Jafnvel þó að allir séu jafnan sammála er sjálfsagt og eðlilegt í lýðfrjálsu þjóðfélagi að möguleikinn sé fyrir hendi.

Samkvæmt lögum um iðnaðarmálagjald skal verja gjaldinu til eflingar iðnaði og iðnþróun í landinu. Ekki er auðvelt að sjá hvernig skattur á iðnaðinn er heppilegur til að ná þessu marki. Æskilegri leið til að efla iðnaðinn hlýtur að vera sú að leyfa iðnfyrirtækjunum að ráðstafa þessum fjármunum sjálft. Þá er iðnaðarmálagjald lagt á alla veltu fyrirtækja en ekki aðeins hagnað. Í vissum tilvikum er því um skatt á tap iðnfyrirtækja að ræða.

Í greinargerð með upphaflegum lögum um iðnaðarmálagjald segir: „Starfsemi samtaka iðnaðarins hefur að höfuðmarkmiði eflingu iðnaðarins og mótun almennrar iðnaðarstefnu, er stuðlar að þjóðhagslega hagkvæmri iðnþróun. Nauðsynlegt er að auka starfsemi samtakanna verulega, t.d. á sviði alhliða kynningar og útbreiðslustarfsemi, sviði hagrannsókna, útgáfustarfsemi o.fl. Enn fremur þurfa samtökin að hafa bolmagn til að taka virkan þátt í aðgerðum er miða að jákvæðum breytingum á skipulagsbyggingu einstakra iðngreina, framleiðniaukandi aðgerðum í einstökum iðngreinum eða iðnfyrirtækjum, sölu- og útflutningseflandi aðgerðum og loks í fræðslu og þjálfun starfsfólks og stjórnenda iðnfyrirtækja.“ Markmið þessi bera með sér aðrar þjóðfélagsaðstæður en nú eru uppi. Þegar hin upphaflegu lög voru sett á áttunda áratug tuttugustu aldar þótti enn sjálfsagt að hið opinbera kæmi að skipulagningu atvinnugreina og stýrði þróun þeirra. En síðan hafa viðhorf til skipulagningar gerbreyst.

Þau rök sem skynsamleg þóttu 1975 eiga síður við nú á tímum þar sem frelsi í atvinnulífi hefur verið aukið stórlega og dregið hefur verið úr skattheimtu með þeim afleiðingum að íslenskt atvinnulíf stendur í meiri blóma en nokkru sinni fyrr. Hvað svo sem segja má um markmið iðnaðarmálagjaldsins skýtur einnig skökku við að félagasamtökum skuli vera falin skipulagning atvinnugreina. Félagið sem hlýtur iðnaðarmálagjaldið er þannig með einhverjum hætti gert ábyrgt fyrir framfylgd opinberrar skipulagsstefnu ríkisins.

Upphæðir iðnaðarmálagjaldsins síðustu ár hafa verið frá 150 milljónum upp í 287 milljónir.

Að lokinni umræðu um frumvarpið legg ég til að því verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Reyndar eru áhöld um hvort það eigi að fara til iðnaðarnefndar og ég fel hæstv. forseta að úrskurða um það.