133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

almenn hegningarlög og skaðabótalög.

21. mál
[16:24]
Hlusta

Eiríkur Jónsson (Sf):

Herra forseti. Ég skil að sumu leyti vel tildrög þessa lagafrumvarps og þá hugsun sem að baki liggur enda skal fúslega tekið undir það að miskabætur vegna meingerða gegn æru og persónu hafa í sumum tilvikum verið allt of lágar. Ég tek undir það líka að það er sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi fjalli með einhverjum hætti um meiðyrðalöggjöfina. Það tel ég mjög af hinu góða. Því æruverndin er vissulega mikilvæg. En á hitt ber að líta, að andspænis æruverndinni stendur hið stjórnarskrárvarða tjáningarfrelsi sem löngum og réttilega hefur verið talið meðal hinna dýrmætustu mannréttinda. Það er ekkert hægt að fela það að með þessu frumvarpi er verið að takmarka tjáningu meira en nú er. Hér er fullyrt að ekki sé verið að takmarka tjáningarfrelsi. En það er nú bara einu sinni þannig að undanfarandi og eftirfarandi takmarkanir á tjáningarfrelsinu eru verndaðar, tjáningarfrelsið er sem sagt verndað í báðum tilvikum þannig að dæmdar bætur og dæmd refsing eftir að tjáningin fer fram verður líka að uppfylla skilyrði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta ættu frændur okkar Norðmenn vel að þekkja því þeir hafa einmitt ítrekað verið fundnir brotlegir gegn mannréttindasáttmálanum fyrir bætur samkvæmt samsvarandi grein í norskum skaðabótalögum og hér er í 26. gr. skaðabótalaga. Tjáningarfrelsið nýtur því verndar bæði fyrir undanfarandi takmörkunum og eftirfarandi takmörkunum.

Þrátt fyrir að ég skilji, eins og ég segi, mjög vel að hv. flutningsmenn frumvarpsins finni hjá sér þörf til að bregðast með einhverjum hætti við þessum lágu miskabótum þá tel ég hér of langt seilst með ákvæðum frumvarpsins um skaðabótalög og á hinn veginn tel ég allt of langt seilst með ákvæðunum um hegningarlög.

Ég tel raunar að ýmis atriði í frumvarpinu kunni að standa tæpt gagnvart nútímaviðhorfum og ákvæðum um tjáningarfrelsi. Það er nauðsynlegt að rökstyðja þetta enda tekur frumvarpið á ýmsum atriðum sem varða með margvíslegum hætti grundvallarmannréttindi borgaranna. Hér er vel að merkja ekki um einfalt og lítið mál að ræða. Hér er um mál að ræða sem varðar skil 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar, grundvallarmannréttindi borgaranna.

Frumvarpið gerir í fyrsta lagi ráð fyrir því að gerð verði breyting á helstu meginákvæðum almennra hegningarlaga um ærumeiðingar, sem eru 234. og 235. gr., og þau skrúfuð upp, ef svo má að orði komast. Það á að herða þessi ákvæði. Þessi ákvæði hegningarlaga hafa staðið nánast óbreytt frá árinu 1940, frá því fyrir lýðveldisstofnunina. Það þarf náttúrlega ekki að hafa mörg orð um það að hér hafa orðið alveg stórkostlegar þjóðfélagsbreytingar og viðhorfsbreytingar til mannréttinda. Þar á meðal höfum við gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar á sviði mannréttinda og við höfum endurskoðað stjórnarskrá okkar margoft og raunar sett hana. Því þetta var sett fyrir lýðveldisstofnunina. Þar á meðal hefur alltaf verið aukin vernd tjáningarfrelsisins.

Ákvæðin sem hér er verið að leggja til að verði endurstaðfest af hinu háa Alþingi á árinu 2006 eru að mínu viti úrelt að mjög mörgu leyti. Ég tel að þau samrýmist tæplega nútímaviðhorfum til tjáningarfrelsis. Nú skulu nokkur dæmi nefnd.

