133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[14:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er komið til Alþingis frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum sem beðið hefur verið eftir því það er orðið eitt og hálft ár síðan nefnd sú sem á grunninn í þessu frumvarpi skilaði af sér störfum. Rétt er að taka undir með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það verk var vandasamt. Það var vandasamt að leiða til lykta í frumvarpsform þær niðurstöður sem nefndin komst að á sínum tíma og kynnti á vordögum 2005.

Mér virðist af þeim stutta tíma sem ég hef haft til að kynna mér frumvarpið og greinargerð þess að þetta verk hafi verið leyst afar vel af hendi af þeim færu lögfræðingum sem um það mál véluðu og það má líka segja þeim til hróss að fundirnir sem haldnir voru með fulltrúunum sem sátu í fjölmiðlanefndinni voru afar gagnlegir og upplýsandi og vinnubrögðin í alla staði til fyrirmyndar að mínu mati. Ég hef síðan ekki haft tækifæri eða tíma til að bera saman í smáatriðum þær textatillögur sem bornar voru undir okkur í því samráðsferli og það sem á endanum kom niður í frumvarpstextann, en ég geri ráð fyrir að þar hafi ekki verið hvikað frá meginatriðunum sem okkur voru kynnt.

Ég get líka tekið undir með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að fyrirliggjandi frumvarp afhjúpar vissulega þá forheimskun sem réði för þegar fjölmiðlafrumvarpið hið fyrra var hér til umræðu. Það er óþarfi að rifja það upp í smáatriðum, þeir sem tóku þátt í þeirri umræðu eru þess minnugir á hvaða nótum hún var. Það er eitthvað sem heyrir sögunni til en auðvitað er erfitt að rjúfa tengsl þessa máls við þann ótrúlega og forpokaða upptakt, leyfi ég mér að segja.

Svo ég haldi áfram að vitna til orða hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, af því að ég er upptekin af þeim punktum sem ég tók þegar hún flutti ræðu sína, þá er rétt að Samfylkingin lagði mikla áherslu á gagnsæi eignarhalds í þeirri umræðu sem fram hefur farið um þessi mál á Alþingi og sömuleiðis sjálfstæði ritstjórna og þótt við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ævinlega tekið undir þær hugmyndir og áherslur höfum við samt sem áður lagt mesta áherslu á að samhliða því að löggjöf um fjölmiðla yrði endurskoðuð, yrði staða Ríkisútvarpsins tryggð. Sjónarmið okkar hafa ævinlega gengið út á það að stórt og öflugt ríkisútvarp, sem hefði miklum skyldum að gegna við menningu þjóðarinnar, gæti tryggt kröftugan lággróður á almennum fjölmiðlamarkaði. Við álítum að í samfélagi sem ekki er stærra en okkar, 300 þúsund manna samfélag, þurfi að tryggja, til að viðhalda menningu þjóðarinnar, mjög öflugt ríkisútvarp sem standi traustum fótum og sé stutt með ráðum og dáð af þjóðinni og hinu opinbera og sé fjármagnað á þann hátt sem gert hefur verið hingað til, þ.e. að þjóðin finni fyrir því að hún eigi þá stofnun. Fái sú stofnun byr undir vængina og fái hún að vera sá öflugi máttarstólpi menningar, erum við þess fullviss að fjölbreytt fjölmiðlaflóra geti þrifist í skjóli sterks ríkisútvarps, nota bene, ekki í skugganum af því.

Ég nefni dæmi sem við höfum í samfélagi okkar sem mér finnst alltaf vera svolítið sambærilegt við þetta. Það kemur norðan úr Eyjafirði. Allir vita að eftir að Leikfélag Akureyrar fékk þá stöðu sem það hefur nú, þ.e. var gert að atvinnuleikhúsi og fékk þar af leiðandi kraft og viðurkenningu, þá gerðist það að áhugamannasamfélagið í leiklist við Eyjafjörð og í nágrannasveitum Eyjafjarðar, blómstraði sem aldrei fyrr. Sú merkilega menningarheild sem er við Eyjafjörðinn hefur viðhaldist og hún er í raun og veru að sanna núna þá kenningu okkar vinstri grænna að stór og máttugur aðili sem stendur traustum fótum og hefur stuðning frá hinu opinbera getur lyft grettistaki í þeim gróðri sem þrífst þar í kring.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum líka lagt verulega áherslu á lýðræðislegt hlutverk fjölmiðla í þessari umfjöllun um fjölmiðla. Við höfum verið þess fullviss að með þessum lögum sé hægt að tryggja að óvilhöll umræða um þjóðmál og hvaðeina sem varðar þjóðina geti farið fram eða verið studd í öllum fjölmiðlum. Það er verulega mikilvægt að talað sé á þeim nótum að þjóðmálaumræða, hvort heldur hún varðar börn eða ungmenni, miðaldra fólk eða gamalt, konur eða karla, fatlaða eða ófatlaða, sé til staðar á sem breiðustum grunni og í sem flestum fjölmiðlum.

