133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

vopnaburður lögreglumanna.

[16:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt að ræða hér búnað, jafnvel vopnaburð íslenskra löggæslumanna, skiptast á skoðunum um það því að þetta er alvörumál. Þetta er alvörumál í okkar þjóðfélagi þar sem við erum vopnlaus þjóð. Við höfum ávallt sótt mál okkar og varið okkur án vopna, að minnsta kosti nokkur hundruð undanfarin ár. Ekkert er fjær okkur en að vopnbúa starfsmenn þjóðarinnar við almenn störf. Það er mjög mikilvægt að standa vörð um og halda því stöðugt á lofti að almennir löggæslumenn beri ekki vopn.

Ég vil líka vara hér við þeim tón af vopnvæðingu sem virðist fara vaxandi í þjóðfélaginu ekki síst einmitt vegna gerða og orða hæstv. dómsmálaráðherra. Vöxt sérsveitar lögreglunnar og aukin verksvið hennar, jafnvel inn á almenn löggæslusvið, ber að varast. Ég held að það eigi að setja enn skýrari mörk um verksvið þessarar vopnuðu sérsveitar, ef hennar er þörf, þannig að hún hvetji á engan hátt til aukinnar hörku í samfélaginu eða geti verið hluti af þeirri sýn að hér sé að verða til vopnuð löggæslusveit.

Fréttaflutningur til dæmis af mótmælum austur á landi þar sem löggæslumenn komu að því er virtist með hjálma og skildi til þess að takast á við friðsama mótmælendur eða ferðafólk (Forseti hringir.) á hálendi Íslands þýðir auðvitað það að það er verið að gefa hörku-skilaboð sem ég (Forseti hringir.) tel mjög mikilvægt, herra forseti, (Forseti hringir.) að við forðumst og höfnum alfarið.