Í fyrsta lagi mæla þessi ákvæði berum orðum fyrir um að það megi fangelsa fólk fyrir tjáningu sína. Þannig segir í 2. gr. frumvarpsins varðandi 234. gr. laganna að fyrir það eitt að móðga samborgara sinn megi kasta honum í tukthúsið í eitt ár. Þetta er nú það sem stendur berum orðum í ákvæðinu. Það er verið að leggja til að þetta verði endurstaðfest. Ég þarf auðvitað ekki að hafa mörg orð um það að þetta er náttúrlega í engu samræmi við nútímaviðhorf. Af hverju í ósköpunum á þá Alþingi að fara að setja þetta á árinu 2006? Enda hafa alþjóðlegar mannréttindastofnanir ítrekað barist gegn fangelsi, að sjálfsögðu, sem úrræði við ærumeiðingum. Það verður ekki séð að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi nokkru sinni staðfest fangelsisvist vegna ærumeiðinga. Þeir hafa eingöngu gert það í tilviki hatursáróðurs á þjóðernisgrundvelli eða þá hreinlega þegar um hvatningu til ofbeldis er að ræða, en ekki í tilviki venjulegra ærumeiðinga. Þetta er því löngu úrelt og ég hvet Alþingi til að fara aðra leið en að endurstaðfesta þessi úreltu ákvæði.

Í öðru lagi mæla þessi ákvæði fyrir um að útbreiðsla ummæla sé sjálfstætt brot. Þegar breidd eru út ummæli þá er það sjálfstætt brot og jafnrefsivert og frummeiðingin. Þetta er heldur ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu sem Íslendingar ættu að þekkja mjög vel frá því að dómur í máli Þorgeirs Þorgeirsonar féll þar Íslendingum til skammar, enda var mikil áhersla lögð á það þar að Þorgeir hefði ekki verið að fullyrða sjálfur um ofbeldi af hálfu lögreglu heldur var hann að hafa eftir það sem aðrir höfðu sagt. Þetta var grundvallaratriði í úrlausn dómsins. Þetta má sjá í mörgum öðrum dómum. Í mörgum nýlegum dómum hefur Mannréttindadómstóllinn verið mjög skýr um þetta. Það getur verið í lagi að dreifa ummælum í ákveðnum tilvikum. Svona er bara framkvæmd Mannréttindadómstólsins og þessi ákvæði eins og þau eru núna og verið er að leggja til að verði endurstaðfest eru í algeru ósamræmi við þetta og ég tel að það fáist trauðla staðist Mannréttindasáttmála Evrópu.

Eins og margir fræðimenn hafa bent á þá stendur mjög tæpt það úrræði, að einfaldar móðganir geti varðað refsingu. Ýmsir fræðimenn hafa bent á þetta og ég tel að þeir segi það réttilega að það standi mjög tæpt gagnvart mannréttindaviðhorfum. Burt séð frá einstaka veilum sem maður sér þá ber að nefna þann aukna þrýsting sem er í alþjóðasamfélaginu á að ríkið afnemi refsingu sem úrræði við ærumeiðingum. Það hefur sífellt verið að myndast aukinn þrýstingur á þetta. Ýmsar alþjóðastofnanir og samtök hafa beitt sér í þá veru. Fjölmargir málsvarar mikilsverðra stofnana, eins og fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, hafa ályktað um þetta. Sífellt fleiri ríki hverfa frá refsingu vegna ærumeiðinga. Hér er lagt til að Íslendingar gangi í hina áttina, þvert á það sem mörg austantjaldsríki og önnur sem nýlega hafa fengið lýðræði gera.

Ég vísa í þessu sambandi til þingsályktunartillögu minnar sem útbýtt var fyrr í vikunni á þskj. 650, sem ég vonast til að geta mælt fyrir á morgun. Þar er gert ráð fyrir því að við hverfum frá refsingum vegna ærumeiðinga og flytjum það yfir í úrræði einkaréttarins eins og alþjóðastofnanir hafa gert kröfu um.

