133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[14:56]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég nefndi áðan nokkra hvata sem hægt væri að nota til að efla innlenda dagskrárgerð hjá öðrum fjölmiðlum en Ríkisútvarpinu og ég held að það geti verið mikilvægt að reyna slíkt. Þar vil ég sérstaklega nefna einmitt líka auglýsingatekjurnar vegna þess að sá er jú munurinn á Ríkisútvarpinu og BBC, sem hér var nefnt, að BBC er ekki á auglýsingamarkaði. Það hefur ekki bæði aðgang að opinberu fé eða sérstökum mörkuðum tekjustofnum í gegnum hið opinbera og síðan óheftan aðgang að auglýsingamarkaðnum eins og Ríkisútvarpið okkar hefur, sem auðvitað sneiðir svolítið að hinum sem eru að berjast um bitana á þeim markaði, við skulum alveg horfast í augu við að það sneiðir svolítið að þeim. Ég tel því að ef við höfum þetta með öðrum hætti gætum við jafnhliða gert meiri kröfur til þeirra fjölmiðla sem eru að keppa á þessum fjölmiðlamarkaði.