133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enn og aftur vil ég benda á að það gafst tækifæri til að ræða þessi mál öll saman hér um daginn og því var hafnað. Gott og vel.

Ég náði ekki að svara einu atriði um það sem tengist einsleitni á móti fjölbreytni. Hv. þingmaður talaði um að það væri of mikil einsleitni og hefur rætt það ítrekað að of mikil einsleitni væri í íslenskum fjölmiðlum.

Hluti þess frumvarps sem við erum að ræða nú, fjölmiðlafrumvarpsins, kemur í rauninni til með að stuðla að því að meiri möguleikar verði á að auka fjölbreytni í íslenskum fjölmiðlum. Af hverju segi ég það? Jú, það er með tilkomu flutningsréttarins. Flutningsrétturinn getur mjög líklega stuðlað að því að við fáum þessa fjölbreytni sem hv. þingmaður var að kalla eftir og er í rauninni liður í því sem ég tel vera mikilvægan þátt í þessu frumvarpi og mér heyrist allir hafa stutt fram til þessa.