133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

útræðisréttur strandjarða.

140. mál
[15:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. byggðamálaráðherra og formanns Framsóknarflokksins:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útræðisréttur strandjarða verði virtur að nýju?

Hér er um mjög mikilvægt byggðamál að ræða og ég vil benda á að t.d. á Ströndum hafa jarðir ýmis gæði, t.d. æðarrækt og sauðfjárrækt, en ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur svipt eigendur sjávarjarða réttinum til að nýta jarðirnar, rétti til að nýta grásleppumið sem eru í eignarlandinu. Ég vil því spyrja hvort hæstv. byggðamálaráðherra ætli að snúa blaðinu við og leyfa fólkinu að nýta eignarlönd sín, en útræðisréttur sjávarjarða snýr einnig að því að bændur geti nýtt nálæg fiskimið eins og þeir hafa gert frá þjóðveldisöld, en nú hefur nýi Framsóknarflokkurinn einhverra hluta vegna svipt þá þeim réttindum.

Ég hef áður borið þessa spurningu upp, m.a. hér á Alþingi við hæstv. landbúnaðarráðherra og hann brást hinn versti við og taldi ákveðinn dónaskap vera fólginn í að spyrja slíkrar spurningar. Mér finnst það ekki. Mér finnst þetta snúast um hvort fólk fái raunverulega að bjarga sér á landsbyggðinni fyrir ofríki stjórnvalda.

Ég hef einnig spurt núverandi hæstv. félagsmálaráðherra sömu spurningar og hann virtist ekkert gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt byggðamál þetta væri. Þetta er afar mikilvægt mál og það er mjög sérstakt að Framsóknarflokkurinn hafi daufheyrst við kröfum eigenda sjávarjarða fram á þennan dag. Þeir hafa þurft að leita á náðir dómstóla, ekki einungis hér á Íslandi — þar sem þeir hafa því miður ekki fengið jákvæðar niðurstöður — heldur hafa þeir þurft að fara núna til Evrópu, til sjálfs Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að leita ásjár hvort þeir fái að nýta eignarlönd sín. Mér finnst þetta vera hið furðulegasta mál einmitt í ljósi þess að í flokkssamþykktum Framsóknarflokksins er þetta ein af samþykktunum. Samt sem áður vilja ráðherrar Framsóknarflokksins ekki beita sér og finnst þessi samþykkt flokksins í rauninni ekki vera mikilvæg og það kemur fram í svörum þeirra hér.

Auðvitað vitum við hvað liggur hér að baki. Framsóknarflokkurinn er hræddur við að verði bændum leyft að nýta eignarlönd sín muni það að einhverju leyti raska kvótakerfinu sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um. (Forseti hringir.) Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. byggðamálaráðherra hvort hann ætli að virða eignarlönd bænda.