133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

iðnaðarmálagjald.

16. mál
[17:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið þótt hún sé verðug þess, svo sannarlega. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hreyfði ýmsum grundvallaratriðum sem verðskulda mikla og langa umræðu. Það lýtur m.a. að félagafrelsi og félagaskyldu eða skylduaðild að verkalýðsfélögum þar á meðal. Það var þessi þáttur sem varð til þess að ég kvaddi mér hljóðs.

Þetta er mjög flókið mál en ég hef mjög afdráttarlausa skoðun á því. Ég tel það samfélaginu mjög til góðs að menn sameinist á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar og myndi þar mótvægi við fjármagnið og vald þess í samfélaginu, að einstaklingarnir komi saman til að standa sameiginlega að kjarasamningum og semji um réttindi ýmis. Þá náttúrlega vaknar sú spurning ef við opnum á það að fólk geti almennt staðið utan stéttarfélaganna, hvort það fólk eigi þá að njóta góðs af hinu sameiginlega átaki. Eiga einstaklingarnir sem ekki greiða krónu, hvorki krónu né eyri til baráttu fyrir bættum veikindarétti, lífeyrisréttindum og þar fram eftir götunum, að njóta ávaxtanna, aðildar að þeim sjóðum sem veita þessi réttindi síðan? Þetta eru spurningar sem óneitanlega vakna.

Hitt vildi ég einnig nefna að frelsið til að standa utan félagsskapar getur hæglega snúist upp í öndverðu sína. Það gerðist og hefur gerst í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið. Það gerðist í Bretlandi, sérstaklega á Thatcher-tímanum þegar ríkisvaldið réðst gegn verkalýðshreyfingunni þar í landi og reyndi að veikja hana, þá varð félagafrelsið til þess að atvinnurekendur nýttu sér þá bágborið atvinnuástand, stilltu launamanninum eða þeim sem sótti um vinnu hjá þeim upp við vegg: Þú getur fengið vinnu að því tilskildu að þú standir utan verkalýðsfélagsins.

Þetta eru aðeins víddir í tilverunni sem mér finnst hollt að hafa í huga þegar við ræðum um félagafrelsi og skylduaðild að verkalýðsfélögunum.

Ég lít svo á að verkalýðshreyfingin sinni mjög mikilvægu félagslegu hlutverki og þar er ég kominn að því sem ég hóf mál mitt með, að leggja áherslu á mótvægið gegn valdi atvinnurekenda og fjármagnsins í samfélaginu, þannig að þegar upp er staðið beri að líta á verkalýðshreyfinguna sem mikilvæga stofnun í fjölþátta lýðræðisþjóðfélagi sem allir eiga að hafa aðild að. Þetta voru orð sem ég vildi aðeins koma inn í umræðuna.