Auðvitað má til sanns vegar færa að verið sé að nútímavæða löggjöf um fjölmiðlana með þessu frumvarpi. Mér finnst afar mikilvægt að það skuli gert því satt að segja er búið að vera hálfönugt að þurfa að horfa upp á það, nánast hvern einasta dag, hvernig núgildandi lög um fjölmiðla eru þverbrotin og nánast ekki hægt að fara eftir þeim. Í fyrsta lagi vegna þess að tækninni hefur fleygt fram miðað við það sem hún var þegar þau lög voru sett, og í öðru lagi vegna þess að ákveðnar hefðir eru að skapast sem menn leyfa sér að láta skjóta rótum, jafnvel þótt ekki sé lagaleg stoð fyrir því eins og lagaumhverfið er í dag. Það er auðvitað fullkomlega óviðunandi og því segi ég að þessi löggjöf er langþráð. Það verður sannarlega fagnaðarefni þegar við getum, vonandi fyrir lok þessa þings, horft fram á að fá löggjöf sem er betur í takt við tímann, betur í takt við þá tækni sem er til staðar og þær kröfur sem gerðar eru í nútímasamfélagi hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Fyrsta setningin í greinargerðinni með þessu frumvarpi, sem var jafnframt fyrsta setningin í ræðu hæstv. menntamálaráðherra, er mér nokkuð hugleikin. Hún fær mig til að hugsa um meginlínurnar í þeirri stöðu sem við búum við í dag á fjölmiðlamarkaði. Fyrsta setningin í inngangi athugasemda við lagafrumvarpið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á undanförnum árum, eða allt frá því að breytingar á útvarpslögum tóku gildi hér á landi á árinu 1986 og leiddu til frelsis í fjölmiðlun, hefur mikil gróska og örar breytingar einkennt íslenskan fjölmiðlamarkað.“

Ég undirstrika orðið frelsi í þessari setningu, þ.e. ég spyr sjálfa mig að því hvort ríkt hafi svo mikið ófrelsi eða svo mikil höft fram að þeim tíma. Svar mitt við þeirri spurningu er auðvitað nei. Fyrir 1986 var hér til staðar öflugt ríkisútvarp sem fullnægði þjóðinni afar vel að mínu mati. Síðan urðu ákveðnar breytingar sem höfðu grósku í för með sér. Ekki skal ég draga dul á það. Auðvitað hafa orðið örar breytingar, ekki bara af því að fjölmiðlum hafi fjölgað heldur líka, eins og ég vék að áðan, vegna þess að tækninni hefur fleygt fram og í því tilliti hefur umhverfið breyst verulega mikið.

Ástæðan fyrir því að ég geri frelsishugtakið að umræðuefni er sú að eitt af meginatriðunum í því sem við þurfum að skoða þegar við fjöllum um þetta mál er hvaða dagskrárefni það er sem við erum að fá í okkar íslensku fjölmiðlum. Þegar við skoðum afar góða greinargerð með þessu frumvarpi, sem er mjög efnismikil og fín og uppfærir að sumu leyti upplýsingar sem koma fram í skýrslu fjölmiðlanefndar, rekum við augun í það þegar við skoðum dagskrárefnið að það hefur í sjálfu sér lítið eða ekkert breyst. Mér finnst svo alvarlegt, miðað við það hversu mikil fjölgun hefur orðið í flórunni, að horfa upp á það þegar við lítum á greinargerðina og skoðum kaflann um dagskrárefnið að það er nánast hið sama. Það eina sem virðist hafa gerst er að það hefur dregið úr krafti og styrk Ríkisútvarpsins.

Ég ætla að fá að vitna aðeins til greinargerðarinnar, hæstv. forseti, þar sem fjallað er um dagskrárefni, á bls. 29. Þar er sérstakur kafli sem fjallar um uppruna dagskrár. Þar segir:

„Allar götur frá því að innlent sjónvarp hófst árið 1966 hefur eitt helsta einkenni þess verið óvenjuhátt hlutfall erlends efnis af útsendri dagskrá.“

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta athyglisvert í ljósi þess að það má sannarlega fullyrða að þetta háa hlutfall — við sjáum það hér á línuritum — erlends efnis er nánast það sama og það var fyrir hina meintu frelsisbylgju sem átti sér stað 1986.

