133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:54]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitt er að vinna mál samhliða og ræða mál samhliða og annað að gera það í einni umræðu hér í þinginu. Það er ekki sami hluturinn.

Í nefndinni og í bókuninni sem við í stjórnarandstöðunni lögðum fram í fjölmiðlanefndinni kemur þetta sjónarmið einmitt skýrt fram, að við teljum að þetta eigi að vinnast samhliða. Við sögðum þar, virðulegur forseti, að við værum þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem tæki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt er einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fer fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf, þ.e. vinnan eigi sér stað samhliða svo að menn hafi heildarsýnina. Þá hefði náttúrlega þurft að skoða allan auglýsingamarkaðinn í heild með tilliti til þess hvort og þá hvernig ætti að skipta honum á milli einkareknu miðlanna og ríkisfjölmiðlanna. Þá hefði þurft að skoða hlutafélagaformið heildstætt miðað við Ríkisútvarpið annars vegar og einkareknu fjölmiðlana hins vegar. Fleira mætti nefna í því sambandi.

Eitt er að gera hlutina samhliða og annað að gera það í einum pakka í þingsalnum í 1. umr. um þetta mikla mál sem fjölmiðlafrumvarpið óneitanlega er eftir alla þá vinnu sem á undan er gengin.

En ég ítreka það, virðulegur forseti, að ég er sannfærð um að hægt hefði verið að ná miklu betri sátt og vinna málið hraðar í gegnum þingið um Ríkisútvarpið ef staðið hefði verið öðruvísi að þeim málum og ef ríkisstjórnin hefði tekið stjórnarandstöðuna með inn í vinnuna eins og gert var í þessu.