133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[15:53]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er tekið til umræðu mál sem er á margan hátt mjög flókið og vandmeðfarið, mál sem hefur á sér marga fleti. Ég tel að sjálfsögðu að lögreglumenn sem sinna almennum löggæslustörfum eigi alls ekki að vera vopnaðir. Það væri mjög varhugavert að fara út á þá braut. Hins vegar sjáum við dæmi þess að glæpamenn hér á landi, sumir hverjir, eru farnir að bera vopn. Við höfum líka séð dæmi þess í löndunum í kringum okkur, nágrannalöndunum, að óvopnaðir lögreglumenn hafa verið myrtir við störf sín af vopnuðum glæpamönnum. Þeir hafa verið sendir óvopnaðir í útköll jafnvel þegar vitað var að menn væru hugsanlega gráir fyrir járnum og biðu komu þeirra. Þetta er á margan hátt mjög vandmeðfarið.

Sérsveitin er góð svo langt sem hún nær en það má spyrja sig hvort hún dugi alltaf til. Það má spyrja þeirrar spurningar hvort ástæða sé til að vopn séu til staðar á lögreglustöðvum víða um land sem grípa mætti til eftir ákveðnum reglum ef í harðbakkann slægi. Þarna er ég náttúrlega fyrst og fremst að hugsa um öryggi borgaranna og líka um öryggi lögreglumanna. Að lögreglumenn geti þá brugðist við aðstæðum sem kynnu að koma upp með mjög skömmum fyrirvara og varið hendur sínar og um leið varið borgarana. Ég ætla ekki hér og nú að taka afstöðu til þess hvort þetta eigi að gera en ég tel að við eigum að skoða þessi mál með opnum huga. Við verðum líka jafnframt að hafa í huga að vopnaburður lögreglu mun sennilega kalla á það að glæpamenn vígvæðist einnig á móti. Þetta er því mjög erfitt og vandmeðfarið mál.

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt og mjög gott að við tökum þessa umræðu. Það er sjálfsagt og mjög gott að við hugleiðum þessi mál og skoðum þau með opnum huga og séum mjög á varðbergi gegn því að þróun (Forseti hringir.) mála verði með neikvæðum hætti.