Þrátt fyrir góðan vilja frumvarpshöfunda — ég get verið sammála þeim um að bætur hafi í ýmsum tilvikum verið of lágar — tel ég það tímaskekkju að hið háa Alþingi fari á árinu 2006 að endurstaðfesta ákvæði sem með berum orðum mæla fyrir um að kasta megi fólki í tukthús fyrir að móðga hvert annað. Slík úrræði tilheyra einfaldlega annarri öld en þeirri 21.

Ég vil nefna tvennt til viðbótar um hegningarlagaþátt frumvarpsins. Ég set spurningarmerki við það hvort hin nýja viðbót um fjölskyldu brotaþola fái fyllilega staðist meginregluna um skýrleika refsiheimilda í lögum, sem má leiða af 69. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt ákvæðinu getur það varðað fangelsi í allt að ár að valda öðrum manni eða fjölskyldu hans óþarfa sársauka eða vanvirðu. Það er sem sagt í lagi að valda sársauka eða einhverjum sársauka en um leið og sársaukinn verður óþarfur er í lagi að kasta mönnum í fangelsi í allt að eitt ár. Spurningin er vitanlega: Á hvaða stigi verður sársaukinn óþarfur og hvernig á dómari nákvæmlega að skilja þetta og beita þessu? Ég ætla ekki að fullyrða að þetta sé algjörlega ófullnægjandi að þessu leyti en ég set a.m.k. spurningarmerki við þetta. Ég tel rétt að við nánari meðferð frumvarpsins verði reynt að skýra þetta aðeins nánar svo að dómarinn hafi eitthvað á að byggja.

Hið sama gildir um viðbótina við 242. gr. sem er gert ráð fyrir í 4. gr. frumvarpsins. Ég set mjög stórt spurningarmerki við það að nokkur þörf sé á að lögfesta þessa viðbót. Svipuð regla og raunar að sumu leyti rýmri er þegar í 3. mgr. 25. gr. hegningarlaga. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sé sá dáinn, sem misgert var við, eða verknaður, sem beinist að dánum manni, er refsiverður, hafa eiginmaður eða eiginkona hins látna, foreldrar, börn, kjörbörn, barnabörn og systkin rétt til að höfða mál eða bera fram kröfu um opinbera málshöfðun.“

Þetta er þegar til staðar í hegningarlögum og er því í raun um algera tvítekningu að ræða. Ég tel rétt að kalla eftir nánari skýringum af hálfu hv. flutningsmanns um hvernig þetta atriði er hugsað. Af hverju þessi tvítekning? Í rauninni er þegar til staðar slíkur málshöfðunarréttur og það meira að segja rýmri.

Þá vík ég næst að 5. gr. frumvarpsins sem leggur til viðbót við 26. gr. skaðabótalaga. Flest þau sjónarmið eru í gildi þegar litið er til dómaframkvæmdar. Vissulega hefur verið horft til þeirra við dómaframkvæmd og ég tel það mjög til bóta og frekari styrkingar á þessum sjónarmiðum að lögfesta þau með skýrum hætti. Ég er líka efnislega sammála flestum þeim skilyrðum utan eins mjög mikilvægs atriðis sem ég verð að gjalda mikinn varhuga við. Það atriði er í 1. málslið 5. gr. frumvarpsins en þar segir:

„Við ákvörðun um fjárhæð bóta vegna meingerðar gegn æru eða persónu annars manns eða fjölskyldu hans skal lagt til grundvallar að bótafjárhæð hafi verulega fjárhagslega þýðingu fyrir þann sem dæmdur er til greiðslu þeirra.“

