133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

útvarpslög, prentréttur og samkeppnislög.

58. mál
[15:56]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég er algerlega ósammála hv. þingmanni. Nú er maður búinn að vera nokkuð lengi, þó ekki mjög lengi en þó það lengi á þingi, til að sjá hvenær menn setja málin upp í búning til að tefja þau, koma þeim í þann farveg sem hægt er að segja að þau nái sjaldan eða aldrei í gegn.

Ljóst var frá upphafi, og ef maður hefur lesið það sem hv. þingmenn hafa sagt, bæði í stjórnarliðinu og stjórnarandstöðu, að himinn og haf er á milli sjónarmiða þeirra sem hafa komið að því að tjá sig um Ríkisútvarpið og almennt í gegnum þá umræðu. Það var ekki bara árið 2004 heldur líka árið 2006. Það er alveg ljóst eftir 1. umr. um Ríkisútvarpið að þrjú sjónarmið greindust bersýnilega við 1. umr. hjá stjórnarandstöðunni. Það er allt í lagi að fara yfir það.

Frjálslyndi flokkurinn sagði: Við erum reiðubúnir að styðja þetta ohf. ef nægilega miklir peningar fylgja. Sem sagt, ohf. er í lagi. Samfylkingin sagði: Við viljum sjálfseignarstofnun. Síðan segja Vinstri grænir: Við viljum ekki breyta neinu. Við viljum bara hafa þetta sem ríkisstofnun. Svoleiðis er það. Ekki breyta neinu. (Gripið fram í.)

Það eru því mjög mismunandi sjónarmið, ekki bara á milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur innan stjórnarandstöðunnar sjálfrar varðandi Ríkisútvarpið. Það hefði kannski verið fyrsta vers áður en við hefðum farið í þá umræðu alla.

Hæstv. forseti. Eins og ég gat um áðan fer þetta mál til hv. menntamálanefndar þar sem nefndarmönnum mun gefast tækifæri á að hlusta á þau sjónarmið sem hagsmunaaðilar hafa fram að færa og fara í þá miklu vinnu sem fram undan er, m.a. til að meta hvaða breytingar hafa átt sér stað á fjölmiðlamarkaðnum á undanförnum mánuðum, eða frá því að nefndin skilaði af sér á síðastliðnu ári.