133. löggjafarþing — 17. fundur,  31. okt. 2006.

Ríkisútvarpið.

24. mál
[18:03]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil vísa þessum ummælum algjörlega á bug. Við höfum oft heyrt það í tímans rás að reynt hafi verið að skipa starfsfólki til að þegja og hagsmunasamtökum þess. En það er nokkuð sem gengur ekki upp í dag og á ekki að ganga.

Þessi samtök, sem önnur í landinu, taka málefnalega afstöðu til málefna. Í þessu tilviki snerta þau hagsmuni fólksins og hvort lýðræðislegur réttur þess sé virtur. (PHB: Hvaða fólks?) Fólksins sem starfar í þessum stofnunum, í þessu tilviki Ríkisútvarpinu.

Hér er um að ræða frumvarp sem eflir lýðræðislega aðkomu starfsfólksins að stjórn stofnunarinnar í samræmi við það sem það hefur óskað eftir og samtök þess. Hér kemur fram frumvarp sem tryggir réttindi starfsfólksins. Þá ætlar hv. þm. Pétur H. Blöndal, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, að skipa fólkinu að þegja. Hann spyr hvort það eigi eitthvert erindi upp á dekk með sín sjónarmið.

Ég ítreka það að þau samtök sem hér um ræðir taka málefnalega afstöðu til þeirra frumvarpa sem fram koma, hvort sem þau eru frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum, Samfylkingunni eða Frjálslynda flokknum. Þau láta ekki hv. þm. Pétur H. Blöndal segja sér fyrir verkum.