133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:38]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. Mörður Árnason veki athygli á því ástandi sem verið hefur á Íslenskri málnefnd. Staðan er því miður ekki mjög traustvekjandi miðað við að við lögðum ákveðnar línur varðandi Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þegar sú stofnun var til umfjöllunar. Menntamálanefnd sameinaðist um að leggja á það sérstaka áherslu að Íslensk málnefnd yrði efld, m.a. á þann táknræna hátt að verða sérstakur fjárlagaliður. Það sést ekki og hæstv. ráðherra notaði ekki tækifærið áðan til þess að lýsa yfir vilja sínum til að fjárlögum yrði breytt í þá átt.

Frú forseti. Það er eðlilegt að óska eftir því að hæstv. ráðherra komi með yfirlýsingu í þá átt þannig að tryggja megi að a.m.k. þetta skref verði stigið.

Síðan er það auðvitað alveg sérstök athugasemd að ekki skuli hafa verið skipað fyrr í Íslenska málnefnd. Það er sérkennilegt af hæstv. ráðherra að kenna tilnefningaraðilum þar um. Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra gefi upp dagsetningar í því sambandi, hvenær óskað var eftir tilnefningum frá viðkomandi aðilum þannig að það sé skýrt að nægur frestur hafi til þess gefist. Fyrst var framlengdur tími Íslenskrar málnefndar sem er eðlilegt að gera og það nokkuð ríflega, til 1. september. Flestir hefðu talið að sá tími nægði til að ganga frá tilnefningum eða reka á eftir þeim sem langan tíma tók að afla tilnefninga frá en að enn í dag skuli ekki búið að skipa íslenska málnefnd sýnir að einhvers staðar hefur verið staðið slælega að verki.

Það er hins vegar fagnaðarefni að hæstv. ráðherra skuli búin að ná nefndinni í hús. Við gerum ráð fyrir því að hæstv. ráðherra tjái okkur það hér á eftir að fyrsta verk hæstv. ráðherra, þegar þessum fundi lýkur, verði að ganga frá skipun nefndarinnar.