Það er berum orðum tekið fram í greinargerðinni með frumvarpinu og var svo sem rakið rétt áðan að hugsunin sé sú að um sektarbætur verði að ræða, þ.e. sem kallað er upp á engilsaxnesku „punitive damages“. Þótt ég geti fúslega fallist á að miskabætur í meiðyrðamálum hafi verið of lágar tel ég að með þessari tillögu sé of langt gengið. Í íslenskum skaðabótarétti gildir sú ótvíræða meginregla að dæmdar bætur skuli samsvara því tjóni sem valdið er með skaðabótaskyldri háttsemi, jafnt miskabætur sem skaðabætur. Það er því markmið bótanna að bæta tjónið en ekki að refsa. Þetta er ótvíræð grundvallarregla.

Hér er lagt til að á einu tilteknu sviði skuli bótaréttur rýmri og sektarbætur teknar upp. Hvaða svið er valið til slíks? Það er sjálft svið tjáningarinnar, sem þó nýtur sérstakrar verndar stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra mannréttindasáttmála. Með öðrum orðum, maður sem verður fyrir fólskulegri og tilefnislausri líkamsárás, á einungis rétt á venjulegum miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Kona sem verður fyrir nauðgun á bara rétt á venjulegum miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. En þegar brotið felst í tjáningu, þegar við stöndum andspænis sjálfu stjórnarskrárvernduðu tjáningarfrelsinu og einstaklingur fremur meingerð gegn æru þá skal tjónvaldur dæmdur til að greiða sérstakar og rýmri sektarbætur. Ég segi nú bara að ef ætlunin er að innleiða sektarbætur að einhverju marki í íslenskum rétti þá var vitlaust svið valið.

Er það virkilega ætlun Alþingis að á þessu sviði, þar sem við stöndum andspænis sjálfu tjáningarfrelsinu, skuli þeir sem meingerð fremja bera ríkari miskabótaskyldu en þeir sem fremja líkamsárásir og kynferðisbrot? Ég trúi því hreinlega ekki að allir flutningsmenn frumvarpsins hafi hugsað þetta til enda þótt ég skilji enn og aftur hvatann, eins og ég hef sagt, þá er hér of langt gengið.

Vegna tilvísunar í meiðyrðalöggjöf í Bretlandi skal tekið fram að Bretar virðast á sífelldum flótta undan þessu réttarfyrirbrigði enda hafa þeir ítrekað fengið áfellisdóm hjá Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Skemmst er að minnast stórs máls frá árinu 2005 þar sem dæmdar höfðu verið venjulegar bætur miðað við enska réttinn. Þær voru taldar of háar og staðfest brot á 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Svipað verður sagt um mörg önnur ríki sem hafa búið við þetta réttarfyrirbrigði eins og Bandaríkin. Menn eru á flótta undan þessu fyrirbæri.

Einnig ber að nefna að reglan eins og hún er sett fram gerir allt meðalhóf við ákvörðun bóta miklu erfiðara. Það segir bara að annaðhvort eigi að dæma bætur eða þá bætur sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu. Það leiðir af orðalagi ákvæðanna að þegar dómarinn ákveður bætur skuli það hafa verulega fjárhagslega þýðingu. Þetta gerir allt meðalhóf mjög erfitt, sem skiptir grundvallarmáli við skýringu á mannréttindasáttmálanum og stjórnarskránni. Það má vel vera að í ákveðnum tilvikum séu lágar bætur hæfilegar. En í þessum tilvikum leiðir af beinu orðalagi frumvarpstextans að það komi ekki til greina, það eru bara annars vegar engar bætur eða þá bætur sem hafa verulega fjárhagslega þýðingu. Ég held að þetta gæti í ákveðnum tilvikum leitt til engra bóta af því að dómari veigri sér frekar við að dæma áfelli þegar hann þarf að dæma verulegar bætur eða ekki neitt.

