133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

Ríkisútvarpið.

24. mál
[17:37]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið. Þetta frumvarp var lagt fram á 131. löggjafarþinginu sem og á hinu 132. og nú á því löggjafarþingi sem nú stendur og er 133. í röðinni.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem hafa þann tilgang að renna styrkari stoðum undir rekstur þess og efla lýðræðislega stjórn þess með beinni þátttöku starfsmanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi í yfirstjórn þess. Reyndar er gert ráð fyrir að fleiri aðilar komi síðan að stjórnsýslunni en þá ekki til að hafa áhrif á innri rekstur hennar.

Eins og við þekkjum liggur einnig fyrir frumvarp frá ríkisstjórninni um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og breyta skipulagi stofnunarinnar, fela einum manni, útvarpsstjóra, yfirráð yfir öllu mannahaldi þannig hann hafi vald til að ráða og reka starfsmenn. Sjálfur verði hann skipaður af útvarpsráði sem endurspegli stjórnarmeirihlutann á Alþingi hverju sinni. En sama ráð getur einnig rekið viðkomandi. Þetta finnst mönnum horfa til geysilegra framfara en ég tel þetta stórt skref aftur á bak, í afturhaldsátt. Eiginlega sætir furðu hve langt þetta mál er komið. Að vísu hefur það verið stöðvað öðru hverju í þinginu vegna mikillar andstöðu, bæði utan Alþingis og innan. Ég vona að við berum gæfu til að setja það frumvarp í salt fram yfir næstu kosningar þannig að þjóðinni gefist færi á að taka málið upp í aðdraganda komandi þingkosninga.

Í greinargerð með þessu frumvarpi, sem er flutt af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er lagt mikið upp úr lýðræðislegum og menningarlegum skyldum Ríkisútvarpsins auk þess sem við lítum á það sem mikilvægt öryggistæki fyrir alla landsmenn. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins og að það hafi góðar tekjur svo að það rísi undir skyldum sínum. Stöðugur og traustur rekstur Ríkisútvarpsins er kjölfesta í lýðræðislegri umræðu í þjóðfélaginu og tryggir hlutlæga umfjöllun og þátttöku landsmanna í landsmálum.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnsýslu og stjórnarformi Ríkisútvarpsins sem fela í sér að dagskrárráð og framkvæmdastjórn skipi veigamikinn sess í rekstri þess. Frumvarpið byggist á núgildandi ákvæðum um hlutverk Ríkisútvarpsins en í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að skerpt verði á skyldum Ríkisútvarpsins til að sinna innlendri dagskrárgerð.

Ég vek athygli á því að nú nýlega undirrituðu útvarpsstjóri og hæstv. menntamálaráðherra samkomulag um nákvæmlega þetta, að innlend dagskrárgerð yrði efld á komandi árum. Það var tengt hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, sem er furðulegur hlutur þar sem hægt er að gera slíkan samning óháð rekstrarformi stofnunarinnar í reynd. Ég minni á að danska útvarpið DR, sem er ríkisstofnun, byggir á slíkum samstarfssamningi við stjórnvöld. Svipað er upp á teningnum gagnvart breska útvarpinu BBC sem er einnig ríkisstofnun.

Ég vek athygli á því að nýlega undirrituðu útvarpsstjóri og hæstv. menntamálaráðherra samkomulag um þetta, að innlend dagskrárgerð verði efld á komandi árum.

Í frumvarpinu er lögð til ný skipan og nýtt hlutverk framkvæmdastjórnar. Lagt er til að framkvæmdastjórn beri ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og í 3. gr. frumvarpsins er samsetning hennar og valdsvið skilgreint. Lagt er til að fulltrúi dagskrárráðs eigi sæti í framkvæmdastjórn með málfrelsi og tillögurétt til að styrkja tengsl innan stofnunarinnar. Flutningsmenn telja rétt að áhrif starfsmanna í stjórn stofnunarinnar verði efld til þess að stuðla að lýðræðislegum vinnubrögðum, fagmennsku og samábyrgð.

Þetta er lykilhugtak: samábyrgð. Þessi stofnun er dauð ef hún er sett undir einræðisvald. Það leyfi ég mér að fullyrða. Þetta er samstarfsverkefni sem á að byggja á samábyrgð fólksins sem þarna vinnur. Það hefur oft verið talað um hefðir og djúpar rætur sem Ríkisútvarpið hvílir á og nýtur góðs af. En þær eru einmitt af þessum toga, samábyrgðar starfsmanna en ekki því að lúta einræðisvaldi. Það er afturhaldshugsun sem á ekki að eiga upp á pallborðið nú á dögum.

Við gerum ráð fyrir að að útvarpsstjóri verði skipaður af ráðherra en samkvæmt tillögu dagskrárráðs. Verði frumvarpið að lögum verður tillaga dagskrárráðs bindandi en þannig er lýðræðisleg skipun tryggð betur en nú. Hlutverk dagskrárráðs við mannaráðningar verður því aðeins að gera tillögu um útvarpsstjóra, ekki aðra.

