133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[14:59]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Loksins er runnin upp sú stund að við ræðum við 1. umr. um frumvarp til laga um svokallað fjölmiðlafrumvarp sem hefur verið afskaplega áberandi frá upphafi þessa kjörtímabils. Það má kannski segja að kjörtímabilið hafi hafist á þessu máli og mér sýnist að kjörtímabilið ætli einnig að enda á sama máli. Í sjálfu sér er ekki nema gott eitt um það að segja.

Við í Frjálslynda flokknum fögnum því að frumvarpið skuli loks komið fram. Þetta hefur verið löng og erfið fæðing. Þetta hófst í raun haustið 2003, í nóvember fyrir þremur árum þegar lögð var fram þingsályktunartillaga þingmanna fjögurra flokka, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins þar sem sagði, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi.“

Samfylkingin var ekki með á þessu máli. Hún kom um svipað leyti fram með aðra þingsályktunartillögu sem gekk út á að réttlætis væri gætt í málflutningi fjölmiðla, það ríkti gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Virðulegi forseti. Þegar á þeim tímapunkti, þ.e. í nóvember 2003, kom fram mjög skýr vilji á Alþingi hjá öllum flokkum um að setja þyrfti einhvers konar ramma um starfsumhverfi íslenskra fjölmiðla. Við vitum síðan öll hvað gerðist. Fram kom frumvarp af hálfu ríkisstjórnarinnar eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það olli gríðarlega miklum deilum sem ég ætla ekki að rekja hér og nú en það er löng og erfið saga sem ég vona að allir hafi lært af, ekki bara stjórnarandstaðan heldur fyrst og fremst stjórnarmeirihlutinn.

Þessu lyktaði með því að það var skipuð nefnd um málið, eftir að ríkisstjórnin felldi úr gildi sitt eigið frumvarp sem var náttúrlega sögulegur og einstæður viðburður eftir að forseti Íslands hafði neitað að undirrita hin svokölluðu fjölmiðlalög. Í þeirri fjölmiðlanefnd sat ég ásamt fulltrúum allra flokka. Hún var, ef ég man rétt, skipuð í nóvember árið 2004, þ.e. fyrir tveimur árum. Hún skilaði af sér í byrjun apríl árið 2005 og nú í nóvember árið 2006, þremur árum eftir að sagan hófst liggur frumvarp fyrir Alþingi. Ég hef átt hlutdeild í allri þessari vinnu frá upphafi, þ.e. í fjölmiðlanefndinni en einnig átt hlutdeild að því sem fulltrúi Frjálslynda flokksins að smíða þetta frumvarp, ef svo má segja, upp úr fjölmiðlaskýrslunni sem liggur fyrir. Þykk bók, 200 síður.

Við tókum þátt í þessu, fulltrúar allra flokka á fundum með sérfræðingum, lögfræðingum, lögspekingum og embættismönnum í menntamálaráðuneytinu eftir áramót í fyrra þannig að ég get alveg viðurkennt að ég hef átt verulegan hlut að því máli sem hér liggur til umfjöllunar á Alþingi. Ég væri ekki alveg samkvæmur sjálfum mér ef ég færi að setja á ræðu þar sem ég tætti þetta mál í mig og færi að gagnrýna það. Ég vil hins vegar lýsa því yfir að ég er opinn fyrir því að í því þurfi kannski eitthvað að lagfæra enn frekar. Ég á sæti í menntamálanefnd og ég hlakka til að takast á við að fara yfir þetta frumvarp í nefndinni og kalla til fundar við okkur þá sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli, fá inn umsagnir og reyna eftir bestu getu að sníða af þá agnúa sem hugsanlega kunna að vera á þessari lagasmíð. Hér er í raun um að ræða breytingu á þremur lagabálkum, útvarpslögum, lögum um prentrétt og samkeppnislögum.

Maður hlýtur að velta fyrir sér, þegar upp er staðið, til hvers öll þessi orrusta var háð? Það er augljóst, miðað við hversu vel þessi vinna gekk þegar farið var af stað í hana með fulltrúum allra flokka, þ.e. bæði í fjölmiðlanefndinni og síðan þeim vinnuhóp sem vann að gerð þessa frumvarps, hve vel þessi vinna gekk. Það er umhugsunarefni til hvers refirnir voru skornir upphaflega. Hvers vegna í ósköpunum þurftum við að eyða öllum þeim tíma og fjármunum í þær hatrömmu deilur sem stóðu um þetta mál? Hefði verið farið í málið af fullri friðsemd og í fullu samráði allra flokka þá værum við sennilega fyrir löngu búin að samþykkja frumvarp til laga um breytingu á þessum lagabálkum, útvarpslögum, lögum um prentrétt og samkeppnislögum. Það kom þægilega á óvart að þegar fólk settist niður og fór að tala saman í bróðerni þá var þetta alls ekki ókleifur múr að komast yfir.

En enn og aftur, virðulegi forseti. Ég hygg að okkar bíði mjög spennandi og skemmtilegt verkefni í menntamálanefnd, að fara yfir þetta mál. Ég vona að okkur takist að ljúka þessu fyrir þinglok, að þetta verði samþykkt sem lög frá hinu háa Alþingi áður en þingi verður slitið í vor og gengið verður til kosninga.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að sinni. Ég vil að það komi fram að ég er tímabundinn og þarf að vera kominn á annan stað. Ég þarf að vera viðstaddur opnun á málverkasýningu uppi á Akranesi kl. 4 sem formaður menningar- og safnanefndar Akraness og verð því miður að hlaupa. Ég hefði gjarnan viljað fá að tala lengur en ræða mín um þetta mál bíður 2. umr.