Ástæða þess að mér finnst sérstaklega athyglisvert að beina sjónum að sjónvarpinu í þessari ræðu — þetta er náttúrlega ekki langur tími — er auðvitað sú staðreynd að sjónvarpið er öflugasti miðillinn af þeim miðlum sem við fjöllum um í þessu frumvarpi. Það hefur sýnt sig að sjónvarpið hefur ákveðna yfirburði í fjölmiðlaumræðunni, í lýðræðislegri umfjöllun um þjóðmálin, á við aðra fjölmiðla.

Það kemur í ljós í þessari greinargerð að í alþjóðlegum samanburði hefur íslenskt sjónvarp í gegnum árin yfirleitt alltaf verið nánast í botnsætinu á öllum samanburðarlistum hvað varðar hlutdeild innlends efnis af dagskrá. Þá gildir einu hvort um hefur verið að ræða samanburð á efni stöðva í almannaþjónustu eða einkarekinna stöðva. Ef aðeins er miðað við uppruna leikins efnis er samanburðurinn jafnvel enn þá óhagstæðari fyrir íslenskt sjónvarp. Ástæða þess er sögð sú að framleiðsla leikins efnis sé kostnaðarsöm og regluleg framleiðsla slíks efnis hafi verið ofviða íslensku sjónvarpi. Íslensk og innlend dagskrárgerð hefur mestmegnis einskorðast við fréttir og fréttatengda dagskrárliði og framleiðslu efnis sem ekki er eins frekt á mannafla og fjármuni og sem ekki kallar á umtalsverða forvinnu og eftirvinnslu, svo sem viðtals- og skemmtiþættir hvers konar, gestakomur í sjónvarpssal og upptökur og beinar útsendingar til að mynda frá íþróttakeppnum og kappleikjum.

Þetta eru auðvitað orð að sönnu, hæstv. forseti, þetta var raunin í árdaga sjónvarps. Þá tókum við upp á filmu útvarpsþætti, viðtalsþætti í sjónvarpssal, og í sjálfu sér hefur sáralítið breyst í þessum efnum. Mér finnst það alvarlegt þegar við erum að skoða þessa hluti í heild og skoða samhengi hlutanna að okkur skuli ekkert hafa miðað fram á við í framleiðslu innlends, leikins efnis á þeim tíma sem liðinn er frá því að íslenskt sjónvarp hóf göngu sína 1966 og heldur ekkert frá 1986, þegar öllum var opnuð greið leið að því að reka fjölmiðla af þessu tagi.

Hins vegar hefur framboðið á erlenda efninu margfaldast með þessari fjölgun stöðva og með þeirri samkeppni sem leidd var inn á þennan markað á sínum tíma. Í greinargerð kemur fram að árið 2003 hafi sjónvarpsáhorfendum hér á landi staðið til boða yfir 4.500 stundir af innlendu efni á þeim fjórum stöðvum sem sendu út á landsvísu en innan við 700 stundir 1987.

Svo spyr maður sig: Bíddu, hverju erum við bættari að hafa nú 4.500 stundir af sjónvarpsefni úti á öldum ljósvakans og við höfðum bara 700 áður? Ég fullyrði að við erum í sjálfu sér engu bættari vegna þess að efnið hefur ekkert breyst. Fjölbreytnin hefur ekki komið með þessu fjölræði eða fjölgun stöðva eða samkeppni. Mér finnst það grafalvarlegt mál og ég held að þetta sé eitt af því sem við verðum að ræða í þessum sal og í menntamálanefnd þegar við förum ofan í saumana á frumvarpinu, hvort það er eitthvað sem löggjafinn getur gert í þessum efnum, þó ekki væri annað en að fara ofan í saumana á þessu og hvetja til umræðu um nákvæmlega þennan þátt þessara mála.

Það sem skiptir verulegu máli, virðulegur forseti, er að hlutdeild sjónvarpsins í íslensku leiknu efni er lítil. Það er ábyrgðarhluti þegar við reynum að skoða þá ábyrgð og þá meðvitund sem þarf að ríkja hjá okkur sem byggjum þetta fámenna málsamfélag og skoðum í heildrænu samhengi þá ábyrgð sem við höfum á herðunum til að viðhalda því málsamfélagi og þeirri menningu sem hér þrífst.

