133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Einhvern veginn er það svo með þessa ríkisstjórn að þegar hæstv. menntamálaráðherra kemur í salinn og segir að breytingar hafi verið gerðar til að efla málaflokk þá kemur lítill efasemdarpúki á öxina á mér. Ég efaðist um að þetta væri megintilgangur breytinganna. Mér sýnist eitt og annað benda til þess að megintilgangurinn, eins og hæstv. ráðherra segir, sé aðeins að fara á skjön í höndunum á þessari ríkisstjórn. Það er miður.

Hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni að búið sé að styrkja stöðu Íslenskrar málnefndar eins og ákveðið var með nýju lögunum. Samt kemur í ljós í máli hennar, og eins og hv. þm. Mörður Árnason bendir á, að ekki er búið að skipa nefndina. Það er ekki búið að ákveða fjárveitingu til hennar og dagur íslenskrar tungu ef til vill í uppnámi. Ég segi því: Ég efast um að heilindin í talinu um eflingu málaflokksins.

Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að vera vakandi á þessum verði. Það skiptir verulegu máli að stjórnvöld hafi það aðhald sem hér er sýnt. Auðvitað sjáum við að hæstv. ráðherra svaraði engu varðandi spurningar hv. þingmanns um fjárveitingu til Íslenskrar málnefndar.

Það kemur mér á óvart að ekki sé gert ráð fyrir því að efna loforð sem gefin voru í umfjöllun um málið fyrir örfáum mánuðum þegar Alþingi náði saman eftir mikla og góða vinnu menntamálanefndar um þessa niðurstöðu. Stjórnvöld verða að sjá sóma sinn í að halda því merki á lofti sem menntamálanefnd Alþingis stóð undir sameinuð og sjá til að því verði fylgt. Á hinn bóginn eru merki á lofti um að ekki eigi að gera það og það er miður. Hvatning okkar stjórnarandstöðunnar til ráðherrans er að taka hraustlega á málum og tryggja stöðu Íslenskrar málnefndar í þessu kerfi.