133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra segir, að samningurinn sem gerður hefur verið við Ríkisútvarpið gefur okkur svo sem vonir um að þar geti eitthvað breyst. En á sama tíma vitum við að fjármunirnir sem stofnunin kemur til með að hafa úr að spila breytast ekki. Tekjumöguleikar stofnunarinnar breytast ekki. Það verður ekki hægt að efla og auka innlenda dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpi, sjónvarpi öðruvísi en að til komi auknir fjármunir eða að einhverjir þættir í starfsemi stofnunarinnar sem eru til staðar í dag verði skornir niður.

Við höfum ekki fengið svör við því frá hæstv. menntamálaráðherra hvaða deildir eigi að skera burtu af Ríkisútvarpinu í því augnamiði að auka möguleika á framleiðslu innlends sjónvarpsefnis.

En við erum ekki að tala um Ríkisútvarpið kannski í smáatriðum hér. Málið er bara það að málin eru núna til skoðunar í menntamálanefnd. Mér finnst það auðvitað enn, og ítreka það, mjög miður að þetta skyldi ekki hafa getað fylgst að sem ein samloka í umsagnarferli til umsagnaraðila úti í samfélaginu. Mér finnst það draga úr gildi þess að við erum þó að tala um málin tvö á sama tíma. Ég kem til með að beita mér engu að síður fyrir því í menntamálanefnd að hlutirnir verði skoðaðir heildstætt og málin tvö skoðuð heildstætt þannig að við áttum okkur á því hvers konar heildarumhverfi fjölmiðla við fáum út úr þessum tveimur mikilvægu málum sem eru að fara í gegnum þingið núna.