133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

heildarstefna í nýsköpun og atvinnuþróun.

300. mál
[14:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég átti svo sem ekki von á öðru en að við reyndumst sammála einnig hvað varðar aðgang nýsköpunarstarfsins að fjármagni. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það ágætlega vegna starfa sinna. Þetta kerfi er almennt of veikt og of litlir fjármunir þar á ferð. Þar er einmitt ákveðið bil sem mönnum gengur illa að brúa hvað sem við köllum það: gjá, nýsköpunargjá, fjármögnunargjá eða hvað það nú er.

Vert er að nefna að meira að segja það tæki sem helst átti að nýtast í þessum efnum, þ.e. Nýsköpunarsjóður var þannig á sig kominn hér á alllöngu árabili að hann var í raun fullfjárfestur, búinn með handbært fé og gerði ekki betur en verja sinn hlut í þeim efnum. Það kom t.d. langt tímabil er hann hafði úr engu að moða. Það hefur eitthvað lagast eða á að lagast með fjármunum sem hrjóta áttu af borðum við sölu Símans, held ég, en miklu betur þyrfti að gera.

Varðandi aðstöðu fyrirtækjanna er óhjákvæmilegt að nefna annað, úr því að við erum að tala um söguna og fyrirtæki eins og Marel, Össur, Sæplast þess vegna eða mörg önnur, að sú var tíðin að öflugir innlendir aðilar settu umtalsvert fjármagn, í formi nýs hlutafjár, inn í nýsköpunarfyrirtæki af þessu tagi. Ég spyr: Hvar er það í dag? Ég verð ekki var við annað en að öll orka hinna stóru fjárfesta á Íslandi fari nú til útlanda. Það heyrir nánast sögunni til að þau leggi með yfirveguðum, markvissum hætti fé inn í nýsköpunarfélög eins og gert var hér á alllöngu árabili, t.d. Burðarás hjá Eimskip og fleiri slíkri aðilar gerðu það og meira að segja Sambandsfyrirtækin á meðan þau voru á sinni tíð. Þótt þar gengi ekki allt upp þá gekk margt upp og sum þau fyrirtæki sem við erum svo stolt af í dag eiga þessu að verulegu leyti tilvist sína að þakka.

Ég vil svo segja það um mismunandi ályktanir eða mismunandi nálgun mála að auðvitað verður í öllu falli að fara rækilega yfir það og samræma hvernig menn ætla framkvæmdarvaldinu að leggja þessa hluti (Forseti hringir.) upp í hendur Alþingis.