Eins og ég hef þegar rakið get ég fallist á að miskabætur hafi verið lágar í hinum alvarlegu tilvikum og þær megi hækka. Sem betur fer virðist þróunin hafa verið í þá átt samanber nýlega dóma Héraðsdóms Reykjavíkur á þessu ári, einkum dóm sem féll 16. júní 2006 þar sem dæmdar voru 1,5 millj. kr. í bætur vegna ólögmætrar meingerðar gegn æru í dagblaði. Það er að mínu mati alls ekki tilefni til svo viðurhlutamikillar aðgerðar að Alþingi fari að taka upp sektarbætur í meiðyrðamálum.

Það sem að mínu mati má gera og er hugsanlega mikilvægast í þá átt að skerpa ábyrgð vegna meiðyrða er að breyta ábyrgðarreglum prentlaga þannig að bótaábyrgð nái skýrlega til útgáfufyrirtækjanna líka. Útgefandinn ber ekki ríka ábyrgð eins og ástandið er í dag, eins og fullyrt var hér áðan. Það er ekki þannig. Það leiðir af ákvæðum prentlaga eins og þau eru núna, að ef höfundur hefur nafngreint sig, t.d. blaðamaður, þá ber hann sjálfur persónulega ábyrgð en ekki útgáfan. Sé hann hins vegar ekki nafngreindur ber ritstjórinn persónulega ábyrgð en ekki útgefandinn. Þetta byggist á dómvenju sem m.a. birtist í dómi sem ég nefndi, frá 16. júní 2006, og fleiri dómum.

Staðan er þannig núna að útgáfan er í raun alltaf stikkfrí og ábyrgðin lendir persónulega á blaðamanninum eða á ritstjóranum. Þetta tel ég ósanngjarnt. Ég held að það megi telja líklegt að þetta haldi fjárhæð bóta að einhverju leyti niðri af því að það er ekki ólíklegt að dómarar veigri sér fremur við að dæma einstakling persónulega til greiðslu frekar hárra miskabóta en útgáfuna.

Þetta tel ég stærsta meinbuginn á meiðyrðamálum. Ég hefði talið eðlilegast að grípa þar inn í ef grípa ætti til aðgerða og færa ábyrgðina með skýrari hætti yfir á útgáfuna. Því miður tekur frumvarpið ekki á því heldur á öðrum atriðum. Það gengur, eins og ég hef rakið, allt of langt í þeim efnum. Ég hvet til að þetta atriði sem ég var að nefna síðast verði sérstaklega athugað í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar enda herðir frumvarpið, eins og það er, bara ábyrgð einstaklinga en ekki útgáfunnar. Það er ranglega fullyrt, bæði í greinargerð og í ræðu hér áðan, að útgáfurnar muni hugsa sig tvisvar um. Þær sleppa eins og ástandið er núna.

Að lokum ítreka ég að ég skil hvatann að málinu og fagna þessari umræðu. Ég skil alveg þá reiði sem upp hefur komið á köflum í þjóðfélaginu vegna blaðaumfjöllunar hér á landi. Það er réttlát reiði. Fjölmiðlar hafa í ákveðnum tilvikum gengið allt of langt. Við verðum hins vegar að sjá skóginn fyrir trjánum og þrátt fyrir góðan vilja gengur þetta frumvarp allt of langt og fer að ýmsu leyti í bága við nútímaviðhorf til mannréttinda og ákvæði um tjáningarfrelsi. Ég verð því að leggjast eindregið gegn frumvarpinu eins og það er og legg áherslu á að þingmenn skoði það vel og geri sér grein fyrir mikilvægi málsins. Hér er ekki um einfalt og lítið mál að ræða eins og ráða mætti af fjarveru þingmanna í þingsal. Hér er um ákaflega mikilvægt mál að ræða sem snertir grundvallarmannréttindi borgaranna. Þetta er ekki lítið, saklaust mál sem sjálfsagt er að fari í gegnum þingið. Þetta þarf að ræða vel og skoða sérstaklega með tilliti til alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga.