133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

Ríkisútvarpið.

24. mál
[18:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ansi mikill ljóður á frumvarpinu ef menn vita ekki einu sinni hvort þeir eiga að borga eftir fermetrastærð, rúmmáli, verðmæti eða íbúafjölda og eins að þeir sem eru í bílum eigi engan rétt til að hlusta á Ríkisútvarpið. Eða er það líka innifalið? Það er stór ljóður á frumvarpinu að hafa ekki klárað þetta dæmi og geta sagt mönnum hvað skuli miða við.

En varðandi BSRB þá má ég til með að nefna, herra forseti, að fólk er skyldað með lögum frá Alþingi til að borga til BSRB, háar fjárhæðir. Það er að fjármagna pólitískar skoðanir stjórnar BSRB sem á fulltrúa á Alþingi, hv. þm. Ögmund Jónasson. Er þetta eðlilegt? Hvernig fær þetta staðist stjórnarskrána og það að menn skuli vera frjálsir skoðana sinna? Þetta fær engan veginn staðist. Ég held að BSRB þurfi virkilega að gæta sín í því að taka ekki pólitíska afstöðu til deilumála í þjóðfélaginu, t.d. þess hvort það eigi að hlutafélagsvæða RÚV eða ekki.

Ég lýsti skoðunum mínum á frumvarpinu um RÚV fyrir hálfu ári og taldi ekki ástæðu til að gera það aftur. En ég var á móti útfærslunni á útvarpsgjaldinu. Ég er á móti þeirri útfærslu. Hins vegar studdi ég frumvarpið sjálft vegna þess að ég tel, eins og ég gat um og hv. þingmaður nefndi, að þá verði auðveldara að selja það.