133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[14:52]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins um það sem þingmaðurinn sagði um Ríkisútvarpið, sem ekki gafst mikið tóm til að koma inn á í ræðu minni. Ég vil vekja athygli á sameiginlegri bókun sem við fluttum í nefndinni, ég ásamt Kolbrúnu Halldórsdóttur og Magnúsi Þór Hafsteinssyni, þar sem við lögðum einmitt mikla áherslu á mikilvægi þess að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og að við gerðum ákveðinn fyrirvara um það í nefndinni að ásættanleg niðurstaða næðist um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins, en það er nú kannski ekki alveg í sjónmáli að sú sé raunin. Það er sem sagt sameiginleg áhersla hjá okkur á Ríkisútvarpið og ég get fyllilega tekið undir að það er gríðarlega mikilvægt að eiga öflugt ríkisútvarp sem á að tryggja ákveðna fjölbreytni, þarf ekki að vera ofurselt markaði og getur staðið undir öflugu menningarhlutverki í samfélaginu. Mikilvægt er fyrir aðrar stöðvar að það sé öflugt ríkisútvarp, rétt eins og það er mikilvægt fyrir hina frjálsu leikhópa að eiga öflugar stofnanir á sviði leiklistar, þjóðleikhús og borgarleikhús, það er mikilvægt fyrir tónlistina í landinu að eiga sinfóníuhljómsveit vegna þess að þessar stofnanir ala upp nýtt fólk, þær gefa viðmiðanir, þær halda uppi svona ákveðnum „standard“ getum við sagt á þessum sviðum.

Ég tel hins vegar að mikilvægt sé að auka þetta menningarlega hlutverk og við getum gert kröfu til Ríkisútvarpsins. En við getum líka gert kröfu til hinna svokölluðu frjálsu fjölmiðla ef við gefum þeim t.d. betri aðgang að tekjustofnum eins og auglýsingum en værum ekki með Ríkisútvarpið með sama hætti og aðra fjölmiðla á auglýsingamarkaðnum. Eins með styrkjum til framleiðslu á innlendu leiknu efni eða til heimildamyndagerðar. Það er hægt að stýra þessu að vissu leyti í gegnum ýmsa slíka miðla, í gegnum auglýsingatekjur, í gegnum styrki og í gegnum Ríkisútvarpið. (Forseti hringir.) Þau tæki eigum við að nýta.