133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

niðurskurður á framlagi til verknáms.

[13:43]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar vegna þeirrar umræðu sem hér er farin af stað. Ég skil ekki þetta upphlaup hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að vera að blása upp þetta mál, sem allir eru sammála um að þurfi að leysa. Allir fulltrúar í menntamálanefnd og allir fulltrúar í fjárlaganefnd. Það liggur fyrir samstaða hjá fulltrúum allra stjórnmálaflokka um að reyna að leysa þessi mál.

Ég hefði frekar haldið að hv. þm. Jón Bjarnason mundi koma hingað upp til að ræða um stöðu verk- og starfsnáms í íslenska menntakerfinu. Hann gerir það ekki. Þar eru vandamál, það liggur alveg fyrir. Starfs- og verknám hefur orðið undir í samkeppninni við bóknám. En ég hef saknað þess að einhverjar tillögur kæmu frá hv. þingmanni sem leitt gætu til að starfsnám og tækninám yrði metið til jafns við bóknám. Ég hlakka til að heyra sjónarmið hv. þingmanns í þessum málaflokki en þetta eru verkefni sem við þurfum að vinna að.

Ég vil benda á það, úr því að hv. þingmaður nefndi það ekki, að nýlega kom út skýrsla svokallaðrar starfsnámsnefndar sem starfaði undir forustu rektors Fjöltækniskólans og varaformaður þeirrar nefndar var skólameistari Iðnskólans í Reykjavík. Þar er lagt til að starfsnám og tækninám verði sett á sama stað og bóknámið og þetta eru tillögur sem við eigum að ræða í þinginu en ekki einhverja fjármuni sem þarf á einu ári inn í þennan málaflokk. Það verður að horfa til framtíðar og ræða tillögur sem eru til þess fallnar að rétta þennan kúrs um alla framtíð, ekki bara til að leysa einhvern tímabundinn vanda.