133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[15:44]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Landssamband lögreglumanna vakti athygli dómsmálaráðuneytisins á því í lok síðasta árs að meðferð og úrvinnsla mála er varðar hótanir og ofbeldi gegn lögreglumönnum væri ekki í nógu góðum farvegi og var m.a. vísað til þess að ákveðins þekkingarleysis og áhugaleysis gætti við meðferð slíkra mála.

Þá hefur embætti ríkislögreglustjóra komið að vinnu vegna starfsumhverfis lögreglumanna. Þar á meðal unnið að úttekt á rannsóknum lögreglu vegna meintra brota gegn 106. gr. almennra hegningarlaga, unnið að gerð tillagna um skipuleg viðbrögð við alvarlegum áföllum sem lögreglumenn verða fyrir í starfi og lýst viðhorfum sínum til 106. gr. almennra hegningarlaga og mála er varða mótþróa við handtökuaðgerðir.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum unnið að samantekt um lagaumhverfi þessara brota og litið m.a. til réttarumhverfis í Danmörku og Noregi í vinnu sinni. Hefur samantekt ráðuneytisins þar sem lýst er tillögum til úrbóta verið send refsiréttarnefnd sem nú fjallar um 106. gr. almennra hegningarlaga með það að markmiði að vinna að gerð frumvarps til breytinga á ákvæðinu.

Helstu tillögur til úrbóta að því er varðar lögreglumenn sérstaklega felast í því að hækka refsiramma 1. mgr. 106. gr. ef brot gegn greininni beinist að opinberum starfsmanni sem að lögum hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar. Í slíkum tilfellum megi beita fangelsi allt að átta árum í stað sex ára hámarks eins og ákvæðið er nú úr garði gert. Þá felast tillögur til úrbóta jafnframt í því að skýra nánar framsetningu 2. mgr. 106. gr. á þann veg að sá sem tálmar því á annan hátt að lögreglumaður gegni skyldustörfum sínum skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári.

Þá tel ég einnig koma til greina að skipaður verði starfshópur fulltrúa ráðuneytisins, ákæruvaldsins, ríkislögreglustjóra, Landssambands lögreglumanna og eftir atvikum fulltrúa úr röðum tollvarða og fangavarða sem vinna að gerð tillagna að verklagsreglum um rannsókn og meðferð mála þar sem grunur leikur á að opinber starfsmaður sem heimild hefur að lögum til líkamlegrar valdbeitingar hafi sætt broti gegn 106. gr. almennra hegningarlaga.

Það hefur lengi verið ríkjandi stefna íslensku lögreglunnar að lögreglumenn séu óvopnaðir við almenn löggæslustörf og hefur engin breyting orðið á þeirri stefnu þrátt fyrir vaxandi fjölmiðlaumræðu um alvarleg mál þar sem lögregla hefur þurft að yfirbuga vopnaða einstaklinga. Það er skoðun mín að ekki sé ástæða til að hverfa frá þeirri meginstefnu að hin almenna lögregla í landinu sé óvopnuð við dagleg störf. Þessi mál eru reglulega til umræðu hjá lögregluyfirvöldum enda mikilvægt að lögreglan sé sjálf lykilþátttakandi í umræðunni þar sem um starfsöryggi lögreglumanna er að ræða.

Ég tel það mun betri kost að leggja áfram auknar áherslur á uppbyggingu sérsveitar lögreglunnar, en á undanförnum árum hefur sérsveitarmönnum verið fjölgað ásamt því sem markvisst hefur verið hugað að þjálfun sérsveitarmanna. Hefur verið unnið að uppbyggingu sérsveitarinnar í góðri sátt við helstu hagsmunaaðila. Sérsveitin hefur verið efld á síðustu þremur árum. Frá 1. nóvember eru um 45 menn í henni, þar af 36 á höfuðborgarsvæðinu, 4 á Akureyri og 5 á Suðurnesjum. Sérsveitin hefur frá 1992 haft vopnabúnað með í útkallsbifreið.

Vegna fámennis í sérsveitinni var áður fyrr ekki alltaf unnt að tryggja að sérsveitarmenn væru á vakt en nú hefur verið bætt úr því þannig að ávallt eru að lágmarki tveir sérsveitarmenn á vakt allan sólarhringinn.

Sérsveitin var stofnuð árið 1982 og fram til 1992 kom iðulega til þess að ræsa þurfi út alla sveitina vegna vopnamála. Árið 1992 var því fyrirkomulagi breytt í þá veru að sérsveitin mannaði útkallsbifreið á vöktum sem leiddi til þess að oft tókst að leysa mál á frumstigi án þess að kæmi til allsherjarútkalls sveitarinnar. Engin breyting hefur orðið á eðli starfa sérsveitarinnar frá 1992.

Með fjölgun sérsveitarmanna hefur hins vegar verið tryggt að ávallt séu sérsveitarmenn til staðar. Auk þess tryggir fjölgunin viðbúnað sérsveitarinnar til að takast á við stærstu verkefni. Vegna fjölgunarinnar geta verið allt að 12 sérsveitarmenn á vakt á næturvöktum um helgar.

Sérsveitin gerir út útkallsbifreiðir frá höfuðborgarsvæðinu og nær eftirlitssvæðið til Keflavíkur, Selfoss og Borgarness. Þá eru gerðar út útkallsbifreiðir frá Akureyri og Keflavíkurflugvelli. Fjarskiptamiðstöð lögreglu stýrir útkallsliðinu til starfa þar sem þörfin er mest hverju sinni. Sérsveitin er þannig hreyfanlegur liðsstyrkur lögreglunnar sem er óbundin af umdæmamörkum. Þá er fyrirvaralaust hægt að senda sérsveitarmenn um allt land þegar á þarf að halda.