133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:31]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Vöxtur og viðgangur íslenskrar tungu er eitt af því sem ætti að vera mikilvægt verkefni stjórnmálamanna og stjórnvalda á þessari öld hnattvæðingar og á tímum nýs fjölmenningarsamfélags á Íslandi. Íslensk málnefnd hefur undanfarna áratugi verið mikilvægur vettvangur við þetta verk, að styðja vöxt og viðgang íslenskrar tungu.

Íslensk málnefnd er ekki á vegum stjórnvalda þótt nafnið bendi til þess heldur er málnefndin samvinnuvettvangur þar sem fulltrúar ráðuneytis, háskólastofnana ýmissa, félaga og áhugamanna um allt samfélagið koma saman og ráða ráðum sínum um það hvernig best megi standa að því verkefni sem nefndin hefur fengið. Nefndin hefur gert mikið gagn fyrir lítið fé.

Hlutur málnefndarinnar var gagnrýndur mjög í fyrra þegar Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varð til með atbeina Alþingis. Því lauk svo að þingið samþykkti töluverðar breytingar. Hluti af umfjöllun menntamálanefndar var að sjá til þess að hefja íslenska málnefnd til vegs með því að hún fengi fjárveitingu samkvæmt sérstökum fjárlagalið í fjárlögum. Öll nefndin, allir níu nefndarmennirnir, fulltrúar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og allra stjórnarandstæðinga voru með í þessu.

Skipunartími síðustu málnefndar rann út um síðustu áramót. Hún var að vísu beðin um, þegar liðið var á árið, að starfa til 1. september. Þá hætti hún störfum og í tvo mánuði og tvo daga, nema eitthvað hafi gerst í morgun sem ég veit ekki um, hefur ekki verið til nein íslensk málnefnd. Ég spyr hæstv. menntamálaráðherra þess vegna:

1. Hverjir skipa íslenska málnefnd í dag, 2. nóvember árið 2006?

2. Hvar er hin sérstaka fjárveiting til nefndarinnar?

3. Hvernig sér menntamálaráðherra fyrir sér hlutverk og erindi nefndarinnar miðað við þessa frammistöðu og miðað við það að á næstunni er 16. nóvember, 199. dagur frá afmæli Jónasar Hallgrímssonar og hinn sérstaki dagur íslenskrar tungu þar sem Íslensk málnefnd hefur leikið töluvert hlutverk?