133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

afnám refsiákvæða vegna ærumeiðinga.

294. mál
[14:13]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Eiríki Jónssyni fyrir að flytja þetta mál inn til þeirrar umræðu sem hér hefur verið gerð svo rækileg skil og jafnframt segja að það var sérstaklega ánægjulegt að hlusta á þá umræðu sem hv. þingmaður átti í gær, þann orðastað sem hann átti við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, sem flutti mál sitt í gær sem var allt annars eðlis en það var um að þyngja refsingar og annað slíkt. Var það mjög ánægjulegt. Auðvitað var ég mjög stoltur af mínum manni hvernig hann rúllaði hinum unga þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Sigurði Kára Kristjánssyni, upp í röksemdafærslu fyrir málflutningi hans.

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að koma með þetta hingað inn og tek undir það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði áðan. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sú þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar taki það til gaumgæfilegrar skoðunar og málið fari hér í gegn og við reynum að klára það á þessu þingi.

Vonandi leggjast stjórnarliðar ekki gegn málinu vegna þess eingöngu að það kemur frá stjórnarandstæðingi. Hér er flutt mikilsvert mál. Það krefst mikillar og góðrar skoðunar.

Mér datt í hug, virðulegi forseti, þegar hv. þingmaður taldi upp ýmis lönd og sagði að pólitískum andstæðingum ríkjandi stjórnvalds sé varpað þar í fangelsi, og við heyrum oft um það í fjölmiðlum hvernig farið er með stjórnarandstæðinga í þeim löndum. Ekki er þetta nú svo slæmt á Íslandi. En einhverra hluta vegna kom allt í einu upp í huga minn sá ótti sem ég stundum kalla þrælsótta forstöðumanna ríkisstofnana þegar verið er að ræða fjárlög og fjárlagabeiðnir ríkisstofnana.

Þar er þetta komið á það stig, virðulegi forseti, í tíð núverandi ríkisstjórnar, að forstöðumönnum stofnana er nánast bannað að sýna fjárlagabeiðnir sínar. Kemur upp í huga minn eitt atvik sem ég hef áður gert að umtalsefni og var ákaflega sérstakt. Þegar forstjóri Hafrannsóknastofnunar var á fundi í sjávarútvegsnefnd til að ræða fjárlagabeiðnir og beðið var um fjárlagabeiðnir Hafrannsóknastofnunar, þá var því neitað. Af hverju var því neitað? Jú, vegna þess að sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórn hefur bannað forstöðumönnum ríkisstofnana að afhenda fjárlagabeiðnir sínar til þingmanna eða þingnefnda.

Það gekk svo langt, virðulegi forseti, að árið eftir þegar sama beiðni af þeim þingmanni sem hér stendur var borin fram var svarið þetta: Í ár var þess sérstaklega óskað af fjármálaráðuneytinu að engar skriflegar beiðnir væru lagðar fram til þingnefndar vegna fjárlagabeiðni Hafrannsóknastofnunar, heldur væru þær munnlegar. Það voru sem sagt pappírslaus viðskipti, ef svo má að orði komast.

Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál þegar þetta kemur upp í huga manns við umræðu um þetta. Sem betur fer er það nú ekki þannig að forstöðumönnum ríkisstofnana verði varpað í fangelsi ef þeir láta þetta fram koma, eins og gerist í ýmsum bananalýðveldum úti um allan heim með pólitíska andstæðinga. En það er ákaflega sorglegt að það skuli vera komið svo fyrir stjórnsýslunni að forstöðumönnum ríkisstofnana skuli vera bannað að gera þetta eins og ég hef gert hér að umtalsefni.

Það er einmitt þess vegna sem okkur berast skýringar á því á hverju ári og oft og tíðum fljótlega í byrjun árs þegar fjárlög hafa verið samþykkt, að ríkisstofnanir fá ekki það fé sem vantar til rekstrar og nægir þar t.d. að nefna Landspítala – háskólasjúkrahús og ýmsar aðgerðir sem gera á í heilbrigðiskerfinu. Það er átakanlegt að hitta fólk sem er sárkvalið og þarf að komast í liðskiptaaðgerðir en það er ekki hægt lengur vegna þess að kvótinn er búinn. Hann var búinn í ágúst/september. Þeir sem eru svo óheppnir að vera svona aftarlega á listanum við slíkar aðgerðir verða bara að þjást fram í janúar/febrúar þar til að ný fjárveiting er komin, sem svo auðvitað dugar ekki fyrir öllu.

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa þessu máli og flytja það inn í sali Alþingis.