133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

iðnaðarmálagjald.

16. mál
[17:23]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnir hans. Það er rétt, eins og kemur fram í greinargerð og ég sleppti að lesa áðan, að svona fyrirkomulag með skattheimtu í stað félagsgjalda getur valdið því að viðkomandi félagasamtök stofnanagerist. Þau þurfi ekki lengur að gæta að því að vinna að hagsmunum umbjóðenda sinni, þau þurfi ekki lengur að vera á tánum varðandi það að menn vilji vera félagar í samtökunum. Þau hafa tekjurnar á hreinu alveg sama hvað á bjátar og vissulega getur það slævt samtökin og gert þau kannski meira stofnanagerð og nánast allt að því opinber. Það er sú hætta sem vofir yfir félögum sem fá félagsgjöldin í formi skattheimtu, að þau séu ekki lengur að gæta hagsmuna félagsmanna sinna.

Þau dæmi sem hv. þingmaður nefndi geta vel verið dæmi einmitt um það að menn séu ekki nægilega vakandi fyrir því sem er að gerast og ég tel að niðurfelling skyldu til að greiða iðnaðarmálagjald til Samtaka iðnaðarins muni efla þau til dáða og gera þau ekki síður blómleg en önnur samtök atvinnulífsins.