133. löggjafarþing — 19. fundur,  2. nóv. 2006.

almenn hegningarlög og skaðabótalög.

21. mál
[16:54]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að þakka fyrir þá fróðlegu umræðu sem farið hefur fram í þingsalnum um breytingu á almennum hegningarlögum og skaðabótalögum og hefur ekki síst fjallað um tjáningarfrelsið og mikilvægi þess að við varðveitum það og setjum ekkert vanhugsað í lög sem vegið getur að þessum grundvallarmannréttindum okkar. Ég hef orðið margs vísari eftir þessa umræðu og hefðu fleiri þingmenn mátt sitja hér og hlusta því að þingmannabekkurinn er orðinn heldur fáliðaður hér, en það breytir ekki því að málið er alveg þess vert að ræða það.

Mér finnst, eftir að hafa hlustað á umræðuna, að það sé ekki sjálfgefið að þetta mál renni eins lipurt í gegnum þingið og allsherjarnefnd og hv. 1. flutningsmaður, þingmaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson, gerði ráð fyrir. Ég vil auðvitað þakka honum fyrir ágæta greinargerð um málið og hvernig hann leggur þetta upp og hvernig hann lítur á þetta mál. En ég vil ekki síður þakka hv. þingmanni Samfylkingarinnar, Eiríki Jónssyni, fyrir innlegg hans í umræðuna, því að það sem mér fannst svo athyglisvert og áhugavert við það sem hann hafði fram að færa var hvernig hann braut upp þá vanahugsun sem menn eru kannski allt of fastir í þegar kemur að því að skoða gildandi lög, hvort ýmis ákvæði sem í þeim eru eigi yfirleitt rétt á sér miðað við þær breytingar sem orðið hafa í samfélaginu. Þó svo að þau hafi lifað í okkar lagabókstaf með einhverjum hætti allt frá tíma Grágásar getur sá tími verið kominn að þau eigi ekki rétt á sér lengur. Mér fannst hann vekja ágætlega athygli á því að það væru auðvitað áhöld um hvort það ætti rétt á sér í íslenskri löggjöf í dag og hvort það ætti rétt á sér á Alþingi Íslendinga árið 2006 að við værum að endurstaðfesta í lögum ákvæði sem gerðu ráð fyrir því að menn gætu sætt fangelsi allt að einu ári fyrir það að móðga annan mann. Þannig eru lögin og ef þetta mál nær fram að ganga erum við að endurstaðfesta það. Og þótt ég geri ekki ráð fyrir því að flutningsmenn séu almennt að tala fyrir því að mönnum sé varpað í fangelsi og það sé það sem þeim gangi helst til, þá er það samt svo að þetta er í lögunum og þessi heimild er til staðar og það segir auðvitað sína sögu. Það segir sína sögu um það viðhorf sem lögin byggja á og spurning hvort ekki sé orðið tímabært að breyta lögunum til samræmis við nútímalegri viðhorf sem ættu að vera hér í þingsalnum meðal annars.

Tjáningarfrelsið er mjög mikilvægt og við megum ekki umgangast það af léttúð og þess vegna megum við ekki samþykkja neitt í þinginu sem við óttumst og teljum að vegi að þeim réttindum. Hv. þm. Eiríkur Jónsson vakti athygli á að þarna væri verið að taka inn bótafjárhæðir í þessum brotum, sem væru brot gegn æru manna, með allt öðrum hætti en gerðist með þá sem eru t.d. þolendur ofbeldisbrota eða kynferðisbrota. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði að þetta frumvarp fjallaði ekki um ofbeldisbrot eða kynferðisbrot og þess vegna væri ekki rétt að tala um það í þessu samhengi. En það er kannski mergurinn málsins, af hverju bera menn fyrst niður í ærumeiðingunum, í þeim málum, en ekki í þeim sem lúta að miklu alvarlegri brotum og brotum sem almennir borgarar verða frekar fyrir en ærumeiðingum? Ég hygg, öndvert við það sem þingmaðurinn hv. sagði hér áðan, Sigurður Kári Kristjánsson, að hér sé kannski ekki fyrst og fremst verið að taka upp hanskann fyrir hina almennu borgara vegna þess að hinir almennu borgarar verða ekkert mjög mikið fyrir ærumeiðingum og almennir borgarar reka ekki oft mál sín fyrir dómstólum vegna þess að þeir verði fyrir ærumeiðingum. Það er tiltölulega fátítt að slík mál séu rekin fyrir dómstólum, það eru einhver tiltekin, afmörkuð mál sem þangað rata. Ég held að ef við værum að huga að réttarstöðu hins almenna borgara og taka upp hanskann fyrir hann ættum við frekar að bera niður með þessar sektarbætur annars staðar en í ærumeiðingunum. Það segi ég af fullri virðingu fyrir því að auðvitað er ekkert okkar þeirrar skoðunar að menn eigi að komast upp með það að valda mönnum, einstaklingum og fjölskyldum þeirra skaða með ærumeiðingum. Það ber ekki að skilja það svo, heldur að þarna sé kannski ekki rétti staðurinn til þess að bera niður með sektarbætur og ef við viljum taka þær almennt upp eigi að skoða það heildstætt en ekki taka það afmarkað fyrir í ærumeiðingunum.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson leitaði ásjár hjá Morgunblaðinu og taldi það greinilega vera heilbrigðisvottorð fyrir sig og málstað sinn að Morgunblaðið hefði blessað hann í leiðaraskrifum sínum og Morgunblaðið hefði sagt að það væri ekki skerðing á tjáningarfrelsi þó að bætur væru hækkaðar. Ég lít ekki svo á að Morgunblaðið sé einhver æðsti dómstóll þegar kemur að slíkum hlutum og geti sagt þinginu til um hvað séu rétt lög og hvað ekki. Mér finnst þessi málflutningur, þessi röksemdafærsla sem kom fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, einhvern veginn vera eins og að hafa svolítil endaskipti á hlutunum, vegna þess að almennt tala menn um að refsingar hafi einhvers konar varnargildi, þ.e. að þyngd refsinga eigi að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á því að menn aðhafist eitthvað tiltekið. Ef refsingar eru þyngdar við ærumeiðingum getur það haft áhrif á hvað menn þora að segja, það virkar því auðvitað hvað inn á annað og er ekki hægt að líta alveg fram hjá því.

Mér fannst umræðan fróðleg og ég vona að málið fái ágæta umfjöllun í þingnefnd og þar verði skoðaðir allir þeir fletir á málinu sem hér hefur verið brugðið upp. Þeir eru fyllilega þess eðlis að það þarf virkilega að velta við steinum og skoða hvaða áhrif þetta geti almennt haft og hvort ekki væri nær að Alþingi færði sig meira til nútímahorfs og til þeirra viðhorfa sem gilda um tjáningarfrelsið og hvernig það skuli best varið í stað þess að færa sig yfir í það stjórnlynda horf sem þarna er á ferðinni.

Mér finnst dálítið merkileg, þegar ég hugsa um það, viðhorfin sem mér sýnast vera uppi í Sjálfstæðisflokknum í dag og hafa birst okkur m.a. í fjölmiðlamálinu eins og það kom hér inn, í þessu máli og í fleiri málum, og hvað Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn stjórnlyndur. Stjórnlyndið á heima í Sjálfstæðisflokknum en frjálslyndið í Samfylkingunni.