133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heildarstefna í nýsköpun og atvinnuþróun.

300. mál
[14:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get ekki annað en lýst mig efnislega sammála þessari tillögu eða hugsuninni sem á bak við hana er í öllum aðalatriðum, þ.e. að þörf sé fyrir heildarstefnu í nýsköpunar- og atvinnuþróunarmálum og að slík stefna hafi ekki legið nægjanlega skýrt fyrir. Því er ég alveg sammála. Ég kýs að skilja tillöguna svo að hún nálgist hlutina út frá því.

Nú vill svo til að Alþingi hefur þegar samþykkt að ríkisstjórnin vinni framkvæmdaáætlun í þessum anda. Hún er kannski ekki undir alveg sama nafni en þannig er að 16. mars 2004 samþykkti Alþingi þingsályktun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Þar stendur m.a. í tillögugreininni sem samþykkt var að:

„Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. “

Það má segja að eini munurinn sé kannski að sú tillaga hafi horft meira til minni aðila, þ.e. smáfyrirtækja og meðalstórra fyrirtækja. En þá fer reyndar eftir því hvaða skilgreining er notuð hvort það tekur til mestalls atvinnulífs á Íslandi eða ekki. Þannig er nefnilega mál með vexti að ef við notum hinar evrópsku skilgreiningar, þ.e. viðmiðunartölu Evrópusambandsins um stærðir eininga í þessum efnum, hvað skuli teljast lítil og hvað meðalstór fyrirtæki, þá eru það ekki nema nokkrir tugir eða kannski hundrað stærstu fyrirtækja landsins sem fara upp fyrir þau mörk. Þar er um að ræða fyrirtæki sem velta meira árlega en vissum upphæðum í evrum eða hafa fleiri en 250 starfsmenn ef ég man rétt. Stór hluti íslenskra fyrirtækja telst því lítill eða meðalstór samkvæmt evrópskum skilgreiningum.

Þessi tillaga var flutt af okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og iðnaðarnefnd lagði til afgreiðslu hennar vorið 2004. Alþingi tók á sig rögg og samþykkti tillöguna þannig að hún er mótuð stefna Alþingis og liggur fyrir. Hins vegar hefur ríkisstjórnin ekki enn lagt fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun um aðgerðir á þessu sviði sem tillagan felur framkvæmdarvaldinu að vinna. Síðast þegar ég grennslaðist fyrir um stöðu málsins, sem var á útmánuðum í fyrra að mig minnir, var upplýst að þessi vinna væri í gangi. Hún hafði sem sagt dregist nokkuð umfram það sem tillagan gerði ráð fyrir, að slík áætlun lægi þegar fyrir og kæmi til staðfestingar strax á haustinu 2005 eða fyrir ári.

Gott og vel. Framkvæmdarvaldinu eða ráðuneytum og undirstofnunum þess hefur ekki unnist tími til að vinna verkið hraðar en þetta. En ég tek því ekki þegjandi ef vilji Alþingis, sem liggur ótvírætt fyrir í þessu efni, verður ekki virtur.

Ég er sammála hv. þm. Sigríði Ingvarsdóttur um að ýmislegt má vel segja um það sem hér hefur verið gert á undanförnum árum. Aðrir hlutir eru ekki í eins góðu horfi. Ég tel að tvennt hafi verið nýsköpun, þróun og starfi sprotafyrirtækja mótdrægt undanfarin ár. Annars vegar eru það óhagstæð ytri skilyrði sem leiða af stóriðjustefnunni og af ástandi í okkar hagkerfi sem stóriðjustefna og ýmsir fleiri þættir bjuggu til og lýstu sér lengst af í mikilli þenslu, háu gengi krónunnar og gríðarlega háum vöxtum sem síðan hefur slegið út í snörpu gengisfalli á fyrstu mánuðum þessa árs og ýmiss konar jafnvægisleysi í hagkerfinu en áframhaldandi háum vöxtum. Seðlabankinn sér enn ekki fært að hefja lækkunarferli, samanber nýjustu fréttir úr þeirri átt. Fleiri atriði þessu tengd mætti nefna sem tvímælalaust hafa valdið óhagstæðum skilyrðum fyrir nýsköpunar- og þróunarstarf. Aðstæður á vinnumarkaði hafa sitt að segja, samkeppni um húsnæði, vinnuafl og annað á þenslutímum af því tagi sem við höfum upplifað. En sérstaklega er það auðvitað óhagstætt hvers kyns nýsköpunarviðleitni á sviði útflutnings rétt eins og þetta er óhagstætt útflutningsgreinum og samkeppnisgreinum almennt.

