133. löggjafarþing — 20. fundur,  3. nóv. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[15:02]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra með síðari breytingum. Það er næstum árviss atburður að inn í þingið kemur hækkun á þessum nefskatti sem eru greiðslurnar í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég bjóst frekar við að hæstv. ráðherra kæmi með aðeins viðameira frumvarp um þetta mál. Sérstaklega í ljósi þess að það kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni og fulltrúum frá eldri borgurum þar sem var ákveðið að skila ætti þessum peningum meira í uppbyggingu en gert hefur verið á undanförnum árum. Samkvæmt því samkomulagi á að auka greiðslurnar til uppbyggingar á næsta ári um helming, minnir mig, og síðan heldur meira á næstu árum þar á eftir. Ég hefði talið fulla ástæðu til að taka á því við þessa lagasetningu og gera á því lagabreytingu. Ég bendi á að sá þingmaður sem hér stendur hefur, ásamt fimm öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra einmitt um þetta ákvæði sem snýr að Framkvæmdasjóði aldraðra, þar sem lagt er til að þessir peningar, þessi nefskattur sem fer í framkvæmdasjóðinn, fari ekki í rekstur stofnanaþjónustu fyrir aldraða nema í sérstökum tilvikum og að það þurfi þá að koma fyrir þingið og Alþingi að samþykkja það, vegna þess að þessi sjóður var settur á laggirnar til að byggja upp hjúkrunarþjónustu fyrir þá sem þurfa á henni að halda.

Í dag er það svo að á fimmta hundrað manns bíður eftir hjúkrunarplássum. Flestir þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu samkomulagi við eldri borgara, sem ég vil frekar kalla yfirlýsingu, er talað um að gert sé ráð fyrir að þetta mál verði leyst á næstu árum. En svo er ekki. Það þarf meiri uppbyggingu. Það er líka talað um að það eigi að auka heimaþjónustuna. Ég vil minna á að það er stór hópur fólks sem getur ekki nýtt sér heimaþjónustuna. Það kom einmitt fram í umræðu um stöðu heilabilaðra og aðstandenda þeirra hér fyrir skömmu í þinginu að það fólk getur margt hvert ekki nýtt sér heimaþjónustuna. Sömuleiðis vantar tilfinnanlega skammtímavist fyrir þennan hóp, en talið er að um 3.000 manns séu haldnir þeim sjúkdómi í dag á Íslandi.

Í dag er það svo að tvö skammtímavistunarúrræði eru fyrir þennan hóp á Landspítalanum eða á Landakoti innan um mjög mikið veika einstaklinga á þriggja manna stofum, tvö pláss á sama tíma og Norðurlandaþjóðirnar, a.m.k. Danir, eru með eitt pláss á hverja þúsund íbúa í skammtímavist. Og í ljósi þess hve margir þessara sjúklinga eru í heimahúsum verður að koma til móts við þær fjölskyldur sem eru með sitt veika fólk heima undir miklu álagi. Það þarf sérstaklega að fjölga skammtímaúrræðum fyrir þennan hóp.

Auðvitað ættu peningar úr Framkvæmdasjóði aldraðra að fara í það. Hæstv. heilbrigðisráðherra viðurkenndi það og sagði í þessum ræðustóli þegar við ræddum málefni heilabilaðra að þessi úrræði þyrftu að vera fleiri. Ég tek undir það. Þau voru fleiri, þeim hefur verið fækkað, bara nýverið var þeim fækkað um helming. Þau voru fjögur en eru nú tvö.

Ég get því ekki orða bundist núna þegar við ræðum greiðslur í Framkvæmdasjóð aldraðra, um það hvernig ástandið er í þessum málaflokki, hvernig ástandið er í hjúkrunarmálunum, og minni á að stór hluti greiðslna í sjóðinn hefur ekki skilað sér í það sem honum var ætlað, þ.e. í uppbyggingu. Þó svo að áform séu uppi núna, nokkrum mánuðum fyrir kosningar, að það eigi að fara að skila þessum peningum þá er það ansi seint.

Ég tel, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefði átt að koma með lagabreytingu í anda þess samkomulags sem gert var við fulltrúa eldri borgara í nefnd Ásmundar Stefánssonar á vegum forsætisráðherra. Ég spyr hæstv. ráðherra heilbrigðismála hvort ekki standi til að gera breytingar á lögum um málefni aldraðra í framhaldi af þeirri yfirlýsingu og hvenær slíkt frumvarp sé þá væntanlegt inn í þingið. Því það dugar lítt að vera með einhver loforð um þessi mál ef lagasetning fylgir ekki í kjölfarið. Ég minni bara á loforðið við öryrkjana fyrir síðustu kosningar þar sem aldurstengda örorkuuppbótin sem þeir töldu að þeim hefði verið lofað skilaði sér ekki og dómur í máli þeirra núna í vikunni segir að slík samkomulög haldi ekki, að það sé ekkert hægt að treysta því að staðið verði við þau. Ég tel að þarna þyrfti að koma til lagasetning, að þau atriði sem yfirlýsingin við eldri borgara fjallaði um þyrftu að koma í frumvarpsformi frá hæstv. ráðherra. Þess þarf auðvitað og að kveða fastar á um það að þessir peningar, þessi nefskattur skili sér í það verkefni sem honum er ætlað.

Hvert einasta mannsbarn sem borgar skatt greiðir þennan skatt nema þeir sem orðnir eru 70 ára og eldri og þeir sem eru undir ákveðnum tekjuviðmiðunum. Fyrst ég er farin að ræða þessi mál get ég ekki annað en tekið undir með hv. þm. Pétri Blöndal um að nefskattar eru ósanngjarnir þegar allir borga sömu upphæð. Ég minni á að það er fjöldi fólks með mjög lágar tekjur og það munar um 6.000–7.000 kr. í aukinni skattbyrði þó svo að hátekjufólkið muni ekkert um þetta. Þetta eru bara smápeningar fyrir það. Þetta er ósanngjarn skattur. En þetta er markaður tekjustofn til að byggja upp hjúkrunarþjónustuna fyrir þennan hóp aldraðra sjúklinga sem þegar er búinn að skila sínu til samfélagsins. Ég vil því fara fram á að frumvarpið sem ég er 1. flutningsmaður að, þskj. 98, um að peningar úr sjóðnum fari ekki í rekstur nema Alþingi samþykki það sérstaklega, verði tekið til umfjöllunar um leið og þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra aftur: Má vænta frumvarps frá hæstv. ráðherra í anda þess samkomulags eða yfirlýsingar sem gerð var milli ríkisstjórnarinnar og eldri borgara?