Ég vek athygli á því að dagskrárráð er mjög frábrugðið útvarpsráði eins og það er skipað nú og endurspeglar hlutfall þingflokka á Alþingi. Við gerum ráð fyrir því að eftir hverjar alþingiskosningar verði skipað í dagskrárráð einn fulltrúi tilnefndur af hverjum þingflokki. Tveir fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einn fulltrúi tilnefndur af Neytendasamtökunum. Einn fulltrúi tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna og síðan sitji þar útvarpsstjóri og framkvæmdastjórar hljóðvarps og sjónvarps auk fulltrúa sem tilnefndur er af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Þarna erum við með miklu breiðari hóp og meiri aðkomu úr samfélaginu. Þótt Alþingi eigi fulltrúa í dagskrárráðinu, sem ég tel eðlilegt og æskilegt, að hafa góð tengsl við þingið, þá á það ekki að endurspegla völdin á þingi heldur þau viðhorf sem er að finna hér innan dyra.

Þá er þess að geta að við leggjum til að Ríkisútvarpið verði ekki fjármagnað með afnotagjöldum í þeirri mynd sem við þekkjum þau núna, heldur verði stuðst við fasteignir, gjöldin verði tengd fasteignagjöldum, stofn afnotagjalds verði þannig íbúðar- og atvinnuhúsnæði eftir því sem við á.

Þetta frumvarp var sent til umsagnar í samfélaginu og ýmsar athugasemdir bárust sem er vert að hyggja að. Ég ætla ekki að fara að lesa þær allar en nefni að STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, lagði til breytingar á 1. gr. frumvarpsins þar sem bætt yrði við 3. mgr. 3. gr. laganna eftirfarandi, með leyfi forseta: „svo og að hlutur nýsköpunar á sviði íslenskrar tónlistar verði snar þáttur í dagskrá Ríkisútvarpsins“. Þetta er áréttað af hálfu Tónskáldafélags Íslands og ég verð að viðurkenna að við höfðum þetta ekki við höndina þegar frumvarpið var lagt núna fram en við hefðum gjarnan viljað að svo hefði verið þannig að ég leyfi mér að skjóta þessari góðu tillögu til umfjöllunar í menntamálanefnd þegar frumvarpið verður tekið þar til skoðunar.

Mig langar til að víkja að umfjöllun Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins um þetta frumvarp en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Stjórn Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins hefur fjallað um frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Með þessu frumvarpi er mikilvægi Ríkisútvarpsins virt og einnig að það skuli hafa varanlegan sess sem menningarstofnun og almannaútvarp. Hollvinasamtökin fagna sérstaklega þeim almenna skilningi á sérstöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaðnum sem fram kemur í frumvarpinu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem fela í sér að komið verði á bæði dagskrárráði og framkvæmdastjórn. Með því er ætlunin að renna styrkari stoðum undir rekstur Ríkisútvarpsins og efla lýðræðislega stjórn þess með beinni þátttöku starfsmanna og kjörinna fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi í yfirstjórn stofnunarinnar. Með breyttri stjórnsýslu, eins og gerð er tillaga um í frumvarpinu, kæmu þar að auki fleiri aðilar að stjórn Ríkisútvarpsins. Markmið með þessari breyttu stjórnsýslu virðist vera að flokkspólitískri stjórn í stofnuninni verði breytt þannig að fulltrúar Alþingis komi að stjórnuninni en þeir ráði ekki í krafti meirihlutavalds sem endurspeglar ríkisstjórn eins og nú er.“

Þetta er hárréttur skilningur, þetta er það sem við stefnum að með frumvarpinu hvað þennan þáttinn varðar.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Hollvinasamtök RÚV telja breiðari stjórn geta verið til bóta og að slík stjórn gæti eflt sjálfstæði stofnunarinnar. Það er einnig ánægjulegt að í frumvarpinu er hnykkt á þeirri skyldu Ríkisútvarpsins að efla íslenska dagskrárgerð. Meginhlutverk Ríkisútvarpsins á að vera metnaðarfull innlend dagskrárgerð og að standa vörð um tunguna og menninguna. Það er forsenda þess að við viljum hafa ríkisrekinn fjölmiðil, það er þjónusta sem íslenska þjóðin vill og á rétt á.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Í samþykktum Hollvinasamtakanna er þó lögð sérstök áhersla á að Ríkisútvarpið verði ekki gert að hlutafélagi. Þetta frumvarp stangast ekki á við þá áherslu og er það vel. Mikilvægt er einnig að yfirstjórn Ríkisútvarpsins hafi breiða skírskotun til almennings, eigenda, og starfsmanna stofnunarinnar án þess að flokkspólitísk áhrif verði alls ráðandi. Þær hugmyndir sem settar eru fram í þessu frumvarpi samræmast þeim viðmiðunum í meginatriðum.“

Svo eru fleiri atriði nefnd í umsögn Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins. Þau taka ekki afstöðu til þeirrar leiðar sem hér er lögð til, og er að sjálfsögðu ekkert sáluhjálparatriði með fjármögnunina varðandi tengingu við fasteignir — sem ég tel þó vera mjög skynsamlega — en Hollvinasamtökin eru með efasemdir um að yfirleitt sé réttlætanlegt að leggja afnotagjöld niður með öllu.

Auglýsingar nefna Hollvinasamtökin einnig, ég er alveg sammála þeim um þær, það væri fráleitt að leggja niður auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins. Það væri nær ef farið væri með útvarpið alveg út á markað að fjármagna það þá alveg með auglýsingum. Menn verða að velja og hafna. Það eru skýrar línur, við erum með opinbera starfsemi og um hana gilda ákveðin grundvallarlög. Það eru til að mynda stjórnsýslulög, og ef við ætlum að taka stofnanir undan þeim lögum fara bara önnur lögmál að gilda. Þetta verða menn að horfast í augu við, þetta er spurning um að velja og hafna.

Síðan eru fleiri umsagnir. Það er mjög afdráttarlaus stuðningur við frumvarpið frá BSRB og fleiri aðilum, en það er ekkert undarlegt því að þar eru á ferðinni samtök starfsmanna, stærstu samtök starfsmanna innan Ríkisútvarpsins, sem hafa farið í málið og eru að skoða það út frá sínum hagsmunum, hagsmunum starfsmanna. Þarna er verið að tryggja lýðræðislega aðkomu þeirra að stjórn stofnunarinnar sem ekki gerist í stjórnarfrumvarpinu, þar er dregið úr öllu slíku.

Ég minni á að á sínum tíma var samið um aðkomu starfsmanna að framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Ég þekki það vel, ég sat í mörg ár í slíkri framkvæmdastjórn sjálfur sem formaður Starfsmannafélags sjónvarpsins. Samkvæmt þessu frumvarpi á að henda öllu þessu út. Þetta er náttúrlega slíkt virðingarleysi við starfsfólkið og samtök þess að það eru ekki einu sinni teknar upp viðræður um þetta atriði, menn bara blása á gamla samninga. Þetta er fullkomið virðingarleysi.

Ég á eftir að sjá verða sátt um það að borga einhvern sérstakan nefskatt sem Sjálfstæðisflokkurinn og hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla að setja á þjóðina til að fjármagna hlutafélag. Ég spyr hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi hugsað þetta mál alveg til enda. Ég veit að sumir hafa gert það, hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert það. Hann hefur sagt hér, og gerði við atkvæðaskýringu þegar frumvarp ríkisstjórnarinnar var til umfjöllunar, að hann liti á það sem mikilvægt skref í átt til einkavæðingar, (Gripið fram í.) ekki útvarpsgjaldið en að gera stofnunina að hlutafélagi. Ég hef sýnt hv. þingmanni þann heiður að lesa þennan gullaldartexta upp í ræðustól og það hefur verið gert nokkrum sinnum því að það er mjög mikilvægt þegar menn opna vilja sinn í þessum efnum.

Síðan er maður náttúrlega búinn að fá alveg upp í háls af þessu tali frá Framsóknarflokknum og mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins líka, að ekki standi til að selja og það sé meiri hluti fyrir því að svo verði ekki gert o.s.frv., nokkuð sem við erum búin að hlusta á í tengslum við öll frumvörp ríkisstjórnarinnar, svo lengi sem ég man eftir, um hlutafélagavæðingu ríkisfyrirtækja. Enda er það rökrétt, það er fullkomlega rökrétt, ef menn ætla að gera stofnun að hlutafélagi er það náttúrlega til þess að fara með það út á markað, væntanlega. Það er rökrétt, ég skil það, ég virði það. Ég er ósammála því, mér finnst það ekki vera rétt en þar eru menn þó sjálfum sér samkvæmir sem hinir eru ekki sem koma upp í ræðustól og sverja og sárt við leggja að ekkert slíkt sé á prjónunum. Kannski trúir fólkið þessu, það má vel vera, kannski trúa hv. þingmenn þessu. En það er afskaplega erfitt að taka því ár eftir ár að þessi ósannindi séu alltaf tuggin upp.

Hér, hæstv. forseti, teljum við okkur vera komin með skynsamlega leið til að bæta stjórnsýsluna innan Ríkisútvarpsins, gera hana miklu markvissari og lýðræðislegri. Við teljum okkur vera komin með leið sem svarar þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á undanförnum árum og lýtur m.a. að því að útvarpinu sé stjórnað á miðstýrðan, pólitískan hátt um of tengdan ríkisvaldinu hverju sinni — þetta hefur verið gagnrýnt harðlega — og hins vegar sé mörgu ábótavant innan stofnunarinnar sjálfrar, þar þurfi að vera markvissari stjórnsýsla og við erum komin fram með tillögu þar að lútandi.

Við höfnum náttúrlega hinu sem ríkisstjórnin leggur til, að þetta verði allt sett bara í vald eins manns sem öllu ráði og alla geti rekið og sé síðan í þokkabót undir járnhæl ríkisstjórnarinnar hverju sinni.