133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[15:41]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Starf lögreglunnar hefur orðið hættulegra hér á landi á síðustu áratugum en áður var. Baráttan gegn fíkniefnasmygli og -sölu, gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi svo sem mansali og kynlífsþrælkun setur sinn svip á störf lögreglumanna en sú þróun einskorðast ekki við Ísland eins og menn vita.

Nýlega voru sagðar af því fréttir að maður sem var handtekinn hefði verið með hlaðna skammbyssu innan klæða. Ekki er vitað til þess að þetta hafi gerst áður við handtöku hér á landi. Það er við því að búast að við slík tíðindi slái óhug á almenning og að sjálfsögðu á lögreglumenn. Einnig er ljóst að inn í landið flæða alls kyns eggvopn, hnífar og hnúajárn og önnur barsmíðatól sem ekkert erindi eiga í hendur almennings. Þetta gerist þrátt fyrir skýr ákvæði vopnalaga um að vopnaburður hvers konar sé bannaður á almannafæri. Þegar svo er komið er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að taka á málum af yfirvegun og ábyrgð.

Í tíð núverandi hæstv. dómsmálaráðherra hefur sérsveit lögreglunnar verið efld en sérsveitarmenn eru þeir einu sem mega fara með vopn innan lögreglunnar. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því en á höfuðborgarsvæðinu eru að lágmarki tveir sérsveitarmenn á vakt í sérútbúnum lögreglubíl sem í eru vopn sem hægt er að grípa til fyrirvaralaust.

Hæstv. forseti. Nýlega mun starfshópur ríkislögreglustjóra hafa gert það að tillögu sinni að lögregluliðin í landinu fái aukinn sérbúnað. Samkvæmt fréttum er um að ræða skammbyssur, skotheld vesti og skothelda hjálma. Eftir því sem ég kemst næst er tillagan sú að slíkur búnaður sé tiltækur á hverri lögreglustöð. Þessar tillögur munu hafa verið kynntar fyrir dómsmálaráðherra og því er ástæða til þess að inna hann eftir því hver viðbrögð hans við þeim séu. Telur hæstv. dómsmálaráðherra t.d. koma til greina að lögreglumenn noti almennt svokölluð léttvesti sem mun vera ein tegund skotheldra vesta?

Burt séð frá umræðunni um öryggisbúnað lögreglumanna er ljóst að fari lögreglan að vopnbúast munu glæpamennirnir gera það líka. Það skapar hættulegra og ofbeldisfyllra samfélag í stað þess að veita borgurunum betri vernd, og menn verða að horfast í augu við það. Menn verða líka að svara því hvaða vanda aukinn vopnabúnaður lögreglu eigi að leysa ef af slíku yrði.

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram, m.a. hjá framkvæmdastjóra Landssambands lögreglumanna, að landssambandið er ekki meðmælt því að lögreglan vopnist, til þess höfum við sérsveitina. Ég vil líka taka það fram að ég hef ekki heldur heyrt hæstv. dómsmálaráðherra leggja slíkt til. Vegna fréttaflutnings að undanförnu, m.a. um tillögur starfshópsins, tel ég nauðsynlegt að þetta mál sé rætt utan dagskrár á hinu háa Alþingi. Það er nauðsynlegt að hv. þingmenn ræði það hér við þessa umræðu og væntanlega nánar í störfum þingsins í vetur hvort einhver vilji sé fyrir því að fara inn á þessa braut hér á landi, eða ekki, og hvaða aðgerðir það kallar á eða hvort við viljum halda í gildi þess — hið menningarlega og siðferðislega gildi þess, vil ég halda fram — að hafa vopnlausa lögreglumenn á Íslandi.