133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

iðnaðarmálagjald.

16. mál
[17:29]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdir hans, þær eru gildar. Hann kom inn á það að ég hafi lagt fram nokkur frumvörp. Ég hef t.d. lagt fram frumvarp um að afnema búnaðargjaldið eða skyldu til að greiða búnaðargjald. Ég hef enn fremur á liðnum þingum ítrekað lagt fram frumvarp um að afnema skyldu opinberra starfsmanna til að greiða til stéttarfélags, hvort sem þeir eru í því eða ekki, og þetta er svona má segja ákveðinn rauður þráður í heimsmynd minni að ekki eigi að nota ríkið til þess að innheimta fé og félagsgjöld til félagasamtaka sem ég færi rök fyrir að sé andstætt stjórnarskránni.

Nú er það svo að t.d. BSRB hefur lagt mikla áherslu á vatnið, vatnsréttindi og annað slíkt, og það hefur lagt áherslu á mörg önnur mál. Ég hef ítrekað rætt við félagsmenn sem eru neyddir til að borga þessa stefnu sem þeir eru á öndverðum meiði við, á öndverðum meiði við hv. þm. Ögmund Jónasson, sem er formaður BSRB, en verða samt að borga, borga það sem þeir kalla áróðurinn og fræðsluna um eitthvað sem þeir eru hjartanlega andsnúnir.

Þess vegna tel ég að þetta sé mjög varasamt sem hv. þingmaður segir, að það sé gott að menn séu skyldaðir til að borga í verkalýðsfélög. Hins vegar get ég alveg fallist á það að verkalýðshreyfingin hefur ákveðið hlutverk og hún á bara að vera nógu aðlaðandi fyrir félagsmenn sína að þeir vilji af frjálsum vilja ganga í verkalýðshreyfinguna og standa að því sem hún er að vinna að. Auðvitað er það óréttlátt að einhverjir skuli standa utan við og njóta ávaxtanna (Forseti hringir.) en þannig er það bara því miður alltaf.