Við verðum víst að viðurkenna og horfast í augu við það að við Íslendingar höfum ýtt úr landi með þessu ástandi þó nokkrum eftirsjárverðum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem ýmist hafa farið í heilu lagi en í öðrum tilvikum hefur uppbygging á vegum slíkra fyrirtækja orðið erlendis, sem ella hefði kannski getað orðið hér.

Hinn meginþröskuldurinn sem viðleitni af þessu tagi þarf að yfirstíga, sem hefur verið allt of hár undanfarin ár, er aðgangur að fjármagni. Þar verð ég að vera ósammála hv. þingmanni ef ég átti að skilja það svo að hv. þingmaður teldi að undanfarin ár og eins og sakir standa núna sé ástandið fullnægjandi í þeim efnum. Því fer fjarri að mínu mati. Staðreyndin er sú að allt of mörg af þessum verkefnum verða úti á bilinu frá því að fæðast sem góð hugmynd og komast eitthvað af stað, fá jafnvel svolítinn stuðning í fæðingunni frá því veikburða kerfi sem við lýði er í gegnum atvinnuþróunarfélögin, Nýsköpunarmiðstöð o.s.frv. en ná aldrei þangað í ferli sínu að verða virkilega aðlaðandi kostur fyrir stærri fjárfesta að leggja í þá fjármuni. Hið stóra bil sem þar myndast á æviferli nýsköpunar- og sprotafyrirtækja er þannig að mörg þeirra verða einfaldlega úti, frjósa í hel á þessum tíma í þeim næðingi sem ríkir í þessum efnum svo maður taki sér miklar myndlíkingar í munn. Einhvers staðar á þessu bili verða menn uppiskroppa með fé, búnir með allt sem þeir áttu sjálfir og við þekkjum öll örugglega margar áhugaverðar og spennandi tilraunir þar sem einstaklingar, fjölskyldur eða jafnvel einstök byggðarlög hafa lagt mikið á sig við að reyna að koma áhugaverðum viðskiptahugmyndum og nýsköpunarhugmyndum úr vöggu og til manns en menn tomma aldrei alla leið.

Þarna þarf að taka á. Í þeirri tillögu sem Alþingi samþykkti 16. mars 2004 er sérstaklega horft á þennan þátt. Það er því almennt þörf aðgerða á þessu sviði og þarft að farið verði yfir þetta. Ég tel hið besta mál að viðkomandi þingnefnd fari yfir þessa tillögu. Þá má kanna hvar viðleitni stjórnvalda að öðru leyti er á vegi stödd í þessum efnum.

En aðalatriðið er að ef við ætlum virkilega að láta stóra hluti gerast í þessum efnum, Íslendingar, þá verðum við að skapa mun hagstæðari skilyrði en hér hafa ríkt undanfarin missiri. Annars flæmum við þessa starfsemi úr landi eða hún kemst einfaldlega ekki á legg. Við verðum að leggja talsvert meiri fjármuni í þetta, t.d. í starf atvinnuþróunarfélaganna úti um landið. Þau eru allt of veikburða og geta nánast ósköp lítið umfram það að ná endum saman í eigin rekstri, þ.e. að greiða atvinnuþróunarfulltrúunum, tveimur, þremur mönnum laun og eiga fyrir bréfsefni. Mikið meira geta þau ekki mörg hver. Það er ófremdarástand og þar þarf að taka á. Ég ætla mér ekki, forseti, vegna þess að tími minn er búinn að nefna stöðu Byggðastofnunar og ýmislegt fleira sem taka mætti inn í samhengið.