133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

kaup ríkisins á hlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun.

[13:36]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessar fréttir komu svolítið á óvart þegar þær bárust hér laust fyrir hádegi. Ég veit ekki til þess að þetta hafi verið rætt, hvorki í bæjarstjórn á Akureyri né í borgarstjórn Reykjavíkur.

Það vekur líka furðu mína að málshefjandi, hv. þm. Helgi Hjörvar, skuli koma hér upp fyrir hönd Samfylkingarinnar því að ég veit ekki betur en að Samfylkingin sé í meiri hluta með Sjálfstæðisflokki á Akureyri og það hefðu kannski verið hæg heimatökin hjá Samfylkingunni að fá upplýsingar um þetta með því að hringja norður til Akureyrar og spyrja bæjarfulltrúa þar að því hvað væri hér í gangi.

Um leið og þessar fréttir bárust í morgun sendi F-listinn í Reykjavíkurborg frá sér yfirlýsingu. Ég tel rétt að hún sé lesin hér upp og þetta fari inn í þingtíðindi. Yfirlýsingin hljóðar svona, með leyfi forseta:

„F-listinn lýsir eindreginni andstöðu við fyrirhugaða sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun sem hann telur aðeins fyrsta skrefið í einkavæðingu fyrirtækisins. F-listinn varar við því að við einkavæðingu fyrirtækisins sé líklegt að vildarvinum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks verði afhent fyrirtækið á vildarkjörum. Það gæti orðið fyrsta skrefið að því að einkavæða einnig Orkuveitu Reykjavíkur og að einkaaðilar fengju smám saman yfirráð yfir orkulindum sem nú eru í almannaeigu. F-listinn krefst þess að ef sala á hlut borgarinnar í Landsvirkjun gengur eftir verði ábyrgðum borgarbúa vegna lántaka fyrirtækisins aflétt. Jafnframt átelur F-listinn að tilkynnt sé í fjölmiðlum um söluna án þess að málið hafi áður verið afgreitt í borgarstjórn. Þessi vinnubrögð bera keim af valdníðslu og að verið sé að sniðganga almenning í Reykjavík og kjörna fulltrúa þess.“

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að þessi yfirlýsing kæmi fram við upphaf þessarar umræðu og að sjálfsögðu styðjum við í þingflokki Frjálslynda flokksins eindregið okkar menn í borgarstjórn Reykjavíkur.