Þegar þetta er allt saman skoðað sýnist mér þessi heildaráhorfsskoðun leiða það í ljós að þó að hún skiptist á fleiri aðila en hún gerði áður en samkeppnin var innleidd, þá er afleiðingin í sjálfu sér kannski bara veikari stöðvar og í öllu falli að mínu mati veikara Ríkisútvarp, sem hefur ekki fengið þann bakhjarl í ríkisstjórninni eða í stjórnvöldum sem nauðsynlegt hefði verið að mínu mati til að það geti verið einn af máttarstólpum menningar á Íslandi. Vegna þess hver veruleikinn er höfum við, talsmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, verið þeirrar skoðunar að um Ríkisútvarpið ættu að ríkja efnismiklar reglur um meginstefnu og um ábyrgð enda hefði sú stofnun hlutverki að gegna í menningarlegum efnum umfram sjálfstæðu stöðvarnar eða stöðvar sem reknar eru á einkamarkaði. Aðrir fjölmiðlar ættu hins vegar að okkar mati að geta haft nokkuð frjálsar hendur innan sanngjarnra marka og í sjálfu sér má segja að ég hafi alltaf verið efins um lagaklásúlur sem ekki er eða hefur verið ætlunin að fara eftir — já, fyrirgefið, þetta var ég búin að segja, ég er farin að rugla saman punktunum, frú forseti, þannig að ég held ég láti þessari hugsun bara lokið.

Að mínu mati er það svo að vopnið í þessari baráttu við einsleitnina er að stórefla ríkisrekið útvarp og sjónvarp, hljóðvarp og sjónvarp. Um það erum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og núverandi stjórnvöld ekki sammála, því miður. Til vitnis um það eru frumvörp undangenginna ára um Ríkisútvarpið. Það er sjónarmið mitt að stjórnvöld hefðu í sjálfu sér átt að taka því boði sem þau stóðu frammi fyrir á síðasta ári, að sjá til þess að þessi frumvörp tvö héldust í hendur í gegnum umfjöllun á Alþingi. Því hefur aldrei verið sinnt. Það hefur greinilega verið lítill vilji á stjórnarheimilinu til þess að hægt væri að taka umræðuna í samhengi, því að eins og kunnugt er í þessum sal hefur Ríkisútvarpsfrumvarpið nú þegar verið sent út til umfjöllunar og umfjöllunin um það kemur til með að verða ótengd umfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið, a.m.k. hjá þeim umsagnaraðilum sem um ræðir og koma til með að gefa nefndinni umsögn sína, því að þeir hafa ekki verið beðnir um að senda eina sameiginlega umsögn eða umsögn þar sem málin tengjast heldur þvert á móti. Ríkisútvarpsfrumvarpið er farið út og á að vera komið til nefndarinnar fyrir þessi vikulok. En síðan komum við til með í næstu viku að öllum líkindum að senda þetta stóra frumvarp til umsagnar til að mestu leyti sömu aðila sem eiga þess þá ekki kost að vega og meta samhengi þessara tveggja frumvarpa. Það hefur mér alltaf þótt afar miður og nefni það þess vegna nú, eins og ég hef svo sem áður vikið að.

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um tekjur af fjölmiðlarekstri og fjallað um tekjur af auglýsingum. Af því að tími minn er nú orðinn af skornum skammti ætla ég aðeins að fara á hundavaði yfir það sem segir um auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins, hljóðvarps. Þær hafa lækkað um nær helming að raunvirði frá því að samkeppnin var innleidd. Ég vil leyfa mér að fullyrða, frú forseti, að meginástæða þess að menn, sérstaklega á hægri væng stjórnmálanna eða hlynntir kapítalisma í stjórnmálum, hafa sótt svo fast að fá að reka fjölmiðla á Íslandi hafi verið ásóknin í auglýsingatekjur á þessum markaði, kannski síður vegna einhverrar innri ástríðu um að efla fjölmiðla eða auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði eða vegna þess að þeim lægi eitthvað á hjarta.

Mér sýnist á öllu að ég hafi haft á réttu að standa þegar greinargerðin með frumvarpinu er skoðuð grannt. Þó að þetta sjónarmið hafi ef til vill stjórnað þeim fjársterku aðilum sem hafa haft bolmagn til þess að fara inn á þennan markað með útvarpsstöðvar eða sjónvarpsstöðvar og dagblöð, þá er alls ekki þar með sagt að ekki hafi valist gott fólk og gagnmerkt fjölmiðlafólk til starfa á einkareknum stöðvum. Það er kannski það sem við helst höfum grætt á þessari samkeppni, að við höfum fengið fleiri hæfa fjölmiðlamenn til starfa og það hefur verið blómstrandi atvinnuvegur að reka fjölmiðla. Við eigum orðið mjög öfluga sveit fjölmiðlafólks sem er alveg lífsnauðsynlegt að fái möguleika á að blómstra áfram í umhverfi sem er hliðhollt fjölmiðlum, umhverfi sem hefur rætur í menningu okkar og umhverfi sem heimilar fjölmiðlafólki eða gefur því frelsi til að fara djúpt ofan í saumana á málum og bæta umfjöllun um þjóðmál, bæta fréttir og bæta almennt fjölmiðla á Íslandi. Ég vona sannarlega að þetta frumvarp eigi eftir að verða til þess.