133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði í ræðu minni að einsleitnin væri hættulega mikil í íslenskum fjölmiðlum, ég var reyndar sérstaklega að tala um sjónvarpið. Hæstv. menntamálaráðherra tekur það fram í ræðu sinni að hún sé ósammála mér að því leytinu til að hún telur að einkastöðvarnar hafi staðið sig afar vel og að fjölgun útsendra stunda hafi í raun og veru aukið fjölbreytni efnisins.

Það er ekki það sem kemur í ljós í línuritum og úttekt sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu. Það sem ég held að við þurfum að hafa í huga þegar stundafjöldinn er skoðaður, 4.500 útsendar stundir í sjónvarpi á Íslandi en voru 700 fyrir samkeppnina, er hvað fólk er að horfa á. Það er ekki að horfa á vandað íslenskt menningarefni eða vandaða íslenska fréttaskýringaþætti, það er ekki að horfa á efni frá Norðurlöndunum eða efni frá öðrum málasvæðum en enskum málasvæðum. Langmest kemur frá Ameríku og eitthvað frá Bretlandi. Þannig að fjölbreytni í sjónvarpsdagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva er því miður ekki til staðar. Við getum svo velt því fyrir okkur hvort einhver reglusetning í þeim efnum væri góð eða hvort hún gæti skilað árangri.

Mín sjónarmið eru þau að öflugt, sterkt ríkisútvarp sem hefur sæmileg fjárráð, nægilega góð fjárráð til þess að stunda eða sinna því hlutverki sem það á að gera samkvæmt lögum, er að mínu mati lausnin í þessum efnum. Þess vegna höfum við, Vinstri hreyfingin – grænt framboð talað fyrir því að fyrst og síðast þurfi að tryggja stöðu þess. Ef Ríkisútvarpið gengur á undan með góðu fordæmi í þessu tilliti og getur boðið upp á öfluga innlenda framleiðslu og fjölbreytt erlent efni þá komi hinar stöðvarnar til með að njóta þess (Forseti hringir.) og komi í kjölfarið.