133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

Íslensk málnefnd.

[13:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Íslensk málnefnd á að vera ákveðið flaggskip fyrir þá ímynd sem íslensk tunga er og fyrir það hvernig hún þróast hér á landi í íslensku samfélagi.

Í 9. gr. laganna um Árnastofnun segir svo, með leyfi forseta:

„Hlutverk Íslenskrar málnefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda m.a. um stafsetningarkennslu í skólum og menntamálaráðherra gefur út.“

Þarna er verið að setja einhvers konar opinberan mælikvarða á það hvernig íslensk tunga þróast bæði í talmáli og sérstaklega ritmáli og þá einkum að því sem snýr að því opinbera. Ég legg því áherslu á, frú forseti, að sú virðing sem starf þessarar nefndar á að spegla gagnvart íslenskri tungu er mikils virði. Þess vegna þurfum við að gæta þess, líka í stjórnsýslunni, að skipan nefndar eins og hér er verið að tala um, nefndar sem á að hafa þetta viðamikla hlutverk, lendi ekki í neinum undandrætti.

Ég hvet líka hæstv. ráðherra menntamála, þegar sett verður reglugerð varðandi þessi lög, að kveða þá á um t.d. að þeir sem smíða lög og reglugerðir af hálfu hins opinbera, af hálfu ráðuneyta, hafi samband við Íslenska málnefnd þannig að við þurfum ekki oftar að sjá þær hryllilegu ambögur sem birtast í frumvörpum eða reglugerðum frá hinu opinbera, frú forseti.